Mæðrastyrksnefnd styrkt um hálfa milljón króna

Íslensk verðbréf styrktu í vikunni Mæðrastyrksnefnd á Akureyri um hálfa milljón króna.

 

Íslensk verðbréf styrktu í vikunni Mæðrastyrksnefnd á Akureyri um hálfa milljón króna og mun nefndin nýta fjármunina til þess að styðja skjólstæðinga sína nú fyrir jólin.

Þetta er fimmta árið í röð sem Íslensk verðbréf færa nefndinni styrk, þar af hefur styrkurinn numið hálfri milljón króna undanfarin fjögur ár. Styrkurinn kemur í stað jólakorta sem áður voru send viðskiptavinum.

Við afhendingu styrksins
Einar Ingimundarson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, segir að ákveðið hafi verið að leggja Mæðrastyrksnefnd lið í hennar mikilvæga verkefni að styðja fjölskyldur á Eyjafjarðarsvæðinu sem standi höllum fæti.

Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa fært nefndinni gjafir og hvetja Íslensk verðbréf alla sem eru aflögufærir til að gera slíkt hið sama.

Jóna Berta Jónsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, segist vera afar þakklát fyrir þessa gjöf Íslenskra verðbréfa sem mun nýtast sérstaklega vel nú um jólin.



Að sögn Jónu Bertu er eftirspurnin nú svipuð og undanfarin ár, en mikil aukning varð á fjölda beiðna í kjölfar hrunsins. Nefndinni hefur borist svipaður fjöldi beiðna og í fyrra og er ráðgert að styðja upp undir 500 fjölskyldur nú um jólin. Skjólstæðingar nefndarinnar eru á öllu Eyjafjarðarsvæðinu auk Siglufjarðar.

Mæðrastyrksnefndin á Akureyri var stofnuð árið 1939 og hefur í gegnum tíðina veitt einstæðum mæðrum, einstæðum feðrum og efnalitlum fjölskyldum aðstoð með margvíslegum hætti. Um þessi jól fá um 500 fjölskyldur aðstoð.