Opnun starfsstöðvar í Reykjavík

Íslensk verðbréf hafa opnað starfsstöð í Reykjavík.  Starfsstöðinni er ætlað að þjóna viðskiptavinum félagsins á höfuðborgarsvæðinu.  Íslensk verðbréf hafa opnað starfsstöð í Reykjavík.  Starfsstöðinni er ætlað að þjóna viðskiptavinum félagsins á höfuðborgarsvæðinu. 


Opnun starfsstöðvarinnar er svar við aukinni spurn eftir þjónustu Íslenskra verðbréfa, en allt frá falli bankanna síðasta haust hefur viðskiptavinum fjölgað til muna. 


Í sumar tóku Íslensk verðbréf jafnframt við þjónustu viðskiptavina SPRON á eignastýringarsviði auk þess sem sjóðir Rekstrarfélags SPRON fluttust til Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV hf.


Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, segir að opnun starfsstöðvar í Reykjavík marki tímamót í sögu félagsins.   “Við höfum fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir þjónustu félagsins undanfarið, ekki síst vegna þess að félagið er og hefur verið óháð bankakerfinu, sem varð fyrir miklum áföllum á síðasta ári.  Einnig hefur það sitt að segja að félagið stendur fjárhagslega vel og er jafnframt eitt af elstu fjármálafyrirtækjum landsins í dag, ” segir Sævar.

Það sem af er þessu ári hefur afkoma Íslenskra verðbréfa verið jákvæð og í takt við áætlanir að sögn  Sævars.


Starfsmenn Íslenskra verðbréfa í Reykjavík eru Brynjar Sigurðarson og Stefán Þórðarson.  Starfsstöðin er opin frá 9 til 12 og 12:30 til 16 alla virka daga og er með sama símanúmer og höfuðstöðvar Íslenskra verðbréfa á Akureyri, 460 4700.