Vegna athugasemda FME

Vegna fréttar um athugasemdir Fjármálaeftirlitsins við starfsemi Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV hf. skal eftirfarandi tekið fram:

 

Vegna fréttar um athugasemdir Fjármálaeftirlitsins við starfsemi Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV hf. skal eftirfarandi tekið fram:

Í framhaldi af reglubundnu eftirliti, sem framkvæmt var í vor, gerði Fjármálaeftirlitið athugasemdir í skýrslu sem Rekstrarfélagið fékk í hendur í byrjun júlí.   Þar voru m.a. gerðar athugasemdir við skipulag áhættustýringar,  útvistunar á tækniþjónustu, kynningarefni verðbréfasjóða og úttekt og skýrslu innri endurskoðunar.

Stjórn og starfsmenn félagsins vinna að úrbótum í samræmi við ábendingar eftirlitsins.  Félagið hefur meðal annars ráðið starfsmann sem annast mun áhættustýringu,  eftirlit með eignasamsetningu og gengisútreikning sjóða.  Hafin er vinna við endurskoðun útvistunarsamninga, þ.m.t. samning um útvistun tækniþjónustu.

Gerð heimasíðu fyrir félagið er langt komin en þar munu allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi félagið og sjóði sem það rekur verða birtar.   Auk þessa hafa verið gerðar breytingar á skipulagi innri endurskoðunar félagins.

Þá skal einnig nefnt að athugasemdir Fjármálaeftirlitsins tengjast ekki eignasamsetningu eða stýringu einstakra sjóða og hafa því ekki áhrif á ávöxtun eða áhættu þeirra.

Rekstrarfélagið hefur átt gott samstarf við Fjármálaeftirlitið hvað athugasemdir þessar varðar og er gert ráð fyrir að búið verði að koma til móts við þær allar innan þess frests sem veittur hefur verið.