Árið 2010 og horfur 2011

Í tengslum við útsendingu áramótayfirlita hafa Íslensk verðbréf tekið saman upplýsingar um það helsta sem gerðist á verðbréfamörkuðum árið 2010 og eins horfur fyrir 2011.Í tengslum við útsendingu áramótayfirlita hafa Íslensk verðbréf tekið saman upplýsingar um það helsta sem gerðist á verðbréfamörkuðum árið 2010 og eins horfur fyrir 2011.


 

Efnisyfirlit



Innlendir þættir 2010

Helstu hagtölur

Árið 2010 var ár erfiðleika og aðlögunar í íslensku efnahagslífi en árið einkenndist af aðlögun markaða og efnahagslífs eftir efnahagshrunið 2008.  Lítill gangur var í íslensku efnahagslífi á árinu. 

Til marks um það áætlar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að landsframleiðslan hafi dregist saman um 3,0% á árinu.  Samdrátturinn var á öllum sviðum.  Einkaneysla minnkaði um 0,3%. 

Rekstur ríkisins dróst saman og minnkaði samneysla um 3,8% og fjárfestingar um 4,0%.  Samdráttur var á útflutningi en hann dróst saman um 0,2% en 2,1% vöxtur var á innflutningi. 

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var því neikvætt.  Viðskiptajöfnuður var áætlaður neikvæður um 4,0% af landsframleiðslu en mikill afgangur var af vöru- og þjónustujöfnuði en á móti var mikill halli af þáttatekjujöfnuði.  

 Hinn svokallaði undirliggjandi viðskiptajöfnuður, en í honum eru ógreiddir áfallnir vextir vegna banka í slitameðferð dregnir frá, var mun hagstæðri.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að hann hafi verið jákvæður um 12,4% af landsframleiðslu á árinu 2010. Mikið atvinnuleysi var á Íslandi á árinu 2010 en meðal atvinnuleysi ársins var 8,1%. 

 Horfur eru á hóflegum hagvexti íslenska hagkerfisins á árinu 2011 en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að hann verði 2,0% á árinu.  Hagvöxtur verði knúinn áfram af einkaneyslu en gert er ráð fyrir því að hún aukist um 3,0%. 

Einnig er gert ráð fyrir verulegum vexti í fjárfestingum um 15,5%.  Hins vegar er gert ráð fyrir að samneysla minnki um 4,3%.

 

Íslenska krónan

Gengi íslensku krónunnar styrktist nokkuð á árinu 2010.  Í ársbyrjun var gengisvístalan 232,8 stig en í árslok var hún 208,0.  Krónan styrktist því um 11,92% á árinu. 

Krónan var í hægum styrkingarfasa nær allt árið en sterkust var hún í september þegar gengisvístalan fór undir 205 stig. 

Í heildina má segja að gengi íslensku krónunnar hafi verið afskaplega stöðugt á árinu 2010. 

Ólíklegt er að miklar breytingar verði á gengi íslensku krónunnar á meðan ströng gjaldeyrishöft eru við lýði. 

Gengi hennar virðist hafa náð ákveðnu jafnvægi þannig að afgangur af vöruskiptum og þjónustu dugir fyrir halla á þáttatekjum.   

Ekki eru líkur á að veruleg slökun verði á höftunum í ár og því má gera ráð fyrir litlum breytingum á gengi krónunnar árið 2011.

 

Verðbólga

Lítil verðbólga var á árinu 2010.  Vísitala neysluverðs hækkaði einungis um 2,6% og þarf að fara allt aftur til ársins 2003 til að finna minni verðbólgu. 

Styrking krónunnar og lítil eftirspurn í íslenska hagkerfinu stuðluðu að lítilli verðbólgu.  Áfram er búist við lítilli verðbólgu í ár.  Mikill slaki í hagkerfinu og lítil eftirspurn ættu að leiða til lítilla verðlagshækkana. 

 

Vextir

Miklar vaxtalækkanir einkenndu árið 2010.  Í upphafi árs voru stýrivextir Seðlabanka Íslands 10,0%.  Vextir voru lækkaðir jafnt og þétt á árinu og voru komnir niður í 4,5% í árslok.  Hafa vextir Seðlabankans aldrei verið eins lágir og þeir eru nú og sýnir það vel hinn mikla slaka sem er í íslensku atvinnulífi. 

Horfur eru á smávægilegum vaxtalækkunum fyrri hluta árs 2011.  Síðan má búast við að vaxtahækkunarferli hefjist á árinu 2012 samhliða bata í efnahagslífi og því að einhver skref verði stigin í afnámi gjaldeyrishaftanna.

 

Innlend hlutabréf

Eftir tvö slæm ár var góður viðsnúningur á íslenskum hlutabréfamarkaði.  Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 14,6% á árinu 2010. Össur og Marel leiddu hækkanir en Össur hækkaði um 31,4% og Marel um 60,5% en saman vigta þessi félög 68% í vísitölunni.

Velta með íslensk hlutabréf var afskaplega lítil en velta með hlutabréf í Kauphöll Íslands nam einungis 25 ma. kr. árið 2010. 

Árið áður var veltan 48 ma. kr. en til samanburðar var hún 3.096 ma. kr. árið 2007.

Mikil óvissa er um framtíð íslenska hlutabréfamarkaðsins.  Velta er sáralítil og verðmyndun óvirk. 

Auk þessa eykur það enn óvissuna að stærsta félagið, Össur, verður afskráð af markaðinum í ár. 

Vonast er eftir að nýjum félögum fjölgi og markaðurinn nái aftur viðunandi stærð innan nokkurra ára. 

Þrátt fyrir þetta eru horfur á góðri ávöxtun á íslenskum hlutabréfamarkaði í ár. 

Verðlagning félaga er sanngjörn og kaupkraftur er mikill ef hann er settur í samhengi við litla stærð hlutabréfamarkaðsins.

 

Innlend skuldabréf

Markaður með íslensk ríkisskuldabréf var líflegur á árinu.  Velta með ríkistryggð skuldabréf var 2.815 ma. kr. sem er svipuð velta og árið 2009. 

Mest velta var með ríkisbréf 1.854 ma. kr. og íbúðabréf en viðskipti með þau var 876 ma. kr.  Velta í Kauphöllinni á ríkisvíxlum var 78 ma. kr.  Lítil viðskipti voru með aðra flokka ríkisskuldabréfa.


Þriðja árið í röð skiluðu íslensk ríkisskuldabréf góðri ávöxtun. 

Best var ávöxtun langra óverðtryggðra skuldabréfa en vístala þeirra hækkaði um 21,6% á árinu. 

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 12,5% og vísitala stuttra verðtryggðra skuldabréfa hækkaði um 9,8%.

Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði jafnt og þétt frá ársbyrjun til september. 



Miklar vaxtalækkanir, mikill kaupkraftur, sem tilkominn er vegna gjaldeyrishafta, og lítið framboð af öðrum fjárfestingakostum leiddi til mikillar eftirspurnar eftir ríkistryggðum skuldabréfum.

Í upphafi árs var ávöxtunarkrafa mikilvægustu íbúðabréfaflokkanna 3,8%. 

Ávöxtunarkrafan náði lágmarki í september þegar hún fór undir 2,5%.  Síðan hækkaði krafan skarpt og náði jafnvægi nálægt 3,3%. 

Ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkaði mikið á árinu.  Ástæður þess eru að mestu þær sömu og voru fyrir lækkun á ávöxtunarkröfu íbúðabréfa. 

Auk þessa lækkuðu verðbólguvæntingar markaðsins sem leiddi til lækkunar á verðbólguálagi og verulegrar lækkunar á ávöxtunarkröfu ríkisbréfa.

Nú er erfiðara en oft áður að spá fyrir um ávöxtun á íslenskum ríkisskuldabréfum.  Ávöxtunarkrafa þeirra er nú lág og lægri en íslenskir lífeyrissjóðir sætta sig við. 

Sú staðreynd ætti við eðlilegar kringumstæður að valda verðlækkun bréfanna.   Hins vegar leiða gjaldeyrishöft og lítið val annarra fjárfestingakosta til eftirspurnar eftir ríkisskuldabréfum.  Því er óvenjulega mikil óvissa um þróun á íslenskum skuldabréfamarkaði.

Nær enginn markaður var með íslensk fyrirtækja- og bankaskuldabréf árið 2010.  Viðskipti með þennan flokk voru einungis 3 ma. kr. Einnig voru lítil viðskipti með skuldabréf sveitarfélaga en þau námu einungis 21 ma. kr. á árinu. 


 

 

 

Erlendir þættir 2010

 

Erlend hagkerfi

Góður gangur var í helstu hagkerfum heimsins 2010 en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að hagvöxtur alls heimsins hafi verið 5,0%.  Þetta eru mikil umskipti frá árinu áður en þá var samdráttur um 0,6%. 

Hagvöxtur heimsins var að  mestu borinn uppi af þróunarlöndum.  Hagvöxtur þeirra var að meðaltali 7,1% en vöxtur þróaðra ríkja var aftur á móti 2,7%.  Mestur hagvöxtur í þróunarríkjum var í Kína en þar var hann 10,3% og í Indlandi 9,7%.  Hagvöxtur í Bandaríkjunum var 2,8%, í Þýskalandi 3,6% og 1,7% í Bretlandi. 

Áfram er gert ráð fyrir góðum gangi í efnahagslífinu 2011.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að hagvöxtur heimsins verði 4,4% á árinu 211.  Áfram er gert ráð fyrir miklum vexti í þróunarlöndum og er gert ráð fyrir 6,5% hagvexti þar. 

Sá vöxtur verði dreginn áfram af Kína og Indlandi en búist er við 9,6% hagvexti í Kína og 8,4% í Indlandi.  Í þróuðum löndum er gert ráð fyrir 2,5% hagvexti.  Bandaríska hagkerfið verður leiðandi þar með 3,0% hagvexti.  Í Þýskalandi er spáð 2,2% hagvexti og 2,0% í Bretlandi.

 

Erlendir gjaldmiðlar og hrávörur

Verulegar breytingar voru á gengi helstu gjaldmiðla á árinu.  Allir helstu gjaldmiðlar heimsins styrktust gangvart EUR.  Einna mest styrktust JPY og AUD en EUR veiktist um rúmlega 18% gangvart þessum gjaldmiðlum. 

ERU lækkaði um 7,2% gagnvart USD, um 3,4% gagnvart GBP og 15,7% gagnvart CHF.  NOK styrkist um 5,8% gagnvart EUR og SEK styrktist um 12,7% gagnvart EUR. 

Mikilvægustu nýmarkaðsmyntirnar styrktust einnig mikið gagnvart EUR á árinu.  BRL styrktist um 11,5%, INR um 10,8%, CNY um 10,4% og RUB um 5,7%. 

Mjög erfitt er að spá fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla á árinu 2011.  Einna helst virðist vera samhljómur um að gengi gjaldmiðla nýmarkaðslanda haldi áfram að styrkjast. 

Ástæðan er mikill viðskiptaafgangur í utanríkisviðskiptum þessara landa.  Auk þess styður betri gangur í efnahag þeirra og hærri vextir en í þróuðum löndum við gengi þessara gjaldmiðla.  

Líkt og aðrir eignaflokkar hækkuðu hrávörur á árinu 2010.  Olía hækkað um 1,9%, gull um 28,7%, kopar um 16,7% og maís hækkaði um 34,2%.  Ávöxtun fasteigna var góð á árinu.  Í Evrópu hækkaði vísitala fasteigna um 8,4%, í Bandaríkjunum um 26,9% og í Asíu um 17,1%. 

 

Erlend hlutabréf              

Árið 2010 var gott á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum en heimsvísitalan (MSCI) hækkaði um 9,3% á árinu.  Á stærstu þróuðu mörkuðunum hækkuðu bandarísk hlutabréf um 12,8%, bresk um 9,0% og þýsk um 16,1%.  

Norræn hlutabréf skiluðu góðri ávöxtun en samnorræna hlutabréfavísitalan hækkaði um 32,9%.  

Enn og aftur skilaði japanski hlutabréfamarkaðurinn slakri ávöxtun en hann lækkaði um 3,0%. 

Góð ávöxtun var á nýmörkuðum en ávöxtun hlutabréfavísitölu þeirra var 19,2% á árinu. 

Horfur eru á áframhaldandi góðri ávöxtun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. 

Það sem stuðlar að bjartsýni er að verðlagning alþjóðlegra hlutabréfa er góð, vextir eru lágir og efnahagshorfur ágætar. 

Hins vegar vegur nokkuð á móti óvissa um skuldastöðu ýmissa Evrópuríkja auk þess sem hætta er á verðbólgu og vaxtahækkunum í mikilvægustu nýmarkaðslöndunum.

 

 

Erlend skuldabréf

Erlend skuldabréf skiluðu góðri ávöxtun á árinu 2010. Hæstri ávöxtun skiluðu bandarísk hávaxta skuldabréf (e. low grade).  Ávöxtun þeirra var 15,0%.  Þar á eftir voru skuldabréf fyrirtækja í nýmarkaðsríkjum en vísitala þeirra hækkaði um 13,1%. 

Evrópsk hávaxta skuldabréf hækkuðu um 12,3%.  Almennt skiluðu ríkisskuldabréf góðri ávöxtun á árinu 2010 en heimsvísitala þeirra hækkaði um 8,7%. 

Horfur eru á góðri ávöxtun áhættusamari skuldabréfa á árinu 2011.  Áhættuálag hávaxta skuldabréfa er enn nokkuð hátt og að öllum líkindum hærra en eðlilegt er miðað við núverandi horfur í afkomu áhættusamari fyrirtækja. 

Hins vegar eru horfur á slakri ávöxtun alþjóðlegra ríkisskuldabréfa á árinu 2011 enda er ávöxtunarkrafa þeirra mjög lág í sögulegu samhengi.  Sú staðreynd og horfur á vaxtahækkunum á helstu mörkuðum seinnipart ársins 2011, eða í byrjun næsta árs, valda líklega hækkun á ávöxtunarkröfu ríkistryggðra skuldabréfa.

 

 

Horfur ársins 2011

 

Við teljum að á árinu haldi óverðtryggðir innlánsvextir áfram að lækka og skili lítilli raunávöxtun. Einnig er viðbúið að verðtryggð innlán lækki nokkuð.

Líkur eru á því að ríkistryggð skuldabréf munu gefa nokkuð misjafna ávöxtun eftir eðli þeirra. Verðtryggð bréf eru líkleg til að gefa nokkuð góða ávöxtun, en stutt óverðtryggð bréf eru fremur dýr.

Varðandi aðra eignaflokka s.s. hlutabréf þá lítur árið ágætlega út og er líklegra en hitt að bæði innlend og erlend hlutabréf geti hækkað nokkuð. Innlendur hlutabréfamarkaður er þjakaður af fáum valkostum en þeir kostir sem eru fyrir á markaðinum og kunna að bjóðast á árinu geta hækkað verulega, þó svo að ekki komi til mikils innflæðis fjármagns inn á hlutabréfamarkaðinn. 

Fjárfesting og neysla á heimsvísu er á uppleið sem hefur alla jafna jákvæð áhrif á hlutabréfaverð. Við teljum meiri líkur á hóflegri veikingu krónunnar en styrkingu sem hefði jákvæð áhrif á ávöxtun erlendra eigna og verðtryggðra eigna.

Útlit er fyrir að á árinu haldi óverðtryggðir innlánsvextir áfram að lækka og skili lítilli raunávöxtun. Einnig er viðbúið að verðtryggð innlán lækki nokkuð.  Líkur eru til þess að ríkistryggð skuldabréf munu gefa nokkuð misjafna ávöxtun eftir eðli þeirra.

 

Fyrirvari

Ofangreint er unnið af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa. Um er að ræða stutta samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Samantektin er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður samantektarinnar eru  Björn Snær Guðbrandsson og Sveinn Torfi Pálsson, forstöðumenn eignastýringar Íslenskra verðbréfa.