Íslensk verðbréf hf. og Akureyrarbær gefa lögreglunni á Akureyri eftirlitsmyndavélar

Þrjár löggæslumyndavélar hafa verið settar upp í miðbæ Akureyrar og eru þær beintengdar lögreglustöðinni á Akureyri. Íslensk verðbréf hf. og Akureyrarbær tóku höndum saman um kaup og uppsetningu myndavélanna og er heildarkostnaður um 1,7 milljónir króna.  Nú þegar hefur fengist góð reynsla af notkun vélanna, en tvær þeirra voru settar upp og tengdar fyrir liðna verslunarmannahelgi. Þriðju vélina er verið að taka í notkun þessa dagana.

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir þennan búnað afar mikilvægan fyrir lögregluna og hann fagnar þessu framtaki Íslenskra verðbréfa og Akureyrarbæjar. „Tvær myndavélar hafa verið í notkun síðan fyrir verslunarmannahelgi og við erum mjög ánægðir með þær. Myndavélarnar eru sítengdar og þær sýna Ráðhústorg, Hafnarstræti og Geislagötu. Á þessu svæði er okkar reynsla að mestar líkur séu á að eitthvað geti út af brugðið.

Vélarnar eru með möguleika á upptöku og þær eru ekki vaktaðar nema við teljum að ástæða sé til og eitthvað sérstakt sé um að vera. Um vélarnar gilda sömu reglur og aðrar sambærilegar eftirlitsmyndavélar. Vélarnar hafa verið tilkynntar til Persónuverndar og sett hafa verið upp skilti í miðbænum sem upplýsa fólk um að svæðið sé vaktað með eftirlitsmyndavélum. Sambærilegar vélar hafa gefið góða raun í miðborg Reykjavíkur og enginn vafi er á að þær munu einnig nýtast okkur mjög vel hér.

Í mínum huga er mikilvægi vélanna af þrennum toga. Í fyrsta lagi gera þær okkur lögreglumönnum kleift að fylgjast vel með stöðu mála í miðbænum, í öðru lagi stuðla þær að meira öryggi borgaranna og löggæslumanna og í þriðja lagi geta upptökur úr vélunum nýst sem sönnunargögn í sakamálum. Það hefði t.d. verið lögreglunni mikilvægt að hafa upptökur úr slíkum eftirlitsmyndavélum þegar veist var að henni í miðbæ Akureyrar í tengslum við Bíladaga í júní sl.,“ segir Daníel Guðjónsson.  

Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, segir að fyrirtækið hafi fyrir nokkru lýst vilja til þess að leggja lögreglunni á Akureyri lið í hennar störfum og niðurstaðan hafi verið sú að það væri best gert með kaupum á umræddu eftirlitsmyndavélakerfi. „Lögreglan hefur lengi horft til þess að fá slíkan búnað í miðbæinn, en ekki haft fjárhagslegt svigrúm til að kaupa hann. Akureyrarbær var fús að taka þátt í verkefninu og niðurstaðan er sú að búnaðurinn er kominn upp og lögreglan lýsir mikilli ánægju með hann. Ég er mjög ánægður með þátttöku okkar hjá Íslenskum verðbréfum í þessu verkefni og tel að hér sé um mikið öryggisatriði að ræða fyrir borgarana og löggæslumennina,“ segir Sævar Helgason.  

Bæjarráð Akureyrar staðfesti 17. júlí sl. þátttöku í fjármögnun eftirlitsmyndavélanna. Í bókun bæjarráðs er getið um „mikilvægi þess að settar verði skýrar reglur um meðferð upptaka úr vélunum.“ „Akureyrarbær hefur og vill áfram leggja sitt af mörkum til þess að styðja lögregluna í sínum störfum og við teljum að þessar löggæslumyndavélar á miðbæjarsvæðinu hér á Akureyri sé ein leið til þess. Því miður, vil ég segja, virðist slíkur búnaður vera nauðsynlegur til að auka öryggi íbúa nú til dags. Reynslan segir okkur það,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri.