Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,26% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,78%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,74%, og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,74%. Það er því ennþá mikil eftirspurn eftir ríkistryggðum bréfum og fjárfestar virðast leita frekar í bréf með lengri líftíma.

Ástæðan,  eins og áður hefur verið minnst á, er að gjaldeyrishöftin takmarka mjög valkosti fjárfesta á sama tíma og fjárfestingarþörfin helst svipuð. Það hefur því skapast ójafnvægi sem leiðir af sér mikla verðhækkun á þeim fjárfestingarkostum sem þó eru í boði.

Lánamál ríkisins voru með útboð s.l. föstudag. Boðnir voru flokkarnir RB13 og RB16. Það var mikil eftirspurn eða 14,6 m.kr. að nafnverði. Tilboðum var tekið fyrir rúmum 6 m.kr. að nv. og var ávöxtunarkrafan undir sölukröfu markaðarins á sama tíma.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði í síðustu viku um 2,57%.  Mest hækkaði Atlantic Petroleum, um 7%.  Mest lækkaði Icelandair, um 5,08%.  Bæði félög skiluðu uppgjörum í vikunni.

Heildarvelta á OMXI6ISK nam 4,8 mö. kr., þar af voru stök viðskipi með Össur fyrir rúma 3,3 ma. kr og viðskipti Marel með eigin bréf upp á 885,5 milljónir króna á genginu 126,5 sem gerð voru til að uppfylla skilyrði um framkvæmd kaupréttarsamninga.

Uppgjör þriðja ársfjórðungs Atlantic Petroleum var nokkuð gott þrátt fyrir erfiðleika í framleiðslu.  EBIT fyrstu níu mánuðina ársins nam 109,1 m DKK sem er 16,5% betri afkoma en fyrir sama tímabil 2010.  Hins vegar var EBIT þriðja fjórðungs 10% lakari í ár en í fyrra og stafar það af vandamálum við að ná upp olíu á þeim tveimur svæðum sem eru virk.

Það lítur betur út með framleiðslu síðasta fjórðungs ársins en þá er búist við að nýtt svæði fari að skila olíu fyrir áramót. Félagið gaf út spá fyrir 2011 í upphafi árs þar sem gert er ráð fyrir EBIT á bilinu 90 – 150 m DKK og gerir félagið ráð fyrir að vera við efri mörk þessarar spá.

Icelandair Group birti einnig þriðja ársfjórðungs uppgjör í síðustu viku og var það svipað og greiningaraðilar höfðu búist við, en góður gangur er búinn að vera á félaginu.  Gengi bréfa félagsins hafa hækkað um 72% á árinu.

Hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi var 5,4 ma. Kr. en var 5,2 ma. kr. á sama tíma í fyrra.  Þetta er sá fjórðungur sem öllu jöfnu skilar mestum tekjum.  Hagnaður fyrstu 9 mánuði ársins nam 4,7 mö. kr. sem er 47% hærra en á sama tímabili 2010.

EBITDA fyrstu 9 mánuði ársins nam 10,5 mö. kr. en uppfærð EBITDA spá félagsins fyrir árið hljóðar upp á 10-10,5 ma. kr.  Gert er ráð fyrir að EBITDA  síðasta ársfjórðungs verði óveruleg eða neikvæð.  Spilar þar helst inn í hátt eldsneytisverð, aukinn framleiðsla og sveiflur á alþjóðlegum mörkuðum.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins var aukning á framboði um 20% frá 2010 og farþegar voru um 1,4 milljónir sem er aukning um 19% á milli ára.

Í síðustu viku óskaði stjórn Haga eftir því að hlutir í félaginu verði teknir til viðskipta á aðalmarkaði OMX Iceland.  Stefnt er að því að viðskipti með hluti í félaginu hefjist í desember, í kjölfar almenns hlutafjárútboðs.

Eignabjarg ehf., sem er dótturfélag Arion banka, hyggst selja 20-30% hlut með almennu útboði sem beint er að fagfjárfestum og almennum fjárfestum.  Lágmarksáskrift verður 100 þúsund krónur og hámarksáskrift 500 m. kr..  Áætlað sölutímabil er 5.til 8.desember.

Í viðtali við forstjóra Kauphallarinnar kemur fram að útboðið hafi gríðarmikla þýðingu enda sé þetta fyrsta nýskráning frá bankahruni.  Hann telur að fleiri félög muni fylgja í kjölfarið og skrá sig á markað á næstunni.

Þessi skráning og komandi skráningar verða að teljast jákvætt skref fyrir innlenda fjárfesta sem ekki hafa haft úr miklu að moða síðastliðin ár.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 71,00 -4,05% -10,13% -34,26% -44,09% -50,00% -53,59%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% 0,00% -3,64% -8,62% -7,02%
FO-ATLA 130,00 7,00% -1,52% -24,42% -35,80% -40,23% -31,58%
ICEAIR 5,42 -5,08% -4,58% 7,11% 14,11% 72,06% 80,67%
MARL 122,50 -3,16% 5,15% 0,82% -3,54% 22,50% 27,60%
OSSRu 193,00 -1,53% 4,32% -3,50% -1,03% -4,93% -9,81%
OMXI6ISK 900,36 -2,57% 2,37% -6,24% -9,57% -3,58% -4,82%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 7. nóvember 2011)

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu töluvert í síðustu viku. Heimsvísitala MSCI lækkaði um 4,08%, Dax í Þýskalandi um 5,99%, S&P 500 í Bandaríkjunum um 2,48% og Nikkei í Japan um 2,75%.

Ástæða lækkananna má rekja til þeirrar ákvörðunar forsætisráðherra Grikklands að setja nýjustu björgunaráætlun frá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nýjustu fréttir frá Grikklandi eru þær að hætt hefur verið við þjóðaratkvæðisgreiðsluna, forsætisráðherrann sagði af sér og mynduð hefur verið þjóðstjórn. Það er spurning hvort að þetta dugi til að róa markaðinn.

Seðlabanki Evrópu lækkaði stýrivexti um 0,25%,  úr 1,50% í 1,25%.  Verðbólga á evrusvæðinu er 3% og kom lækkunin á óvart þar sem verðbólgumarkmið seðlabankans  er 2%.  Sérfræðingar telja að Seðlabanki Evrópu lækki vexti vegna slæmra hagvaxtarhorfa á svæðinu og er þetta gert til að örva hagkerfið og auka fjárfestingu.

Hagvöxtur  í Bretlandi mældist 0,5% á þriðja ársfjórðungi og er það yfir væntingum markaðsins en á öðrum ársfjórðungi var samdráttur upp á 0,1%. Það koma því líka jákvæðar fréttir en ljóst er að á meðan mikil óvissa ríkir um hvernig Evrópusambandið leysir úr sínum skuldamálum verða miklar sveiflur á hlutabréfamörkuðum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1203,07 -4,08% 6,83% 0,76% -11,49% -6,02% -4,88%
Þýskaland (DAX) 5966,16 -5,99% 3,38% -5,91% -21,68% -15,14% -13,13%
Bretland (FTSE) 5527,16 -3,07% 2,65% 3,75% -8,92% -7,73% -7,35%
Frakkland (CAC) 3123,55 -6,72% -0,82% -6,35% -24,34% -19,30% -21,61%
Bandaríkin (Dow Jones) 11983,24 -2,03% 7,93% 4,71% -5,19% 3,50% 4,71%
Bandaríkin (Nasdaq) 2686,15 -1,86% 8,34% 6,07% -5,00% 1,25% 4,16%
Bandaríkin (S&P 500) 1253,23 -2,48% 8,46% 4,49% -6,49% -0,35% 2,23%
Japan (Nikkei) 8801,40 -2,75% 1,88% -5,73% -11,08% -14,29% -8,92%
Samnorræn (VINX) 86,25 -4,27% 7,03% 3,47% -18,69% -19,60% -12,94%
Svíþjóð (OMXS30) 987,16 -3,76% 5,46% 2,18% -16,36% -16,19% -11,85%
Noregur (OBX) 355,53 -2,08% 10,82% 5,87% -10,95% -11,20% -5,83%
Finnland (OMXH25) 1995,92 -6,09% 5,39% 6,38% -22,84% -24,35% -20,57%
Danmörk (OMXC20) 362,52 -3,26% 5,62% -3,24% -20,96% -20,70% -15,87%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 7. nóvember 2011)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,46% í vikunni og endaði í 213,16 stigum. Í vikunni hækkaði Seðlabanki Íslands vexti um 0,25 prósentustig og standa þeir nú í 4,75%. Á sama tíma lækkaði Seðlabanki Evrópu vexti eins og áður sagði og jókst því vaxtamunurinn um 50 punkta.

Vaxtamunur við okkar helsta viðskiptasvæði hefur því aukist nokkuð og líkast til hefur Seðlabanki Íslands ekki átt von á lækkun þess evrópska. Leiða má líkum að því að núverandi vaxtamunur ætti að duga til að styðja við krónu í höftum, sér í lagi ef verðbólga hjaðnar hraðar hér á landi en í Evrópu.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 213,16 -0,46% -0,20% -3,58% -2,49% 2,46% 4,08%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 7. nóvember 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.