Árið 2013 og horfur 2014

Í tengslum við útsendingu áramótayfirlita hafa Íslensk verðbréf tekið saman upplýsingar um það helsta sem gerðist á verðbréfamörkuðum árið 2012 og einnig er farið yfir horfur ársins 2013.

 

Ytra umhverfi 2013 

Sæmilegur gangur var í íslensku efnahagslífi á árinu 2013.  Seðlabankinn áætlar að landsframleiðsla hafi aukist um 2,3% á árinu.  Hagvöxturinn var drifinn áfram af einkaneyslu sem jókst um 1,9%, og útflutningi sem jókst um 3,4%. Innflutningur jókst minna en útflutningur þannig að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var jákvætt.  Viðskiptajöfnuður var áætlaður jákvæður um 0,5% af landsframleiðslu.  Mikill afgangur var af vöru- og þjónustujöfnuði en mikill halli var hins vegar af jöfnuði þáttatekna.  Hinn svokallaði undirliggjandi viðskiptajöfnuður, en í honum eru ógreiddir áfallnir vextir vegna banka í slitameðferð dregnir frá, var hagstæður.  Seðlabankinn áætlar að hann hafi verið jákvæður um 3,1% á árinu 2013.

Búist er við ágætum vexti íslenska hagkerfisins á árinu 2014.  Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hann verði 2,6% og verði einkum knúinn áfram af vexti einkaneyslu, fjárfestingu og auknum útflutningstekjum.

Gengi íslensku krónunnar styrktist nokkuð á árinu 2013.  Í ársbyrjun var gengisvísitalan 232,7 stig en í árslok var hún 210,1 stig.  Krónan styrktist því um 10,8% á árinu.  Krónan hefur verið óvenju stöðug síðustu ár.  Ástæður þessa stöðugleika eru fyrst og fremst gjaldeyrishöftin.  Gengi krónunnar hefur í skjóli þeirra náð ákveðnu jafnvægi þannig að afgangur af vöruskiptum og þjónustu dugir fyrir halla á þáttatekjum.    Auk þess hefur Seðlabankinn aukið inngrip á gjaldeyrismarkaðinn en þau hafa aukið stöðugleika. Því eigum við ekki von á miklum breytingum eða sveiflum á gengi krónunnar í ár.

Nokkur verðbólga var á árinu 2013.  Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,7% sem var heldur minna en árið áður.  Lækkun verðbólgu var einkum vegna styrkingar krónunnar en á móti henni vóg hækkun á húsnæði og launahækkanir.  Búist er við lítilli verðbólgu í ár.  Ástæður þess eru fyrst og fremst styrking krónunnar sem ekki er að fullu komin inn í verðlag.  Að auki eru horfur á að launahækkanir verði hóflegar og stuðli því ekki að mikilli verðbólgu.

Misjafn gangur var í helstu hagkerfum heimsins 2013.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að hagvöxtur alls heimsins hafi verið 3,0%.  Þetta er svipaður hagvöxtur og árið áður.  Eins og síðustu ár var hagvöxtur heimsins borinn uppi af þróunarlöndum.  Vöxtur þeirra var að meðaltali 4,7% en hjá þróuðum ríkjum var hann að meðaltali 1,3%.  Enn var mestur hagvöxtur hjá stærri ríkjum í Kína en þar var hann 7,7% og á Indlandi 4,4%.  Hagvöxtur í Bandaríkjunum var áætlaður 1,9%, í Þýskalandi var hann 0,5% og 1,7% í Bretlandi. 

Gert er ráð fyrir aðeins betri gangi í efnahagslífi heimsins í ár en árið 2013.  Betri gangur verður einkum vegna meiri hagvaxtar í þróuðum ríkjum og þá sérstaklega í sunnanverðri  Evrópu.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur heimsins verði 3,7% á árinu 2014.  Áfram er gert ráð fyrir góðum vexti í þróunarlöndunum en þar er gert ráð fyrir 5,1% hagvexti.  Sá vöxtur verði enn og aftur mestur í Kína og Indlandi en búist er við 7,5% hagvexti í Kína og 5,4% á Indlandi.  Í þróuðum löndum er gert ráð fyrir 2,2% hagvexti.  Bandaríska hagkerfið verði með 2,8% vöxt en á evrusvæðinu er gert ráð fyrir 1,0% vexti. 

  

Innlendir markaðir           

Góð hækkun var á íslenska hlutabréfamarkaðinum á árinu 2013 en úrvalsvístalan (OMXI6) hækkaði um 18,9% á árinu.  Velta með íslensk hlutabréf var mikil og var 250,8 ma. kr.  Þetta er mikil aukning en árið áður var veltan aðeins 88,0 ma. kr.  Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er því hratt að taka við sér eftir mikla lægð.

Þrjú ný fyrirtæki voru skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn.  Þetta voru tryggingafélögin Tryggingamiðstöðin og VÍS auk olíufélagsins N1.  Þeim var vel tekið og hækkaði gengi þeirra nokkuð eftir skráningu.  Von er á fleiri fyrirtækjum á markað á þessu ári og má búast við að markaðurinn vaxi enn frekar.  Horfur eru á ágætri ávöxtun á íslenskum hlutabréfum í ár.  Verð íslenskra hlutabréfa er orðið nokkuð hátt en á móti vegur að mikill undirliggjandi kaupkraftur er á markaðinum enda lítið um góða fjárfestingarkosti fyrir íslenska fjárfesta vegna gjaldeyrishaftanna.

Markaðurinn með íslensk ríkisskuldabréf var líflegur á árinu.  Veltan í Kauphöllinni með ríkistryggð skuldabréf var 1.773 ma. kr. sem þó er 22,7% minni velta en árið áður.  Sem fyrr var mest velta með ríkis- og íbúðabréf.

Slök ávöxtun var á  íslenskum ríkisskuldabréfum.  Skuldabréfavísitala Íslenskra verðbréfa hækkaði eingöngu um 3,1%.  Ástæður slakrar ávöxtunar eru nokkrar.  Sú mikilvægasta er þó sú að íslensk skuldabréf höfðu skilað góðri ávöxtun síðustu fimm árin þar á undan.  Því var ávöxtunarkrafa þeirra orðin mjög lág og lítið svigrúm til hækkana.  Að auki stuðlaði aukin óvissa um Íbúðalánasjóð að lélegrar ávöxtunar íbúðabréfa en ávöxtun skuldabréfa ríkissjóðs var hins vegar betri.

Erfiðar er nú að spá fyrir um ávöxtun á íslenskum ríkisskuldabréfum.  Ávöxtunarkrafa þeirra er enn fremur lág og lægri en íslenskir lífeyrissjóðir sætta sig við.  Sú staðreynd ætti við eðlilegar kringumstæður að valda verðlækkun bréfanna.   Hins vegar leiða gjaldeyrishöft, lágt vaxtastig og lítið val annarra fjárfestingakosta til eftirspurnar eftir ríkisskuldabréfum.  Að auki er enn mikil óvissa um framtíð Íbúðalánasjóðs sem áfram mun hafa mikil áhrif á íslenskan skuldabréfamarkað.

  

Erlendir markaðir

Árið 2013 var gott á flestum alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum en heimsvísitalan (MSCI) hækkaði um 24,1% á árinu.  Á stærstu þróuðu mörkuðum hækkaði japanski markaðurinn mest en hann hækkaði um 56,7%.  Mikilvægasta bandaríska hlutabréfavísitalan (S&P 500) hækkaði um 29,6% og norræn hlutabréf hækkuðu um 18,1%.  Ástæður góðrar ávöxtunar eru nokkrar.  Mikilvægasta ástæðan er líklega sú að verðlagning alþjóðlegra hlutabréfa er góð, sérstaklega þegar lágt vaxtastig er haft í huga.  Lítið er orðið eftir af góðum fjárfestingatækifærum í skuldabréfum sem leiðir til hækkunar hlutabréfa.  Að auki þá dróg enn frekar úr ótta fjárfesta við skulda- og efnahagskreppuna í Evrópu sem stuðlaði að hækkun hlutabréfa.

Aftur á móti var heldur verri ávöxtun á nýmörkuðum, en vísitala hlutabréfa nýmarkaða lækkaði um 2,6% á árinu.  Ástæður þess voru nokkrar, en þar má meðal annars nefna óvissu um þróun á kínversku efnahagslífi og lækkun á hrávöruverði.  Einnig voru gjaldmiðlar og verðbréfamarkaðir nokkurra nýmarkaðsríkja, sem eiga það sameiginlegt að vera með verulegan viðskiptahalla, undir þrýstingi.  Það hafði síðan almennt neikvæð áhrif.

Horfur á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum eru ágætar.  Verðlagning þeirra er almennt góð, en sérstaklega eru hlutabréf nýmarkaðslanda ódýr.  Vextir eru lágir og verð skuldabréfa hátt.  Því má búast við viðunandi ávöxtun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í ár.