Framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa hf. segir starfi sínu lausu

Einar Ingimundarson sagði starfi sínu sem framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa lausu í byrjun vikunnar. Uppsögnin er að frumkvæði Einars en hann mun vinna áfram hjá félaginu að ósk stjórnar þar til gengið hefur verið endanlega frá kaupum MP banka á Íslenskum verðbréfum.

Ágætis tímapunktur

„Ég hef í nokkurn tíma haft hug á að skipta um starfsvettvang og á sjálfur frumkvæðið að þessari ákvörðun. Hluthafar félagsins hafa nýlega samþykkt kauptilboð MP banka í félagið og væntanlega fylgja því einhverjar breytingar. Þó ég óttist ekki breytingar og lítist mjög vel á nýjan eiganda tel ég að nú sé ágætis tímapunktur til að skipta um vettvang. Ég mun þó að sjálfsögðu vinna af fullum heilindum með félaginu, núverandi hluthöfum og MP banka að því að klára þau viðskipti,” segir Einar.

Viðskiptin sem hann vísar til eru þau að þann 15. maí sl. var greint frá því að MP banki hefði gert tilboð í allt hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. og að tilskilinn meirihluti eigenda félagsins hafi gengið að skilmálum tilboðsins. Ekki er endanlega ljóst hvenær kaupin ganga í gegn en kostgæfniathugun stendur nú yfir.

Einar Ingimundarson hóf störf hjá Íslenskum verðbréfum í maí 2008. Hann er lögfræðingur (mag.jur) frá Háskóla Íslands 2007 og hefur einnig lokið BS-prófi í hagfræði frá sama skóla. Einar hlaut hdl. réttindi í nóvember 2009. Hann var forstöðumaður lögfræðisviðs Íslenskra verðbréfa uns hann var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins í ágúst 2011.

Áður en Einar hóf störf hjá Íslenskum verðbréfum starfaði hann sem aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og þar áður sem fulltrúi hjá sýslumanninum á Akureyri. Á árunum 2000-2002 starfaði hann á verðbréfasviði Búnaðarbanka Íslands hf. og hjá Fjármálaeftirlitinu vann hann samhliða námi 2004-2005.

Umsvifamikið eignastýringarfyrirtæki

Íslensk verðbréf er sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem þjónustar viðskiptavini um allt land. Félagið var stofnað árið 1987 og er því í hópi elstu starfandi fjármálafyrirtækja landsins. Höfuðstöðvarnar eru á Akureyri en félagið er jafnframt með skrifstofu í Reykjavík. Starfsmenn þess eru 20 talsins. Viðskiptavinir Íslenskra verðbréfa eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, tryggingarfélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar. Eignir í stýringu námu um 110 milljörðum króna í lok maí 2013 og hagnaður af starfsemi félagsins árið 2012 nam 174 milljónum króna. Félagið hefur skilað hagnaði óslitið frá árinu 2002.

Hluthafar Íslenskra verðbréfa hf. eru tíu talsins og eiga sex hluthafar meira en 5% hlut. Fyrir nokkru var tilkynnt um kaup MP banka á öllu hlutafé félagsins, sem fyrr segir.

Fréttatilkynning frá Íslenskum verðbréfum föstudaginn 29. júní 2013.