Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,64% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,5%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,59% en millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,2%.

Í vikunni var mikil eftirspurn eftir stystu RB flokkunum vegna gjalddaga RB12 sem var á föstudaginn. Ennfremur var mikil eftirspurn eftir lengsta RB flokknum. Þar voru trúlega lífeyrissjóðir á ferð en þeir eiga yfir 80% af flokknum.

SÍ hélt stýrivöxtum óbreyttum og jafnframt var frekar mildur tónn í yfirlýsingu þeirra og umfjöllun eftir vaxtaákvörðunina. Næsti ákvörðunardagur stýrivaxta er 3. október.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 0,92% í vikunni.  Mest lækkuðu bréf Haga, um 2,70%.  Icelandair var eina félagið sem hækkaði, og nam hækkunin 1,28%.

Fasteignafélagið Reginn hf. mun birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung 31. ágúst n.k. og verður þá síðasta félagið í OMXI6ISK vísitölunni með eðlilegan uppgjörstíma til að birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung, en Hagar birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung í lok október.

Reginn kom á markað í byrjun júlí á þessu ári og hefur farið frekar rólega af stað. Félagið hefur hækkað um 1,22% en að margra mati kom það of dýrt á markað sem getur skýrt litla hækkun frá skráningu. Ef horft er til félaga sem hafa verið skráð á markað eftir hrun má nefna Haga sem var skráð í desember á síðasta ári og hefur hækkað um 33%. Icelandair var með hlutabréfaútboð undir lok árs 2010 og hefur hækkað um 184% síðan.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 68,00 0,00% -2,86% -9,33% 6,25% -16,05% -34,62%
HAGA 18,00 -2,70% -1,10% -4,76% 4,65% 10,09% 12,85%
ICEAIR 7,11 1,28% 6,92% 9,72% 29,51% 41,35% 32,65%
MARL 140,00 -1,75% -9,39% -10,54% 1,08% 11,55% 14,75%
OSSRu 199,00 0,00% -4,53% -5,66% 6,38% 8,11% 2,04%
Reginn 8,30 -0,48% 0,61% 0,00% 0,00% 1,22% 1,22%
OMXI6ISK 999,01 -0,92% -5,00% -6,71% 3,17% 9,82% 5,83%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 24. ágúst 2012) 

 

Erlend hlutabréf

Í vikunni lækkuðu allar viðmiðunar vísitölur okkar. Heimsvísitalan MSCI lækkaði um 0,34%, DAX í Þýskalandi um 0,99%, S&P500 í Bandaríkjunum um 0,5% og Nikkei í Japan um 1%.

Þrátt fyrir að S&P500 hafi lækkað um 0,5% í vikunni náði vísitalan hæsta gildi sínu frá því í maí 2008 þegar hún fór í 1.424,58 stig innan dagsins á þriðjudaginn.  Vísitalan hefur hækkað um 19,91% á sl. 12 mánuðum.  Vísitalan hefur rétt úr kútnum frá því í júní, en þá hafði hækkun ársins gengið til baka, en nú nemur hækkun frá áramótum 12,21%.

Enn er það skuldakreppan í Evrópu sem talin er helsta skýringin á lækkun hlutabréfa um heim allan. Vísitala innkaupastjóra (e. Purchasing Managers Index) gefur vísbendingar um að evrusvæðið stefni í annað samdráttarskeið, sem verður þá í annað skiptið á þremur árum, en reiknað er með að pantanir iðnfyrirtækja í aðildarríkjum evrunnar muni dragast saman um 0,5-0,6% á þessum ársfjórðungi.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1285,84 -0,34% 2,87% 8,18% -0,94% 8,73% 10,56%
Þýskaland (DAX) 6971,07 -0,99% 4,22% 9,96% 1,78% 18,19% 25,90%
Bretland (FTSE) 5776,60 -1,26% 2,65% 7,94% -2,35% 3,67% 12,61%
Frakkland (CAC) 3433,21 -1,55% 4,56% 12,52% -0,34% 8,54% 11,08%
Bandaríkin (Dow Jones) 13057,46 -0,81% 0,63% 5,65% 1,36% 7,70% 16,60%
Bandaríkin (Nasdaq) 3069,79 -0,22% 3,78% 8,19% 3,49% 17,84% 23,79%
Bandaríkin (S&P 500) 1411,13 -0,50% 1,82% 7,08% 3,18% 12,21% 19,91%
Japan (Nikkei) 9070,76 -1,00% 6,06% 5,89% -5,69% 7,45% 3,27%
Samnorræn (VINX) 99,87 -2,32% 3,12% 13,34% 1,40% 14,68% 25,81%
Svíþjóð (OMXS30) 1058,58 -3,01% -0,07% 7,51% -3,16% 7,20% 17,10%
Noregur (OBX) 400,83 -1,85% 2,21% 11,46% 1,76% 12,74% 21,11%
Finnland (HEX25)  2031,19 -0,99% 6,52% 9,54% -8,17% 6,24% 9,08%
Danmörk (KFX) 487,55 -1,28% 1,27% 10,18% 8,86% 25,43% 45,09%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 24. ágúst 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar var í lok vikunnar í 210,55 stigum og hækkaði um 1,8% í vikunni. Eftir nokkuð stöðuga styrkingu yfir sumarið hefur þróunin snúist við og hefur krónan veikst flesta daga frá 8. ágúst.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að halda vöxtum óbreyttum. Fram kemur í Peningamálum Seðlabankans að laust taumhald peningastefnunnar á undanförnum misserum hafi stutt við efnahagsbatann og að eftir því sem slaki hverfi úr þjóðarbúskapnum sé nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 210,55 1,79% -0,59% -6,12% -7,19% -3,10% -3,75%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 24. ágúst 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.