Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,12% en millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,73%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,7%, og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,15%. Fjárfestar hafa því annars vegar leitað í löng óverðtryggð bréf og hins vegar í stutt verðtryggð bréf.

Í vikunni héldu Lánamál ríkisins ríkisvíxlaútboð þar sem boðnir voru þriggja og sex mánaða víxlar. Tilboðum var tekið fyrir tæpan 21 ma.  að nafnvirði  sem var u.þ.b. fjárhæðin sem er á gjalddaga 15. nóv. Flatir vextir sex mánaða víxlanna voru 2,99% sem er mjög lágt sé horft á að stýrivextir eru 4,75% og krafa RB12, sem er á gjalddaga í ágúst á næsta ári, er um 3,5%.

Ríkið er því enn og aftur að njóta gjaldeyrishaftanna í fjármögnun sinni.

 

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði í síðustu viku um 1,53%.  Eina félagið sem hækkaði var BankNordik, um 4,23% í aðeins einum viðskiptum.  Mest lækkaði Icelandair, um 5,72%.

Heildarvelta á OMXI6ISK nam ríflega 3,4 mö. kr., þar af var velta með Icelandair í kringum 3,3 ma. kr.  króna en Framtakssjóður Íslands seldi 10% hlut í Icelandair Group, alls 500 milljón hlutir á meðalgengi 5,423.  Söluvirði nam því rúmlega 2,7 mö. kr.  Eftir söluna á Framtakssjóðurinn um 19% hlut í Icelandair Group.

Félagið birti í vikunni flutningstölur fyrir október og þar kom fram að farþegar með Icelandair voru ríflega 146 þúsund sem er aukning upp á 13% frá október 2010.  Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 1.539.502 farþega sem er aukning upp á 19% frá sama tímabili í fyrra.  Spá félagsins hljóðar upp á ríflega 1,7 milljón farþega 2011.

Nokkur lækkun hefur verið á hlutabréfaverði félagsins síðan það náði hæsta gildi ársins þann 2. nóvember, 5,88.  Sama dag birti félagið gott 3. ársfjórðungs uppgjör.  Lokagengi vikunar var 5,11 sem er rúmum 13% lægra en hæsta verð.  Engu að síður hafa bréfin hækkað um ríflega 62% frá áramótum.  Líklega hefur það haft áhrif á gengi félagsins að nýr samkeppnisaðili bætist við á flugleiðinni til London en lágfargjalda flugfélagið EasyJet mun fljúga 3 sinnum í viku frá og með mars á næsta ári.

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways birti 3. ársfjórðungs uppgjör í síðustu viku.  Hagnaður félagsins nam 14,7 mDKK á móti 15,6 mDKK fyrir sama fjórðung í fyrra.  Helstu ástæður lakari uppgjörs er hærra eldsneytisverð. Hagnaður fyrstu 9 mánuði ársins var 22,5 mDKK á móti 8,4 mDKK fyrir sama tímabil 2010.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 74,00 4,23% -10,13% -34,26% -44,09% -50,00% -53,59%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% 0,00% -3,64% -8,62% -7,02%
FO-ATLA 130,00 0,00% -1,52% -24,42% -35,80% -40,23% -31,58%
ICEAIR 5,11 -5,72% -4,58% 7,11% 14,11% 72,06% 80,67%
MARL 119,00 -2,86% 5,15% 0,82% -3,54% 22,50% 27,60%
OSSRu 190,00 -1,55% 4,32% -3,50% -1,03% -4,93% -9,81%
OMXI6ISK 886,60 -1,53% 2,37% -6,24% -9,57% -3,58% -4,82%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 14. nóvember 2011)

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf ýmist hækkuðu eða lækkuðu í síðustu viku.  S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 0,85%, Dax í Þýskalandi um 1,52% og heimsvísitalan MSCI um 0,20%.  Nikkei í Japan lækkaði hins vegar um 3,26% og OMXS30 í Svíþjóð um 1,08%.

Áhyggjur fjárfesta af skuldastöðu Ítalíu ásamt afsögn Silvio Berlusconi forsætisráðherra landsins var áberandi í fréttaumfjöllun liðinnar viku.  Ávöxtunarkrafa ítalskra ríkisskuldabréfa rauk upp  í byrjun vikunnar en lækkaði á ný þegar ljóst var að ítalska þingið hefði samþykkt kröfur Evrópusambandsins um að skera niður í ríkisútgjöldum.

Meira þarf þó til að róa markaði þar sem Ítalía er þriðja stærsta hagkerfi Evrópu og um leið eitt af skuldsettustu ríkjum heims.  Valdaskipti á Ítalíu og þar á undan í Grikklandi virðast þó fara vel í fjárfesta.

Hlutabréfaverð lækkaði töluvert í Japan þegar birtar voru tölur sem sýna fjölda pantana á tækjum og tólum  (e. machinery orders) fyrir september mánuð.  Samdrátturinn reyndist 8,2% frá fyrri mánuði sem bendir til þess að fyrirtæki hyggja ekki á miklar fjárfestingar á komandi mánuðum.  Vert er þó að benda á að lækkunin kom í kjölfarið á 11% aukningu í ágúst.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1205,46 0,20% 1,61% 2,09% -10,25% -5,83% -2,50%
Þýskaland (DAX) 6057,03 1,52% 2,41% 1,89% -17,45% -11,61% -9,26%
Bretland (FTSE) 5545,38 0,33% 1,85% 4,65% -6,05% -5,64% -3,96%
Frakkland (CAC) 3149,38 0,83% -1,41% -1,29% -21,06% -16,62% -17,19%
Bandaríkin (Dow Jones) 12153,68 1,42% 4,37% 7,85% -3,51% 4,98% 8,59%
Bandaríkin (Nasdaq) 2678,75 -0,28% 0,41% 6,81% -5,29% 0,98% 6,38%
Bandaríkin (S&P 500) 1263,85 0,85% 3,21% 7,21% -5,53% 0,49% 5,39%
Japan (Nikkei) 8514,47 -3,26% -1,65% -4,02% -10,83% -15,89% -11,53%
Samnorræn (VINX) 86,45 0,23% 3,88% 3,94% -18,02% -18,36% -10,82%
Svíþjóð (OMXS30) 976,51 -1,08% 2,27% 2,14% -16,15% -15,36% -10,64%
Noregur (OBX) 361,51 1,68% 5,79% 8,35% -8,35% -8,83% -3,43%
Finnland (OMXH25) 2015,22 0,97% 0,82% 2,96% -21,82% -23,03% -18,40%
Danmörk (OMXC20) 373,08 2,91% 7,33% 0,66% -19,12% -18,07% -13,14%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 14. nóvember 2011)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 0,63% í vikunni og endaði í 214,49 stigum. Krónan hefur veikst síðustu vikur og má rekja það til þess að áhrif ferðaþjónustunnar og fiskútflutnings á krónuna fara dvínandi á haustin á sama tíma og innflutningur eykst vegna jólanna.

Það er trúlegt að þessi þróun haldi áfram fram yfir áramót að þvi gefnu að fyrirkomulag gjaldeyrishafta verði svipað og nú er.

Skiptar skoðanir eru um framtíð krónunnar á Íslandi og nokkuð ljóst að verði hún notuð áfram sem sjálfstæður gjaldmiðill þarf hún höft í einhvers konar formi. Margir virðast líta svo á að lausnin sé að skipta um gjaldmiðil en velta má fyrir sér hversu miklu það skilar ef öguð hagstjórn fylgir ekki með.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 214,49 0,63% 0,37% -2,42% -1,84% 3,10% 4,52%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 14. nóvember 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.