Framkvæmdastjóraskipti hjá Íslenskum verðbréfum

Sævar Helgason lætur af störfum, Einar Ingimundarson tekinn við starfi framkvæmdastjóra.


Sævar Helgason hefur ákveðið að láta af starfi framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa eftir 13 ára starf og hefur Einar Ingimundarson, forstöðumaður lögfræðisviðs Íslenskra verðbréfa, verið ráðinn í hans stað. Gengið var frá framkvæmdastjóraskiptunum á fundi stjórnar Íslenskra verðbréfa fyrr í dag og tekur Einar við starfinu frá sama tíma.


Kveð félagið sáttur
“Þetta er sameiginleg ákvörðun mín og fjölskyldu minnar og ég tilkynnti stjórn félagsins hana á mánudeginum í liðinni viku,” segir Sævar Helgason. “Ég var ráðinn framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa árið 1999 og hef því gegnt starfinu í 13 ár. Á þessum tíma, sem hefur verið gríðarlega skemmtilegur en jafnframt mjög krefjandi, hef ég öðlast mikla reynslu, enda hafa verulegar breytingar átt sér stað á fjármálamarkaði frá árinu 1999.

NSævar Helgasonú finnst mér tímabært að láta gott heita og ætla að snúa mér að öðrum verkefnum. Fyrirtækið stendur vel og hefur skilað hagnaði samfellt frá árinu 2002. Eignir sem félagið stýrir fyrir hönd viðskiptavina nema nú 120 milljörðum króna. Ég tel mig því skila góðu búi og kveð félagið sáttur við mitt framlag.

Sem framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með frábæru samstarfsfólki, hluthöfum og stjórn sem hafa veitt mér mikinn stuðning. Ég vil því nota tækifærið og þakka þeim sem og viðskiptavinum Íslenskra verðbréfa fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf öll þessi ár,” segir Sævar.

„Um leið vil ég óska Einari Ingimundarsyni eftirmanni mínum alls hins besta. Ég er þess fullviss að hann muni leggja sitt af mörkum til að gera gott fyrirtæki enn betra.“


Eftirsjá að Sævari en væntum mikils af störfum Einars
Magnús Gauti Gautason, stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa, segir ákvörðun Sævars hafi komið stjórninni í opna skjöldu. “Það er eftirsjá að Sævari enda hefur hann unnið frábært starf í þágu félagsins. Um leið og við þökkum fyrir það viljum við óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Við kveðjum Sævar þó ekki alveg strax því hann mun verða eftirmanni sínum til halds og trausts á næstunni.”

Sem fyrr segir mun Einar Ingimundarson, forstöðumaður lögfræðisviðs Íslenskra verðbréfa, taka við framkvæmdastjórastarfinu og segir Magnús Gauti félagið heppið að hafa svo hæfan mann innanborðs. “Hann er bæði lögfræði- og hagfræðimenntaður og hefur verið hægri hönd Sævars undanfarin ár. Við treystum Einari því fyllilega til að taka við framkvæmdastjórastarfinu og væntum mikils af störfum hans,” segir Magnús Gauti enn fremur.

Einar Ingimundarson hóf störf hjá Íslenskum verðbréfum í maí 2008. Hann er lögfræðingur (mag.jur) frá Háskóla Íslands 2007 og hefur einnig lokið BS-prófi í hagfræði frá sama skóla. Einar hlaut hdl. réttindi í nóvember 2009.

Áður en Einar hóf störf hjá Íslenskum verðbréfum starfaði hann sem aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og þar áður sem fulltrúi hjá sýslumanninum á Akureyri. Á árunum 2000-2002 starfaði hann á verðbréfasviði Búnaðarbanka Íslands hf. og vann hjá Fjármálaeftirlitinu samhliða námi 2004-2005. Einar er fæddur 1974, kvæntur Bryndísi Maríu Davíðsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau fjögur börn.

 

Hlakka til að taka við starfinu
Einar kveðst hlakka til að taka við starfinu og segist þakklátur fyrir það traust sem honum hafi verið sýnt. „Starfið leggst mjög vel í mig og ég er þaEinar Ingimundarsonkklátur fyrir að fá þetta tækifæri. Því fylgir vitanlega mikil ábyrgð og undir henni ætla ég mér að standa gagnvart hluthöfum, viðskiptavinum, starfsmönnum og samfélaginu í heild.

Ég hef starfað hjá Íslenskum verðbréfum í rúm þrjú ár og veit að hér er góður og samhentur hópur starfsmanna sem hefur hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Sævar hefur stýrt félaginu farsællega og ég mun leggja mig allan fram til að félagið haldi áfram á sömu braut. Með þessa góðu samstarfsmenn er ég bjartsýnn á að svo verði.

Næstu vikur mun ég nota til að koma mér vel inn í starfið, setjast niður með samstarfsmönnum og viðskiptavinum og kynna mér væntingar þeirra og hugmyndir. Það er verkefni sem ég hlakka til að takast á við.“

Umsvifamikið eignastýringarfyrirtæki
Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki með viðskiptavini um allt land. Félagið var stofnað árið 1987 og er því í hópi elstu starfandi fjármálafyrirtækja landsins. Höfuðstöðvarnar eru á Akureyri en félagið er jafnframt með skrifstofu í Reykjavík. Starfsmenn eru 20 talsins. Viðskiptavinir Íslenskra verðbréfa eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, tryggingafélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar. Eignir í stýringu námu um 120 milljörðum króna í lok júní 2011 og hagnaður af starfsemi félagsins árið 2010 nam 170 milljónum króna. Félagið hefur skilað hagnaði óslitið frá árinu 2002.


Um Sævar Helgason
Sævar Helgason er fæddur árið 1973. Hann varð stúdent frá MA árið 1993, lauk sveinsprófi í málaraiðn frá VMA 1994, BS-prófi frá rekstrarfræðideild HA árið 1997 og löggildingarnámi í verðbréfamiðlun frá HÍ 1998. Hann starfaði hjá Landsbréfum á Akureyri og síðar á fyrirtækja- og stofnanasviði Viðskiptastofu Landsbanka Íslands og var ráðinn til Íslenskra verðbréfa í júlí 1998. Eiginkona Sævars er Sara Dögg Pétursdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau einn son og þrjár dætur.