Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.


Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,35% í síðustu viku og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,24%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,66%.

Almenn hækkun var á skuldabréfamarkaði í vikunni sem leið. Óverðtryggð bréf hækkuðu heldur meira en þau verðtryggðu og ljóst að fjárfestar telja verðtryggingarálagið vera í hærri kantinum.

Stýrivextir voru hækkaðir um 25 punkta. Samfara því var frekar mildur tónn í seðlabankamönnum og gefið í skyn að ekki væri þörf á frekara peningalegu aðhaldi á næstunni. Það sem gæti helst ruggað þeim bát væru frekari launahækkanir, en kjarasamningar eru í ákveðnu uppnámi þar sem forsendur þeirra um verðbólgu og þróun krónunnar hafa ekki gengið eftir. Ennfremur gæti áframhaldandi veiking krónunnar kallað á frekara aðhald.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði í síðustu viku um 1,23%.  Ekkert félag lækkaði í vikunni, mest hækkuðu bréf BankNordik um 5,93% og Icelandair, um 4,25%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var um 5,5 milljarðar króna.  Mest voru viðskipti með bréf Icelandair fyrir ríflega 3,5 milljarða króna.  Ríflega 2,6 milljarðar króna voru vegna sölu Framtakssjóðs Íslands á 350 milljónum hluta á genginu 7,5.  Þar af keyptu Lífeyrissjóðirnir Bankastræti 7, 120 milljónir hluta og er eign þeirra því orðin ríflega 12% í Icelandair.

Færeyski bankinn BankNordik birti uppgjör fyrir 3. ársfjórðung í síðustu viku.  Hagnaður fyrir skatta nam 68m. DKK á móti 30m. DKK hagnaði á þriðja ársfjórðungi 2011.  Fyrir fyrstu níu mánuði ársins nam hagnaður fyrir skatta 80m. DKK en var 64m. DKK á sama tíma á síðasta ári.

Viðskipti með Eimskipafélag Íslands hófust á Aðalmarkaði Kauphallar síðastliðin föstudag,  alls áttu sér stað 82 viðskipti með bréf félagsins í veltu upp á tæplega 275 milljónir króna.  Lokagengi var 225 og hækkaði því um 8,17% frá útboðsgengi.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 62,50 5,93% 1,63% -8,09% -16,67% -22,84% -18,83%
HAGA 21,35 1,43% 9,77% 15,41% 15,09% 30,58% 33,86%
ICEAIR 7,85 4,25% 11,51% 11,82% 24,60% 56,06% 53,02%
MARL 130,50 38,00% -2,97% -8,74% -15,81% 3,98% 7,85%
OSSRu 184,00 0,55% -6,12% -9,80% -10,02% -1,87% -0,54%
Reginn 10,55 0,96% 2,43% 26,65% 0,00% 28,66% 28,66%
OMXI6ISK 990,10 1,23% -0,54% -2,51% -5,83% 8,84% 10,02%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 19. nóv. 2012)

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf héldu áfram að lækka í verði í liðinni viku. MSCI heimsvísitalan lækkaði um 1,78%, bandaríska S&P 500 vísitalan um 1,45%  og DAX í Þýskalandi um 2,97%.  Einungis ein af viðmiðunarvísitölunum sem við styðjumst við hækkaði en það var Nikkei vísitalan í Japan sem hækkaði um 3,04%.

Ástæður fyrir lækkununum voru meðal annars fjölgun fólks á atvinnuleysisbótum í Bandaríkjunum og minnkandi hagvöxtur í Evrópu.  Fleiri Bandaríkjamenn sóttu um atvinnuleysisbætur en spár sögðu til um eða 439.000 sem er 78.000 fleiri en vikuna þar á undan. 

Á evrusvæðinu varð 0,1% samdráttur í landsframleiðslu á þriðja ársfjórðungi og svæðið því komið í kreppu á ný í annað skipti á fjórum árum en 0,2% samdráttur  var á svæðinu á öðrum ársfjórðungi.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1253,31 -1,78% -5,22% -2,86% 6,35% 5,98% 8,28%
Þýskaland (DAX) 6950,53 -2,97% -4,86% -0,27% 11,97% 19,05% 21,06%
Bretland (FTSE) 5605,59 -2,84% -4,11% -3,39% 7,33% 1,47% 5,43%
Frakkland (CAC) 3341,52 -2,40% -3,66% -3,21% 12,25% 6,85% 12,66%
Bandaríkin (Dow Jones) 12588,31 -1,77% -5,66% -5,17% 1,77% 3,03% 6,72%
Bandaríkin (Nasdaq) 2853,13 -1,78% -5,07% -7,26% 2,68% 9,52% 10,91%
Bandaríkin (S&P 500) 1359,88 -1,45% -5,12% -4,11% 4,99% 8,13% 11,86%
Japan (Nikkei) 9024,16 3,04% 1,67% -0,10% 6,29% 8,25% 9,29%
Samnorræn (VINX) 95,80 -2,91% -3,37% -5,46% 12,44% 10,49% 16,40%
Svíþjóð (OMXS30) 1027,04 -2,39% -2,50% -4,89% 8,58% 5,08% 10,28%
Noregur (OBX) 400,05 -1,22% -3,56% -1,45% 12,28% 12,55% 14,86%
Finnland (OMXH25)  1999,77 -2,43% -1,64% -1,00% 8,96% 4,58% 6,99%
Danmörk (OMXC20) 475,70 -2,87% -5,19% -3,12% 8,63% 22,70% 27,98%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 19. nóv 2012)

 

Krónan

Lítil breyting var á gengi krónu í sl. viku. Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,14% og endaði í 226,77 stigum. Krónan veiktist um 0,05% gagnvart dollara og um 0,15% gagnvart evru. 

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði vexti bankans um 0,25 prósentur 14. nóvember sl. Sú vaxtahækkun var í takt við væntingar flestra markaðsaðila. Í yfirlýsingu með vaxtaákvörðuninni kemur fram að eftir því sem slakinn hverfi úr þjóðarbúskapnum sé nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. 

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 226,77 -0,14% 2,99% 9,62% 1,20% 4,37% 5,78%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 19. nóv 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.