Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,30% og millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,02%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,24% og millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,36%.

Föstudaginn 8. júní fór fram útboð á óverðtryggðum ríkisbréfum, RIKB 22 1026, hjá Lánamálum ríkisins. Þátttaka var dræm en tilboð bárust fyrir 2.650 m.kr. að nafnverði. Tekin voru tilboð fyrir 2.000 m.kr. að nafnverði á 7,24% ávöxtunarkröfu.

Miðvikudaginn 13. júní fer fram útboð hjá Lánamálum ríkisins á ríkisvíxlum, RIKV 12 0917 og RIKV 12 1217.

Miðvikudaginn13. júní birtir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vaxtaákvörðun sína. Við gerum ráð fyrir því að nefndin hækki stýrivexti um 0,25 prósentur.

Þriðjudaginn 12. júní er vaxtagjalddagi á RIKB 25 0612 og föstudaginn 15. júní greiðir Íbúðalánasjóður af HFF 150644. Samtals nema þessar greiðslur til eigenda bréfanna um 18 milljörðum króna. Má því leiða líkur að því að eftirspurn eftir ríkistryggðum bréfum aukist næstu daga.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði í vikunni um 0,95%.  Mest hækkaði Össur, um 2,88%.  Eina félagið sem lækkaði var Marel, um 0,32%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var ríflega 1.399 milljónir króna.  Mest voru viðskipti með bréf Össurar fyrir um 1.109 milljónir króna.

Aðalfundur Haga samþykkti arðgreiðslu upp á 0,45 kr. á hlut.  Það verða því greiddar út í kringum 530 milljónir króna til hluthafa þann 27. júní.  Arðsréttindadagur verður 13. júní og arðleysisdagur 11. júní.

Stjórn Marel ákvað að veita framkvæmdastjórn félagsins og lykilstarfsmönnum kauprétt að allt að 11 milljónum hluta í félaginu á fundi í síðustu viku.  Áður hafði verið samþykkt að heimila stjórn að gefa út allt að 45 milljónir nýrra hluta í tengslum við kaupréttasamninga við starfsmenn.

Heildarfjöldi hluta sem Marel hefur veitt starfsmönnum kauprétt að eru 33,2 milljónir og er áætlað að kostnaður félagsins vegna nýju samninganna næstu 5 árin um 1,4 milljónir evra.

Icelandair birti flutningatölur fyrir maí mánuð.  165 þúsund farþegar flugu hjá félaginu í millilandaflugi og er það 22% aukning frá maí í fyrra, sætanýting jókst um 5% á milli ára.  Þetta er metfjöldi farþega og besta sætanýting félagsins í maí mánuði frá upphafi.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 75,00 0,00% -2,60% 7,14% -7,14% -7,41% -39,52%
FO-ATLA 165,50 0,00% -1,19% -7,28% 0,00% 8,17% -15,56%
HAGA 18,45 0,00% 0,00% 5,43% 0,00% 12,84% 15,67%
ICEAIR 6,66 1,52% 1,52% 17,25% 28,08% 32,41% 42,67%
MARL 155,50 -0,32% -3,42% 7,99% 23,90% 23,90% 27,46%
OSSRu 214,00 2,88% 1,90% 10,31% 11,46% 15,68% 8,91%
OMXI6ISK 1075,72 0,95% -0,97% 8,10% 15,95% 18,26% 9,78%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 11. júní 2012) 

 

Erlend hlutabréf

Miklar hækkanir einkenndu vikuna. Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 3,11%, S&P 500 hækkaði um 3,73%, Nikkei í Japan um 0,23%, DAX í Þýskalandi um 1,33% og HEX25 í Finnlandi hækkaði um 1,65%.

Seðlabankinn í Kína lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentur og eru 12 mánaða vextir nú 6,31%.  Þetta er fyrsta lækkun stýrivaxta í Kína frá árinu 2008. Tilgangur lækkunarinnar er að draga úr þeim mikla hagvexti sem hefur verið í landinu og draga úr verðbólgu.  Gert er ráð fyrir um 8% hagvexti á árinu. 

Miðvikudagurinn var besti dagur ársins í kauphöllinni í New York.  Má rekja þessar miklu hækkanir til yfirlýsingar efnahagsráðherra Spánar sem sagði að Spánn gæti staðið við skuldbindingar sínar án utanðkomandi aðstoðar.   Á þremur dögum hækkaði S&P500 um 2,9% og vann þar með upp lækkunina í upphafi mánaðarins sem kom í kjölfar lélegra talna af vinnumarkaði. 

Lánshæfiseinkunn sex þýskra banka og tveggja austurrískra var lækkuð af matsfyrirtækinu Moody‘s. Ástæðan er ótti við að vandinn í Suður Evrópu smiti út frá sér og hafi áhrif á vel stæð evrulönd.  Undir lok vikunnar hvissaðist út orðrómur um að Spánverjar myndu óska eftir neyðarláni hjá Evrópusambandinu og hafði það neikvæð áhrif á verð hlutabréfa á föstudaginn.

Um helgina sóttu Spánverjar svo um allt að 100 milljarða evra neyðarláni til Evrópusambandsins og er því fjórða ríkið og jafnframt það stærsta, sem sótt hefur um slíka aðstoð.  Er lánið ætlað fjármálafyrirtækjum Spánar en ekki til að bjarga hagkerfi landsins.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1188,86 3,11% -4,31% -7,97% 0,13% 0,53% -7,73%
Þýskaland (DAX) 6130,82 1,33% -4,88% -9,03% 4,55% 6,12% -11,47%
Bretland (FTSE) 5435,08 3,32% -1,26% -6,49% -0,43% -1,20% -4,52%
Frakkland (CAC) 3051,69 3,43% -0,64% -10,83% -1,97% -1,58% -18,27%
Bandaríkin (Dow Jones) 12554,20 3,59% -2,08% -2,85% 3,04% 2,76% 5,04%
Bandaríkin (Nasdaq) 2858,42 4,04% -2,57% -4,35% 7,99% 9,72% 8,12%
Bandaríkin (S&P 500) 1325,66 3,73% -2,05% -3,30% 5,61% 5,41% 4,30%
Japan (Nikkei) 8459,26 0,23% -3,67% -13,14% 1,04% 2,01% -9,35%
Samnorræn (VINX) 87,20 2,62% -3,90% -9,53% 4,81% 1,91% -9,15%
Svíþjóð (OMXS30) 975,76 1,99% -3,24% -8,33% 3,71% 1,13% -8,82%
Noregur (OBX) 356,47 2,73% -3,90% -7,87% 3,20% 1,41% -6,19%
Finnland (HEX25)  1855,738 3,91% -7,24% -14,76% -1,35% -2,50% -20,78%
Danmörk (KFX) 426,5921 1,65% -4,05% -4,59% 14,48% 11,62% -0,81%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 11. júní 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,08% í vikunni og endaði í 223,42 stigum. Krónan styrktist um 0,90% gagnvart bandaríkjadal en veiktist um 0,17% gagnvart evru.

Seðlabanki Íslands hefur birt bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2012 og um stöðu þjóðarbúsins í lok hans. Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 43,1 ma.kr. samanborðið við 46,7 ma.kr. ársfjórðunginn á undan. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.729 ma.kr. en skuldir 13.896 ma.kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9.167 ma.kr. og lækka nettóskuldir um 40 ma.kr. á milli ársfjórðunga.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 223,42 -0,08% -0,07% -1,57% 3,49% 2,83% 1,26%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 11. júní 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.