Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,38% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,46%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,38% og millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,04%.

Greiningaraðilar hafa heldur verið að hækka verðbólguspár sínar og hefur það greinilega haft sín áhrif á markaðinn og verðbólguótti fjárfesta hefur aukist. Þetta má sjá glöggt á eftirspurninni í þeim útboðum sem haldin voru í vikunni.

Íbúðalánasjóður hélt útboð á íbúðabréfum 16. janúar og var þátttaka góð en tilboð bárust fyrir rúma 20 milljarða króna. Sjóðurinn tók tilboðum fyrir 5,8 milljarða króna, allt í HFF 44. Vegin ávöxtunarkrafa var 2,57%.

Lánamál ríkisins hélt útboð á RB22 síðastliðinn föstudag og var þátttaka afar dræm. Samtals bárust 12 gild tilboð að fjárhæð 1.650 mkr. að nafnverði. Níu tilboðum var tekið að fjárhæð 1.400 mkr. að nafnverði á ávöxtunarkröfunni 6,52%.

Hagstofan birtir niðurstöður verðbólgumælinga, sem framkvæmdar voru um miðjan janúar, næstkomandi föstudag og við eigum von á að gildi vísitölunnar verði óbreytt frá fyrra mánuði.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 0,57% í vikunni. Mest hækkun var hjá Marel, um 2,64% og hafa bréf félagsins hækkað um 8,37% frá áramótum. Mest lækkuðu bréf BankNordik, um 4,55%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var nálægt 429 m.kr. Mest var velta með bréf Marels, fyrir um 208 m.kr og Haga fyrir um 179 m.kr.  Það sem af er janúar hefur veltan á OMXI6ISK verið rúmir 2,2 ma.kr. sem er svipað og velta desember mánaðar.

Í næstu viku byrja uppgjör félaga að birtast.  Hagar munu birta 3. fjórðungs uppgjör fyrir 2011 föstudaginn 27. janúar en rekstrarár félagsins miðast við 1. mars-29. febrúar.  Næst í röðinni verður svo Marel sem birtir ársuppgjör miðvikudaginn 1. febrúar.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 73,50 -4,55% -8,70% 5,00% -31,94% -8,13% 0,00%
FO-ATLA 164,50 0,00% 7,52% 48,87% -4,08% 7,52% -23,13%
HAGA 17,00 -0,58% 0,29% 0,00% 0,00% 4,59% 0,00%
ICEAIR 5,05 0,00% -2,13% -10,93% 0,20% 0,40% 0,40%
MARL 136,00 2,64% 9,24% 18,26% 6,25% 8,37% 8,37%
OSSRu 193,00 -2,53% 2,12% 3,76% -5,39% 2,66% 0,00%
OMXI6ISK 955,54 0,57% 4,36% 10,81% -4,11% 5,04% -2,19%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 23. janúar 2012)

 


Erlend hlutabréf

Vikan einkenndist af hækkunum á verði erlendra hlutabréfa.  Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 2,88%, DAX í þýskalandi hækkaði um 4,25%, Dow Jones í Bandaríkjunum hækkaði um 2,40% og Nikkei í Japan um 3,13%.

Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu þriðju vikuna í röð og er hækkunin rakin til þess að hagtölur voru betri en reiknað var með. Enn heldur atvinnuleysi áfram að minnka og hræðsla við stöðuna í Evrópu virðist fara minnkandi samkvæmt fréttaveitu Bloomberg.

Vel heppnuð skuldabréfaútboð á Spáni og í Frakklandi höfðu jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði í Evrópu, en CAC vísitalan í Frakklandi hækkaði um 3,91% í vikunni og hefur nú hækkað um 7,21% á einum mánuði.

Hagvöxtur í Kína, sem er annað stærsta hagkerfi heims, mældist sá minnsti frá árinu 2009 og brást seðlabankinn (The People‘s Bank of China) við með því að dæla hárri fjárhæð inn á fjármálamarkaði sem er hærri innspýting en áður hefur mælst hjá Bloomberg fréttaveitunni og er um 55,7 ma. USD.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1235,64 2,88% 4,52% 3,46% -8,38% 4,49% -5,14%
Þýskaland (DAX) 6404,39 4,25% 8,77% 7,10% -12,72% 8,42% -9,45%
Bretland (FTSE) 5728,55 1,63% 4,22% 4,68% -3,19% 3,11% -2,56%
Frakkland (CAC) 3321,50 3,91% 7,21% 4,87% -13,46% 5,25% -17,22%
Bandaríkin (Dow Jones) 12720,48 2,40% 3,47% 7,72% 0,31% 4,12% 7,15%
Bandaríkin (Nasdaq) 2786,70 2,81% 6,42% 5,66% -2,52% 6,97% 3,61%
Bandaríkin (S&P 500) 1315,38 2,04% 3,96% 6,23% -2,20% 4,59% 2,50%
Japan (Nikkei) 8766,36 3,13% 4,42% 1,00% -13,48% 3,67% -14,68%
Samnorræn (VINX) 93,13 3,18% 8,15% 10,65% -4,40% 6,51% -11,71%
Svíþjóð (OMXS30) 1033,30 2,41% 5,35% 7,19% -5,17% 4,73% -10,10%
Noregur (OBX) 365,18 0,03% 3,11% 4,17% -6,50% 2,61% -6,68%
Finnland (OMXH25) 2133,52 6,30% 10,88% 8,44% -6,89% 9,63% -19,61%
Danmörk (OMXC20) 405,46 1,06% 5,60% 15,61% -7,77% 3,61% -12,15%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 23. janúar 2012)

 

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 0,55% í vikunni og endaði í 220,392 stigum. Frá áramótum hefur gengisvísitala krónunnar hækkað um 1,43%.

Næsti vaxtaákvörðunardagur SÍ verður 8. febrúar og er almennt reiknað með að niðurstaðan verði sú að vöxtum verði haldið óbreyttum þrátt fyrir að útlit sé fyrir áframhaldandi háa verðbólgu. Það sem helst fóðrar verðbólguna núna eru gjaldskrárhækkanir ríkis, sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Til viðbótar hefur krónan verið að veikjast.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 220,39 0,55% 0,87% 2,80% -0,80% 1,43% 3,01%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 23. janúar 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.