Fréttatilkynning frá Íslenskum verðbréfum hf. 25. september 2013


Einar Ingimundarson, sem sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa í lok júní, lætur af störfum í dag. Hann hefur starfað áfram sem framkvæmdastjóri að ósk stjórnar félagsins frá því að hann sagði upp störfum, eða í rúma þrjá mánuði. Sveinn Torfi Pálsson, forstöðumaður eignastýringar Íslenskra verðbréfa, hefur verið ráðinn tímabundið til að gegna starfi framkvæmdastjóra.

 

Farsælt starf í þágu félagsins

„Ég vil nota tækifærið og þakka Einari farsæl og vel unnin störf í þágu félagsins í þau rúmu 5 ár sem hann starfaði hjá okkur og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ segir Magnús Gauti Gautason, stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa hf.

Hann segir að ráðning Sveins Torfa Pálssonar í starf framkvæmdastjóra sé tímabundin vegna þess að niðurstaða er ekki komin í söluferli sem staðið hefur yfir síðan í sumar.

 

„Undanfarin misseri hafa hluthafar félagsins unnið að sölu hlutabréfa sinna í félaginu til MP banka en það ferli hefur tekið lengri tíma en búist var við í upphafi. Sveinn Torfi er búinn að starfa hjá félaginu í rúm tuttugu ár og gerþekkir innviði þess og daglegan rekstur. Ég efast því ekki um að hann mun standa sig vel í nýju hlutverki“ segir Magnús Gauti ennfremur.

 

 

Sveinn Torfi Pálsson

Sveinn Torfi Pálsson er fæddur árið 1967. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1987 og BS.-prófi í fjármálum frá University of South Carolina í Bandaríkjunum árið 1992.

Sveinn Torfi hóf störf hjá Íslenskum verðbréfum í janúar 1993 og hefur verið forstöðumaður eignastýringar Íslenskra verðbréfa undanfarin þrjú ár. Eiginkona hans er Brynhildur Smáradóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau tvö börn.

 

Umsvifamikið eignastýringarfyrirtæki

Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem þjónustar viðskiptavini um allt land. Félagið var stofnað árið 1987 og er því í hópi elstu starfandi fjármálafyrirtækja landsins. Höfuðstöðvarnar eru á Akureyri en félagið er jafnframt með skrifstofu í Reykjavík. Starfsmenn þess eru 17 talsins. Viðskiptavinir Íslenskra verðbréfa eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, tryggingarfélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar. Eignir í stýringu nema um 110 milljörðum króna og hagnaður af starfsemi félagsins árið 2012 nam 174 milljónum króna. Félagið hefur skilað hagnaði óslitið frá árinu 2002.

Hluthafar Íslenskra verðbréfa hf. eru tíu talsins og eiga sex hluthafar meira en 5% hlut. 

 

Fréttatilkynning frá Íslenskum verðbréfum miðvikudaginn 25. september 2013.

Nánari upplýsingar gefur Sveinn Torfi Pálsson í síma 460 4700.