Markaðsfréttir 9.-13. febrúar 2009

Vikulega birtir Íslensk verðbréf hf. samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

Vikulega birtir Íslensk verðbréf hf. samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Þeir sem hafa áhuga á að fá punktana senda til sín geta sent póst þess efnis á iv@iv.is

 

Innlend hlutabréf

Innlenda hlutabréfavísitalan OMXI6ISK hækkaði um 1,4% í vikunni. Straumur var eina félagið sem hækkaði, um 25,3%. Færeyska félagið Atlantic Petroleum lækkaði mest, um 23%, Marel lækkaði um 15% og Bakkavör 7%. Velta með hlutabréf á íslenska markaðinum var samtals 2.175 milljónir í síðustu viku og var rúmur helmingur með bréf Straums.  Velta á markaði heldur áfram að aukast og hækkar Straumur dag frá degi, þó í frekar lítilli veltu. Sé horft á kennitölur er óhætt að segja að góð kaup eru í bréfum Straums,  ef félagið kemst í gegnum þessa kreppu.

 

Erlend hlutabréf

Heimshlutabréfavísitala MSCI lækkaði um 3,9% í vikunni, S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 4,8%, DAX vísitalan í Þýskalandi um 5%, Nikkei í Japan um 3,7% og breska FTSE vísitalan lækkaði um 2,4%. Fréttir berast af mjög slæmri stöðu í Japan, en algjört hrun hefur orðið í sölu á bílum og raftækjum um allan heim. Hætta á verðhjöðnun fer vaxandi en erfitt er að taka á því þar sem vextir eru orðnir mjög lágir og svigrúm því lítið þar. Helst er rætt um stórtæka peningaprentun eða uppkaup á eignum til að auka peningamagn í umferð.

 

 Skuldabréf

Lítil breyting varð á verði ríkistryggðra skuldabréfa í vikunni, verðtryggð lækkuðu um 0,26% en óverðtryggðu bréfin hækkuðu um 0,07%. Stutt óverðtryggð bréf lækkuðu í verði sem gæti verið hagnaðartaka eftir hækkun undanfarið. Búið var að tilkynna útboð á ríkisvíxlum og hefur það eflaust haft sín áhrif. Verðlagning á stuttum ríkisbréfum er mjög skökk og sé miðað við meðallíftíma og fólgna framvirka vexti þá ætti styttri RB 10 flokkurinn að vera seldur á mun hærri kröfu. Líklegasta ástæða þessarar skekkju er að erlendir fjárfesta hafa komið sér fyrir í þessum flokki.

 

Krónan

Krónan veiktist um 0,88% í síðustu viku skv. opinberu viðmiðunargengi SÍ og endaði gengisvísitalan í 193,93 stigum. Svissneskur franki styrktist um 1,63%, Evra 1,34% og bandaríkjadalur 0,54%. Pund og sænsk króna veiktust hinsvegar nokkuð. Margir bíða eftir því hvaða stefna verður tekin eftir heimsókn alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú í febrúar. Rætt hefur verið um áætlun um afléttingu hafta á gjaldeyrismarkaði. Til að slíkt sé mögulegt þarf að ljúka samningum við erlenda aðila sem eiga verulega fjármuni hér á landi, annars mun krónan veikjast þegar hömlunum verði aflétt.