Breyting á Heimssjóði ÍV 31.12.2007

Þann 31.12.2007 voru gerðar breytingar á reglum Heimssjóðs ÍV, sem er sjóðsdeild í Verðbréfasjóði ÍV.  Markmið breytinganna er að draga úr áhættu sjóðsdeildarinnar með því verja eignasafnið fyrir breytingum á gengi  íslensku krónunnar (ISK) og þar með ná fram jafnari ávöxtun en áður.  Bréf þessa efnis hefur þegar verið sent á eigendur hlutdeildarskírteina í sjóðnum.

Breytingarnar er að finna undir 5. gr. reglna Verðbréfasjóðs ÍV þar sem bætt hefur verið við ákvæði varðandi gengisvörn. Hér að neðan er að finna ákvæðið sem bætt hefur verið við (skáletrað).

 Sjóðsdeildin tryggir eignasafn sitt fyrir undirliggjandi gjaldeyrisáhættu með fjárfestingu í tímabundnum framvirkum samningum í því skyni að verja höfuðstól safnsins í ISK á hverjum tíma. Gjaldeyrisvörnin fer þannig fram að keyptir eru  framvirkir samningar (að öllu jöfnu 3ja mánaða langir) þar sem gengi ISK er tryggt í lok samningstímans. Sjóðsdeildin hefur heimild til að vera með 90-110% gjaldeyrisvörn en leitast er við að samningsupphæðin endurspegli eins og unnt er undirliggjandi eignir sjóðsdeildarinnar á hverjum tíma. Breytist stærð sjóðsdeildarinnar skal gerður nýr samningur eða mótsamningur, eftir því hvað við á, svo gjaldeyrisvörn sé innan settra marka. Þegar samningur rennur út er hann, eftir því sem aðstæður gefa tilefni til, framlengdur eða gerður upp m.t.t. taps eða hagnaðar og þá nýr samningur gerður. 

Breytingarnar eru þess efnis að eftirleiðis verða eignir sjóðsdeildarinnar varðar fyrir breytingum á gengi ISK.  Með þeim hætti bætist vaxtamunur milli krónu og viðkomandi gjaldmiðla við ávöxtun undirliggjandi eigna í grunnmynt þeirra.

Við breytingarnar uppfærist nafnverð (einingafjöldi) hlutdeildarskírteina í Heimssjóði ÍV til samræmis við breytingu á skráningu undirliggjandi eigna sjóðsdeildarinnar úr bandaríkjadal (USD) yfir í ISK. Nafnverð margfaldast því með 61,85 (sem er skráð kaupgengi USD hjá Seðlabanka Íslands þann 31.12.2007). Virði (þ.e. einingafjöldi margaldaður með gengi sjóðs) verður því í ISK í stað USD áður.

Nánari upplýsingar um breytinguna og áhrif hennar á sjóðsdeildina er að finna í útboðslýsingu Verðbréfasjóðs ÍV sem nálgast má á heimasíðu Íslenskra verðbréfa hf. (http://www.iv.is/).  Einnig veita ráðgjafar Íslenskra verðbréfa hf. allar frekari upplýsingar.