Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,15% og millilöng verðtryggð skuldabréf  hækkuðu um 0,27%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,19% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,75%.

Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur lækkað töluvert frá því að SÍ hækkaði stýrivexti um 50 punkta. Það bendir til þess að fjárfestar hafi trú á að stýrivextir fari að virka á verðbólguna. Verðbólgumælingin í maí kom líka vel út þar sem mældist smá verðhjöðnun en flestir reiknuðu með 0,2-0,4% verðlagshækkun.

Olíuverð hefur farið lækkandi og krónan hefur styrkst frá því í mars en hefur reyndar verið að gefa aðeins eftir í seinni hluta maí. Svo má búast við því að flugfargjöld lækki eitthvað í sumar með vaxandi samkeppni. Það eru því nokkrir þættir sem hafa stutt við lækkandi verðbólguálag.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði í vikunni um 0,4%.  Mest hækkaði Atlantic Petroleum, um rúm 8% í litlum viðskiptum.  Bréf Haga lækkuðu mest, um 2,64%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var ríflega 461 milljón króna.  Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir um 216 milljónir króna. Í maí mánuði var veltan í kringum 4,7 milljarðar króna.  Mesta veltan í mánuðinum var með bréf Haga og Marels, í kringum 1,8 milljarða króna hjá hvoru félagi.

Í vikunni skilaða færeyska olíuleitar fyrirtækið Atlantic Petroleum uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung 2012 og var rekstrarhagnaður 65,3 milljónir DKK og er þetta besti fjórðungur í sögu félagsins. 

Hagnaður eftir skatta nam 23,4 milljónum DKK sem er um 58% meira en á sama fjórðungi í fyrra.  Hátt olíuverð og góðar framleiðslutölur eru lykillinn að þessum árangri.

Heildarframleiðsla á fjórðungnum nam 232.000 tunnum af olíu sem er 2.550 tunnur að meðaltali á dag.  Einnig voru birtar tölur fyrir maí og nam framleiðslan 71.000 tunnum sem er um 2.290 tunnur að meðaltali á dag.  Í áætlunum félagsins er gert ráð fyrir að framleiðslan, fyrir árið 2012, verði 7-800.000 tunnur sem svarar til 1.900-2.200 tunnum að meðaltali á dag.

Aðalfundur Haga verður haldin 8. júní og liggur fyrir fundinum tillaga um arðgreiðslu upp á 0,45 kr. á hlut.  Ef tillagan verður samþykkt verða greiddar í kringum 530 milljónir króna til hluthafa þann 27. júní.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 75,00 0,00% -2,60% 7,91% 0,00% -7,41% -39,52%
FO-ATLA 165,50 8,17% -1,19% -13,35% 2,16% 8,17% -17,66%
HAGA 18,45 -2,64% -1,34% 5,73% 0,00% 12,84% 15,67%
ICEAIR 6,56 0,46% 5,30% 17,35% 33,88% 30,42% 37,82%
MARL 156,00 -1,27% -2,50% 8,33% 31,65% 24,30% 24,30%
OSSRu 208,00 0,00% -0,48% 5,58% 11,53% 12,43% 7,49%
OMXI6ISK 1065,59 -0,40% -1,16% 6,25% 20,20% 17,14% 8,00%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 4. júní 2012)

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu töluvert í vikunni.  Heimsvísitalan MSCI lækkaði um 2,99%, S&P 500 í Bandaríkjunum um 3,02% og Dax í Þýskalandi um 4,57%. 

Slæmar hagtölur frá Bandaríkjunum fóru illa í fjárfesta og áttu sinn þátt í lækkunum vikunnar.  Atvinnuleysi jókst og fór úr 8,1% í 8,2%.  Þá urðu aðeins til 69 þúsund ný störf í síðasta mánuði sem var töluvert undir væntingum en meðalspáin hljóðaði upp á 150 þúsund ný störf.  Auk þess reyndist hagvöxtur í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi vera lægri en spár sögðu til um eða 1,9%.

Hlutabréfaverð lækkaði almennt mikið í maí mánuði og lækkuðu allar erlendar viðmiðunarvísitölur sem við styðjumst við.   Mest lækkuðu HEX í Finnlandi og Nikkei í Japan um 12,04% og 10,27%. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1152,97 -2,99% -8,86% -11,21% -2,92% -2,50% -12,66%
Þýskaland (DAX) 6050,29 -4,57% -8,92% -13,65% -1,72% 1,32% -15,93%
Bretland (FTSE) 5260,19 -1,71% -6,98% -11,01% -5,26% -5,60% -10,16%
Frakkland (CAC) 2950,47 -3,20% -6,81% -15,84% -6,90% -6,74% -24,26%
Bandaríkin (Dow Jones) 12118,57 -2,70% -7,05% -6,62% 0,82% -0,81% -0,27%
Bandaríkin (Nasdaq) 2747,48 -3,17% -7,06% -7,68% 4,59% 5,46% 0,54%
Bandaríkin (S&P 500) 1278,04 -3,02% -6,65% -6,69% 2,71% 1,63% -1,70%
Japan (Nikkei) 8440,25 -1,63% -11,56% -15,15% -4,03% -1,89% -12,61%
Samnorræn (VINX) 84,97 -4,02% -10,36% -15,98% -2,47% -4,03% -18,06%
Svíþjóð (OMXS30) 956,70 -2,88% -8,01% -14,10% -2,58% -3,90% -16,26%
Noregur (OBX) 346,99 -4,07% -10,65% -14,16% -3,28% -4,79% -14,27%
Finnland (HEX25)  1785,97 -5,18% -12,65% -21,85% -10,79% -9,30% -28,38%
Danmörk (KFX) 419,65 -5,47% -10,46% -8,79% 8,89% 6,90% -8,29%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 4. júní 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,45% í vikunni og endaði í 223,59 stigum. Krónan veiktist um 1,3% gagnvart bandaríkjadal en styrktist um 0,75% gagnvart evru.

Vöruskipti í apríl voru hagstæð um 9,5 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruskiptin hagstæð um 3,4 ma.kr. í apríl 2011. Á fyrstu fjórum mánuðum 2012 var afgangur af vöruskiptum tæpir 28 ma.kr., en á sama tímabili árið 2011 var afgangurinn 33,8 ma.kr. og fer hann því minnkandi milli ára.

Skýrist þetta einkum af því að í fyrra var um talsverðan útflutning á skipum og flugvélum að ræða á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en lítið var um slíkan útflutning á sama tímabili á þessu ári. Að þessum óreglulegu liðum frátöldum fer afgangur af vöruskiptum vaxandi.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 223,59 -0,45% -1,99% -2,36% 3,55% 2,90% 1,29%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 4. júní 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.