MP banki og hluthafar Íslenskra verðbréfa hf. hætta við söluferli vegna kaupa bankans á félaginu.

MP banki og hluthafar í ÍV ákveða að hætta vinnu við að sameina félögin. Í maí 2013 hófust viðræður milli aðila á grundvelli tilboðs sem MP banki gerði meirihluta hluthafa. Breyttar forsendur og mismunandi áherslur hafa leitt til þess að aðilar hafa sameiginlega komist að samkomulagi um að hverfa frá viðskiptum þessum. Munu fyrirtækin áfram starfa hvort í sínu lagi og hlúa að þeim markmiðum og áherslum sem þau hafa starfað eftir.

MP banki gerði tilboð í nærfellt allt hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. þann 15. maí síðastliðinn og gekk tilskilinn meirihluti eigenda Íslenskra verðbréfa hf. að skilmálum tilboðsins. Tilboðið var liður í útvíkkun á þjónustu MP banka á sviði eignastýringar. Aðilar töldu sig sjá tækifæri til að styrkja þjónustugrunn félaganna og nýta samlegðarmöguleika til að veita víðtækari og almennari fjármálaþjónustu.

Ýmsar forsendur og væntingar hafa breyst frá því að viðræður hófust sem leiðir til þess að þau markmið sem upphaflega var sóst eftir munu ekki nást.

MP banki mun einbeita sér að frekari uppbyggingu eignastýringar á eigin forsendum eins og áður segir og hverfur frá opnun starfsstöðvar á Akureyri. Góður árangur var hjá eignastýringu bankans á árinu 2013 sem skilaði sér í góðri ávöxtun til viðskiptavina.

Íslensk verðbréf áfram sérhæft eignastýringarfyrirtæki
„Ég er ánægður með að niðurstaða sé komin í þetta mál. Íslensk verðbréf eru með traustan hóp viðskiptavina og starfsfólk okkar mun hér eftir sem hingað til leggja höfuðáherslu á að veita framúrskarandi þjónustu á sviði eignastýringar. Ávöxtun eignasafna í umsjá Íslenskra verðbréfa var með besta móti á síðastliðnu ári og rekstur félagsins gekk vel.” segir Sveinn Torfi Pálsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, og fagnar því að niðurstaða sé komin í málið.

Eignastýring ein af meginstoðum MP banka frá upphafi
„Forsendur hafa breyst og ekki er lengur grundvöllur fyrir kaupunum miðað við þau markmið sem við höfðum. MP banki mun því halda áfram að byggja upp eigin eignastýringu sem grundvallast á góðum innri vexti og árangri sem hefur náðst í starfseminni. Við erum bjartsýn á að við getum nýtt þann meðbyr sem við höfum notið síðustu árin til þessarar uppbyggingar,“ segir Sigurður Atli Jónsson forstjóri MP banka.

Um MP banka hf.
MP banki hf. á rætur sínar að rekja til ársins 1999 og starfa 117 starfsmenn í samstæðu bankans. Forstjóri er Sigurður Atli Jónsson og formaður stjórnar er Þorsteinn Pálsson. Eignarhald MP banka er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. MP banki sérhæfir sig í að veita íslensku atvinnulífi, athafnafólki, fjárfestum og sparifjáreigendum sérhæfða bankaþjónustu, auk alhliða þjónustu á sviði fjárfestingabankastarfsemi og eignastýringar. Starfsemi bankans skiptist í fjögur meginsvið: markaði, banka, eignastýringu og eignaleigusvið. Nánar á: www.mp.is
Um Íslensk verðbréf hf.
Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem sinnir viðskiptavinum um allt land. Félagið var stofnað árið 1987 og starfsmenn félagsins eru 18 talsins. Viðskiptavinir Íslenskra verðbréfa eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, tryggingarfélög, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar. Hluthafar Íslenskra verðbréfa hf. eru ellefu talsins og eru sex hluthafar sem eiga meira en 5% hlut. Íslensk verðbréf bjóða upp á fjölbreytta eignastýringu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og fagfjárfesta. Nánar á: www.iv.is