Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,09% en millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,16%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,79%.

Þessar verðbreytingar má rekja til Icesave kosninganna sem fram fóru á laugardaginn en fjárfestar virðast hafa leitað í verðtryggð bréf á kostnað óverðtryggðra bréfa í aðdraganda kosninganna.

Sökum gjaldeyrishafta, sem takmarka verulega þá fjárfestingakosti sem í boði eru, og væntanlegra vaxtalækkana Seðlabankans má reikna með jákvæðum skuldabréfamarkaði næstu vikurnar.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 0,84%.  Eina félagið sem hækkaði var Össur, um rúm 2,5% í veltu upp á ríflega 4 milljónir króna.  Gengi félagsins endaði vikuna rúmum 7% hærra á markaði hér heima en í Kaupmannahöfn.

Mest lækkaði olíuleitarfyrirtækið Atlantic Petroleum, um 5,1%.  Vandamál hafa verið að koma upp hjá félaginu við framleiðslu, nú síðast á Chestnut svæðinu þar sem erfiðleikar hafa verið við að dæla upp olíu.  Þetta hefur leitt til samdráttar á framleiddum tunnum á 1. fjórðungi þessa árs samanborið við  sama tíma í fyrra.

Velta með bréf á OMXI6ISK var tæplega 364 milljónir króna sem er talsvert minni velta en verið hefur síðustu vikur.  Sem fyrr var mest velta með bréf Icelandair fyrir um 222 milljónir króna.

Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair hefur sætanýting á fyrsta ársfjórðungi aldrei verið betri, farþegar voru 13% fleiri en á 1. fjórðungi síðasta árs.   Þrátt fyrir þessa sterku eftirspurn og sætanýtingu verður afkoman eitthvað lakari á 1. fjórðungi miðað við sama fjórðung 2010 og er það vegna hækkandi olíuverðs.  Félagið stendur þó við spá sína um EBITDu ársins upp á 9,5 milljarða króna.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 126,50 -2,69% -4,89% -9,64% -8,33% -10,92% -20,44%
FO-AIR 114,00 0,00% 0,00% -1,72% -4,20% -1,72% -13,64%
FO-ATLA 204,50 -5,10% -7,47% -5,98% 27,81% -5,98% 25,85%
ICEAIR 4,34 -3,98% -3,34% 40,45% 24,00% 37,78% 31,52%
MARL 126,00 -1,95% 0,40% 17,76% 36,96% 26,00% 53,28%
OSSRu 198,00 2,59% 0,51% -1,00% -10,41% -2,46% 3,66%
OMXI6ISK 992,35 -0,84% -1,20% 5,39% 6,06% 6,28% 3,00%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 11. apríl 2011)

 

Erlend hlutabréf

Gullverð heldur áfram að hækka og í vikunni fór gull í hæsta gildi í sögunni.   Ástæður fyrir þessum hækkunum má rekja til hækkandi verðbólgu í Kína og veikingu bandaríkjadals gagnvart evru sem hefur áhrif á gullverð.  Fjárfestar leita oft í gull vegna ótta þeirra við þróun efnahagsmála.

Álverð heldur áfram að hækka og hefur ekki verið hærra frá febrúar 2008.  Álverð stóð í 2.712 dollara á tonn í lok vikunnar en það er í takt við hækkanir á öðrum hrávörum eins og olíu, gulli og silfri sem hafa hækkað mikið á þessu ári.  Gull hefur hækkað um 4% frá áramótum en bæði olía og silfur hafa hækkað um rúm 32%. Helstu hrávörur eru verðlagðar í bandaríkjadal.

Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 0,25% og eru þeir nú 1,25%.  Hækkun stýrivaxta á evru svæðinu hafði þær afleiðingar að bandaríkjadalur veiktist gagnvart evru.

Lánshæfismat Portúgals heldur áfram að lækka, í vikunni lækkaði alþjóðlega greiningarfyrirtækið Moody's lánshæfi landsins um einn flokk með frekari lækkun í huga vegna mikillar óvissu í efnahagsmálum.

Portúgal hefur beðið Evrópusambandið (ESB) um neyðarlán vegna slæmrar fjárhagstöðu landsins en það er þá þriðja ríkið sem þarf neyðarlán frá ESB.   Írland og Grikkland eru þegar búin að fá neyðarlán frá ESB.

Talið er að Portúgal þurfi 80 milljarða evra eða um 13.000 milljarða króna í neyðarlán frá ESB.  Þessar aðgerðir höfðu jákvæð áhrif á hlutabréfaverð í Portúgal.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1351,43 0,74% 2,76% 5,40% 11,65% 5,57% 10,47%
Þýskaland (DAX) 7217,02 0,52% 5,69% 3,46% 13,82% 3,87% 14,91%
Bretland (FTSE) 6055,75 0,78% 3,93% 0,73% 6,80% 2,68% 4,97%
Frakkland (CAC) 4061,91 0,18% 2,82% 4,60% 7,19% 6,17% -0,27%
Bandaríkin (Dow Jones) 12380,05 0,03% 2,79% 6,07% 12,44% 6,93% 12,57%
Bandaríkin (Nasdaq) 2780,42 -0,32% 2,39% 2,34% 15,74% 4,81% 13,30%
Bandaríkin (S&P 500) 1328,17 -0,32% 1,83% 4,21% 13,97% 5,61% 11,20%
Japan (Nikkei) 9768,08 0,62% -5,21% -7,53% 1,36% -4,98% -13,25%
Samnorræn (VINX) 106,71 0,31% 3,00% -2,63% 10,06% 0,01% 14,74%
Svíþjóð (OMXS30) 1151,37 0,50% 4,05% -2,34% 4,99% -0,76% 9,79%
Noregur (OBX) 417,90 0,82% 5,34% 3,19% 16,92% 4,26% 18,29%
Finnland (OMXH25) 2659,60 0,02% 4,32% -0,61% 6,36% 0,70% 16,19%
Danmörk (OMXC20) 470,97 0,39% 1,54% -0,75% 11,48% 2,51% 19,05%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 11. apríl 2011)

 

Krónan

Krónan styrktist lítillega í vikunni. Gengisvísitalan lækkaði um 0,18% og endaði í 215,82 stigum. Frá áramótum hefur krónan gefið eftir um 3,61%. Sé horft til helstu gjaldmiðla hefur þróun þeirra verið mjög mismunandi það sem af er árs.

Til að mynda hefur krónan veikst um 5,21% gagnvart evru, 3,1% gagnvart sterlingspundi, 5,4% gagnvart norsku krónunni en heldur minna gagnvart þeim sænsku og dönsku. Krónan hefur aftur á móti styrkst um 2,18% gagnvart bandaríkjadal, 7,11% gagnvart japönsku jeni en gefið eftir um 0,36% á móti svissneskum franka.

Evran er í miklum styrkingarham og hafa skuldavandræði nokkurra evrópuríkja greinilega haft lítil áhrif á áhuga fjárfesta á evrunni.  Evra hefur hækkað í verði um 8,21% mælt í bandaríkjadölum, sem jafngildir 7,6% veikingu dalsins.

Seðlabanki Evrópu hefur hafið vaxtahækkanaferli og hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur í vikunni og skýrir það eflaust að hluta til styrkingu evrunnar undanfarið.

Á innlendum millibankamarkaði fara viðskipti fram í krónum og evrum og þegar viðskipti eru lítil og strjál getur krónan fylgt evrunni nokkuð eftir til beggja átta.

Ýmsir hafa bent á nauðsyn þess efla millibankamarkaðinn til að auka verðmyndun og bent á að rétt væri að bönkunum væri skylt að fara með stærri upphæðir í gegnum markaðinn en ekki skipta þeim innanhúss hjá sér.


Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 215,82 -0,18% -0,78% 1,41% 4,52% 3,74% -5,50%
(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 11. apríl 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.