Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,28% og millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu líka um 0,28%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,22% og millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,35%.

Lánamál ríkisins héldu útboð á ríkisvíxlum fimmtudaginn 12. júlí, í boði voru RIKV 12 1015 og RIKV 13 0115. Í RIKV 12 1015 var tilboðum tekið fyrir 4.200 m.kr. að nafnverði á 3,29% flötum vöxtum og í RIKV 13 0115 var tilboðum tekið fyrir 7.700 m.kr. að nafnverði á 3,50% flötum vöxtum.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði í vikunni um 0,88%. Eina félagið sem hækkaði var Össur, um 0,72%. Mest lækkuðu bréf Marels, um 1,9%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var rúmar 533 milljónir króna. Mest voru viðskipti með bréf fasteignafélagsins Regins og Marels. En þessi félög ásamt Icelandair voru með ríflega 89% af veltu vikunnar.

Fjarskiptafyrirtækið Vodafone hefur samið við fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka vegna væntanlegrar skráningar fyrirtækisins í kauphöllina. Stefnt er að skráningu á þessu ári. 

Í tengslum við fyrirhugaða skráningu er gert ráð fyrir að fram fari almennt hlutafjárútboð þar sem fjárfestum og almenningi gefst kostur á að skrá sig fyrir hlutum í félaginu. Þá mun Íslandsbanki einnig sjá um sölu á þeim bréfum Framtakssjóðs Íslands sem seld verða í útboðinu, sjóðurinn á stærstan hlut í Vodafone.

Eimskip er annað félag sem er á leið á markað seinna á þessu ári. Í vikunni keypti Lífeyrissjóður verslunarmanna 14% hlut í félaginu af Landsbankanum og bandaríska fjárfestingarfélaginu Yucaipa en þetta eru stærstu hluthafar í Eimskip. Hvort um sig seldi 7% hlut sem eru 14 milljónir að nafnverði.

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 70,00 0,00% -6,67% -9,09% -11,39% -13,58% -40,68%
HAGA 18,10 -0,55% 0,00% -3,47% 5,85% 10,70% 13,48%
ICEAIR 6,73 -1,46% 2,12% 4,67% 33,27% 33,80% 33,27%
MARL 154,50 -1,90% -0,32% 6,19% 16,60% 23,11% 20,70%
OSSRu 211,00 0,72% 0,48% 3,43% 6,57% 14,05% 4,46%
Reginn 211,00 -0,24% 0,00% 0,00% 0,00% 3,05% 3,05%
OMXI6ISK 1057,54 -0,88% -0,13% 2,14% 11,31% 16,26% 6,40%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 16. júlí 2012)

 

Erlend hlutabréf

DAX í Þýskalandi hækkaði um 2,29% í vikunni og CAC í Frakklandi um 0,38%. S&P 500 vísitalan í Bandaríkjunum hækkaði um 0,16% en Nikkei í Japan lækkaði um 3,29% og heimsvísitalan MSCI lækkaði um 0,31%.

Fréttir af 7,6% hagvexti í Kína á öðrum ársfjórðungi fóru vel í fjárfesta og hækkuðu hlutabréfamarkaðir nokkuð í kjölfarið. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi minnkað milli fjórðunga þá var hann í takt við spár og búast menn við að stjórnvöld komi til með að örva efnahagslífið með peningalegum aðgerðum til að viðhalda hagvextinum.

Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu á föstudaginn eftir að hafa lækkað sex daga í röð. Ástæðan var meðal annars betra uppgjör JP Morgan en reiknað var með. Fjögur af sex félögum, í S&P 500 vísitölunni, sem birtu uppgjör í vikunni voru yfir spám greiningaraðila samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni. 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1225,55 -0,31% 1,41% -3,27% 1,92% 3,63% -6,67%
Þýskaland (DAX) 6557,10 2,29% 5,25% -1,03% 5,41% 11,16% -9,19%
Bretland (FTSE) 5666,13 0,06% 3,28% -0,13% 0,02% 1,55% -3,17%
Frakkland (CAC) 3180,81 0,38% 2,87% -0,90% -1,51% 0,52% -14,77%
Bandaríkin (Dow Jones) 12777,09 0,04% 0,08% -1,12% 2,86% 4,58% 2,38%
Bandaríkin (Nasdaq) 2908,47 -0,98% 1,24% -2,67% 7,30% 11,64% 4,25%
Bandaríkin (S&P 500) 1356,78 0,16% 1,04% -0,93% 5,25% 7,89% 3,09%
Japan (Nikkei) 8724,12 -3,29% 1,81% -7,88% 4,13% 3,18% -12,54%
Samnorræn (VINX) 93,75 1,02% 6,95% -0,79% 2,97% 7,21% -1,96%
Svíþjóð (OMXS30) 1030,94 0,69% 5,90% -0,12% 2,14% 4,79% -4,12%
Noregur (OBX) 384,93 2,65% 6,38% 0,46% 4,88% 7,37% 0,10%
Finnland (HEX25)  1892,50 0,46% 3,67% -6,30% -7,45% -2,42% -16,37%
Danmörk (KFX) 461,10 0,20% 7,51% 1,66% 14,32% 18,88% 7,18%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 16. júlí 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,08% í vikunni og endaði í 220,05 stigum. Krónan veiktist um 0,84% gagnvart Bandaríkjadal en styrktist um 0,56% gagnvart evru.

Áframhald er á örri lækkun atvinnuleysis á Íslandi. Skráð atvinnuleysi í júní 2012 var 4,8% og lækkaði um 0,8 prósentustig frá því í maí. Í júní 2011 var skráð atvinnuleysi 6,7% og hefur því lækkað um 1,9 prósentustig á síðustu 12 mánuðum. Talsverðrar árstíðarsveiflu gætir í íslenskum atvinnuleysistölum og er atvinnuleysi jafnan minna yfir sumarmánuðina.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 220,05 -0,08% -1,76% -3,95% 0,40% 1,27% -0,37%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 16. júlí 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Sveinn Torfi Pálsson, forstöðumaður eignastýringar.