Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,26% en millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,25%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,95% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,52%.

Óverðtryggðu bréfin tóku góða hækkun í vikunni eftir töluvert miklar lækkanir þar á undan. Bendir það til þess að markaðsaðilar hafi talið bréfin vera ofseld. Verðbólguálagið er orðið mjög hátt og hefur hækkað verulega á árinu enda hefur verðbólga ársins verið hærri en væntingar stóðu til og hefur það án efa ýtt undir verðbólguótta fjárfesta.

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabanka Íslands er 21. september n.k. Miðað við skilaboðin sem komu frá bankanum eftir 25 punkta hækkunina í ágúst má búast við 25 punkta hækkun í september.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 0,41% í síðustu viku. Marel hækkaði mest, um 1,23%. Aðeins eitt félag lækkaði í liðinni viku, Össur um 0,26% en gengi félagsins endaði þó vikuna ríflega 10% hærra á markaði hér heima en í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Heildarvelta á OMXI6ISK var um 361 miljónir króna, mest voru viðskipti með bréf í Marel fyrir 200 milljónir.  Í ágúst mánuði var veltan í kringum 2 milljarðar sem er talsvert meira en í júní og júlí.

Atlantic Petroleum birti framleiðslutölur fyrir ágúst mánuð í síðustu viku.  Félagið framleiddi 40 þúsund tunnur af olíu í mánuðinum eða um 1.290 tunnur að meðaltali á dag sem er talsvert frá því sem félagið framleiddi 2010 og það sem af er ári 2011.  Framleiðslan hefur legið á bilinu 2.000 – 3.000 tunnur á dag.

Er þetta tilkomið vegna áframhaldandi vandræða á Chestnut-svæðinu sem gert er ráð fyrir að verði komið í lag í þessum mánuði.  Þá var framleiðsla við Ettrick stöðvuð í sjö daga vegna tengingu við Blackbird og tókst sú framkvæmd vel.

Gengi bréfa Atlantic Petroleum hafa lækkað um tæp 42% á síðustu 6 mánuðum á markaðinum hér heima sem og í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Stjórn Icelandair Group hefur sett fram arðgreiðslustefnu þar sem markmiðið er að greiða um 20-40% af hagnaði hvers árs sem arð.  Endanleg arðgreiðsla er þó háð fjárhagslegri stöðu félagsins, fjárfestingarþörf og markaðsaðstæðum.

Þá ákvað stjórnin að fresta endanlegri ákvörðun um skráningu félagsins í aðra norræna kauphöll þanngað til á næsta ári vegna aðstæðna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 90,00 0,00% -16,67% -26,83% -31,30% -36,62% -35,25%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% -3,64% -2,75% -8,62% -10,92%
FO-ATLA 139,50 0,00% 18,90% 30,60% -41,51% -35,86% -7,00%
ICEAIR 5,39 1,13% 8,89% 13,24% 17,69% 71,11% 54,00%
MARL 123,00 1,23% 1,23% -1,99% -0,81% 23,00% 32,26%
OSSRu 195,50 -0,26% -2,25% 1,03% -1,26% -3,69% -5,10%
OMXI6ISK 930,36 0,41% -3,00% -5,71% -7,76% -0,36% -0,68%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 05. september 2011)

 

Erlend hlutabréf

Ágætis hækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku.  Heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 1,11%, CAC í Frakklandi um 1,97% og FTSE í Bretlandi um 3,17%.  Almennt var mjög góður gangur á Norðurlöndunum í vikunni og hækkað samnorræna vísitalan VINX um 4,09%.

Miklar sveiflur hafa verið á erlendum hlutabréfamarkaði undanfarnar vikur og búast má við frekari sveiflum á næstunni. Ástæða sveiflanna eru miklar áhyggjur fjárfesta af skuldsetningu nokkurra Evrópuríkja og svo skuldsetningu Bandaríkjanna. Meiri lækkun hefur verið á evrópskum hlutabréfum en þeim bandarísku eins og sjá má í töflunni hér fyrir neðan.

Illa gengur að skapa ný störf í Bandaríkjunum og var atvinnuleysi í ágúst 9,10% sem er það sama og í mánuðinum á undan og tók markaðurinn almennt illa í þessi tíðindi. Atvinnuleysi mældist rúm 20% á Spáni í júlí og rúm 15% á Grikklandi.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1175,26 1,11% -1,57% -10,97% -12,84% -8,19% 3,87%
Þýskaland (DAX) 5538,33 0,02% -13,81% -24,39% -25,13% -22,26% -12,38%
Bretland (FTSE) 5292,03 3,17% -1,14% -11,40% -13,40% -12,08% -4,43%
Frakkland (CAC) 3148,53 1,97% -6,89% -21,54% -24,07% -19,77% -16,87%
Bandaríkin (Dow Jones) 11240,26 -0,34% -1,79% -7,50% -7,64% -2,91% 7,58%
Bandaríkin (Nasdaq) 2480,33 0,04% -2,06% -9,24% -10,93% -6,50% 11,04%
Bandaríkin (S&P 500) 1173,97 -0,18% -2,12% -9,71% -11,14% -6,65% 6,29%
Japan (Nikkei) 8950,74 1,80% -5,54% -7,46% -17,85% -14,12% -3,62%
Samnorræn (VINX) 83,01 4,09% -2,34% -21,33% -23,05% -24,11% -12,28%
Svíþjóð (OMXS30) 932,10 3,07% -4,63% -20,27% -18,74% -21,78% -13,75%
Noregur (OBX) 341,33 2,54% -0,89% -16,19% -18,95% -16,87% -1,54%
Finnland (OMXH25) 1969,68 4,13% 1,92% -22,54% -25,83% -27,52% -16,79%
Danmörk (OMXC20) 351,78 4,35% -8,17% -24,24% -26,64% -24,74% -15,65%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 05. september 2011)

 

Krónan

Gengisvísitalan lækkaði um 0,35% og endaði í 218,69 stigum.

Seðlabanki Íslands birti í vikunni bráðabirgðatölur um viðskiptajöfnuð á öðrum ársfjórðungi og var hann neikvæður um 58 milljarða. Sé tekið tillit til reiknaðra vaxtagjalda fjármálastofnana í slitameðferð, var viðskiptahallinn 21,1 milljarður króna og alls tæpir 30 milljarðar fyrstu sex mánuði ársins. Þessi reiknuðu vaxtagjöld eru tekin út þar sem þau verða líklega ekki greidd.

Bráðabirgðatölur um viðskiptajöfnuð ber að taka með fyrirvara þar sem þær geta sveiflast mikið og skekkjuliðurinn mjög stór. Frekari endurskoðun talnanna mun draga úr óvissu og gæti afgangur af viðskiptum við útlönd hæglega orðið jákvæður. Hins vegar dregur stöðugt úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum.

Aukinn innflutningur fjárfestingavara ætti að koma fram í auknum útflutningi þegar fram í sækir og styðja við viðskiptajöfnuðinn. Hins vegar er ljóst að krónan mun eiga erfitt uppdráttar næstu misserin og jafnvel gefa eftir nema til komi verulegt innflæði gjaldeyris t.d. vegna stórframkvæmda.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 218,69 -0,35% -1,44% -0,93% 1,11% 5,12% 5,06%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 05. september 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.