Síðasti vinnudagur Erlu

Erla Hólmsteinsdóttir hefur að eigin ósk látið af störfum hjá Íslenskum verðbréfum eftir að hafa starfað hjá félaginu frá stofnun þess árið 1987.

 

Í morgun var haldið kveðjukaffi hjá ÍV þar sem Erlu voru þökkuð farsæl störf í þágu félagsins, auk þess sem henni var afhent gjöf frá ÍV annars vegar og starfsmönnum hins vegar.   „Ég hóf störf hjá Kaupþingi Norðurlands í apríl árið 1987 og var um tíma eini starfsmaður félagsins. Jón Hallur Pétursson var síðan ráðinn framkvæmdastjóri þá um haustið. Það eru því nákvæmlega 21 ár síðan ég hóf hér störf.  

Þegar ég lít til baka finnst mér þessi tími hafa verið ótrúlega fljótur að líða, sem er til marks um að vinnan hefur verið lífleg og fjölbreytt. Það hefur verið sérlega gefandi og skemmtilegt að starfa með þessu unga og hæfileikaríka samstarfsfólki,“ segir Erla og bætir við að hún hafi fyrir nokkru tekið þá ákvörðun að hætta störfum 65 ára gömul.

  Erla tekur við blómvönd frá Sævari Helgasyni framkvæmdastjóra, og Sveini Torfa skrifstofustjóra

„Á sínum tíma fannst mér mjög áhugavert að starfa hjá fyrirtæki sem gæfi fólki kost á að fá verðtryggingu á sparnað sinn. Á þessum árum voru lánin verðtryggð, en hins vegar varð sparifé nánast að engu.

 

 Markmið Kaupþings Norðurlands, forvera Íslenskra verðbréfa, var sem sagt að bjóða því fólki sem vildi spara upp á betri kjör en tíðkuðust og því var strax vel tekið. Hlutabréfamarkaðurinn þróaðist líka mjög hratt og það hafa vissulega orðið miklar sveiflur á þeim markaði á undanförnum árum eins og fjármálamarkaðnum almennt,“ segir Erla, sem hefur á þessu 21 ári haft á sinni könnu fjölbreytt verkefni.

 

„Íslensk verðbréf er sterkt fyrirtæki í dag. Það hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt á undanförnum árum og starfsfólki fjölgað. Þetta hefur verið mjög ánægjuleg þróun.“ 

 

En hvað skyldi taka við hjá Erlu, nú þegar hún hefur sagt skilið við fjármálageirann? „Ætli ég fari ekki að sinna ömmuhlutverkinu betur og njóta lífsins á annan hátt. Ég hef haft mjög gaman af því að ferðast og vona að ég fái í auknum mæli tækifæri til þess nú,“ segir Erla Hólmsteinsdóttir.

 

Mikil eftirsjá er af Erlu, enda hefur hún verið órjúfanlegur hluti af Íslenskum verðbréfum frá upphafi.  Um leið og Erlu er þakkað fyrir samstarfið, óskum við henni alls hins besta í framtíðinni.