ÍV er aðalstyrktaraðili yngriflokka KA í knattspyrnu

Íslensk verðbréf aðalstyrktaraðili yngri flokka KA í knattspyrnu

Íslensk verðbréf verða aðal styrktaraðili yngri flokka Knattspyrnufélags Akureyrar í knattspyrnu næstu þrjú árin. Þetta var staðfest með samningi sem var undirritaður í hófi sem efnt var til í tilefni af 80 ára afmæli KA í gær, 8. janúar. Íslensk verðbréf hafa undanfarin fjögur ár styrkt yngriflokkastarf KA í knattspyrnu, en með þessum samningi er tekið mun stærra skref og Íslensk verðbréf verða aðalstyrktaraðili yngriflokkastarfs KA næstu þrjú árin.thtr4492_300

thtr4492_300Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, sagði við undirritun samningsins á 80 ára afmæli KA, að mikil ábyrgð hvíli á þeim sem starfi í þágu íþróttafélaga og það starf sem unnið hafi verið hjá KA hafi verið til fyrirmyndar, það þekki hann af eigin reynslu. „Þarna vinnur stór hópur mikið starf, að stórum hluta í sjálfboðavinnu, og þeim aðilum verður aldrei fullþakkað fyrir sitt starf í þágu KA og þar með samfélagsins í heild. Við erum afar stolt af þeim samningi sem við erum nú að gera við yngri flokka KA. Íslensk verðbréf hafa verið með styrktarsamning við félagið undanfarin fjögur ár, en nú var ákveðið að stækka samninginn verulega og að Íslensk verðbréf yrðu aðalstyrktaraðili yngri flokka KA. Við hjá ÍV lítum á málið þannig að fyrirtæki og stofnanir hafi mikla samfélagslega ábyrgð að styðja við bakið á slíkri starfsemi sem ég hef lýst hér, vegna þess gríðarmikilvæga starfs sem er hér unnið fyrir okkur íbúa svæðisins og börnin okkar,“ sagði Sævar Helgason.

Á komandi sumri munu iðkendur yngri flokka KA í knattspyrnu fá nýja búninga og verða Íslensk verðbréf með auglýsingu á brjósti þeirra. Einnig verða Íslensk verðbréf með auglýsingu á baki vindjakka sem allir iðkendur fá að gjöf fyrir næsta sumar.

thtr4504_300Óskar Þór Halldórsson, formaður yngriflokkaráðs KA, segir mikinn feng fyrir yngriflokkastarfið að fá stuðning jafn öflugs fyrirtækis og Íslenskra verðbréfa. „Stuðningur Íslenskra verðbréfa skiptir okkur gríðarlega miklu máli og ég vil þakka forsvarsmönnum fyrirtækisins fyrir þann skilning sem þeir sýna okkar starfi í verki með þessum samningi.

Samningur eins og þessi gerir okkur kleift að halda áfram öflugu starfi og bæta við það sem við höfum verið að gera. Ég tel óhikað að við getum sagt að yngriflokkastarf KA í knattspyrnu hafi á undanförnum árum verið að sækja í sig veðrið og gildir þá einu hvaða mælikvarði er notaður. Iðkendum hefur fjölgað verulega og ég vil segja að árangurinn inni á knattspyrnuvellinum hafi einnig verið góður. Til marks um það varð þriðji flokkur karla hjá KA Íslandsmeistari síðastliðið sumar og fimmti flokkur karla spilaði til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Það er mín trú og vissa að framtíðin sé björt hjá félaginu, efniviðurinn er til staðar og nú er það okkar að vinna rétt úr honum,“ segir Óskar Þór.