Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu í vikunni sem leið um 1,05% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,76%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,53% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,71%.

Það var því almenn hækkun skuldabréfa og virðist því markaðurinn aðeins að vera að rétta úr kútnum eftir snarpa lækkun í lok nóvember.

Á föstudaginn fór fram útboð í RKB 14. Alls bárust tilboð fyrir 4.000 m.kr. að nv. en aðeins var tekið tilboðum fyrir 750 m.kr. að nv.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði í síðustu viku um 0,62%.  Mest hækkuðu bréf BankNordik, um 8,96% í litlum viðskiptum.  Bréf Regins lækkuðu mest, um 1,92%

Heildarvelta á OMXI6ISK var um 2.150 milljónir króna.  Mest voru viðskipti með bréf Icelandair fyrir ríflega 643 milljónir króna.  Í nóvember var velta hlutabréfa um 11,9 milljarðar og var um 42% meiri en á sama tíma í fyrra.  Velta það sem af er árinu er um 25% meiri en fyrir allt árið 2011.

Icelandair flutti 131 þúsund farþega í millilandaflugi í nóvember sem er um 25% fleiri en á sama tíma í fyrra.  Félagið hefur flutt um 1,9 milljónir farþega það sem af er ári.

Þá undirritaði Icelandair og Boeing viljayfirlýsingu um pöntun á tólf 737 MAX8 og 737 MAX9 flugvélum með kauprétti á tólf flugvélum til viðbótar.  Þetta er ný gerð véla og er áætlað að fyrstu vélarnar verði komnar í rekstur árið 2017 og Icelandair taki á móti fyrstu vélunum fyrri hluta árs 2018.

Nýju vélarnar munu taka aðeins færri farþega en Boeing 757-200 flugvélar Icelandair en eldsneytissparnaður verður ríflega 20% á sæti.  Icelandair mun þó áfram nota Boeing 757 vélarnar.

Heildarverðmæti vélanna er samkvæmt listaverði um 1,2 milljarðar USD, en kaupverðið er trúnaðarmál.

Lokuðu útboði Vodafone (Fjarskipta) lauk 3. desember og bárust tilboð fyrir um 10 milljarða, eftirspurn var 2,4 föld.  Í boði var 40% hlutafé í félaginu.  Verð á hlut bæði í lokaða og almenna útboðinu var ákveðið 31,5.

Almennu útboði Vodafone lauk 6. desember og var 1,6 föld eftirspurn í þá 10% hluti sem í boði voru.  Í ljósi umframeftirspurnar selur Framtakssjóður Íslands 10% hlut í viðbót eða samtals 60%.  Það verða því 201.387.120 hlutir sem skipta um hendur við skráningu félagsins á markað.  Söluandvirði er 6.344 milljónir króna.  Eftir söluna á Framtakssjóðurinn 19,7% hlut í félaginu.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 73,00 8,96% 23,73% 13,18% -2,67% -9,88% -9,88%
HAGA 21,65 0,00% 2,85% 20,28% 17,34% 35,74% 32,34,%
ICEAIR 7,67 -0,39% 1,86% 8,49% 15,17% 52,49% 47,50%
MARL 133,50 0,75% 2,69% -3,26% -14,15% 6,37% 6,37%
OSSRu 186,00 0,81% 1,64% -7,00% -13,08% 0,54% -3,13%
Reginn 10,74 -1,92% 2,78% 19,60% 0,00% 30,98% 30,98%
OMXI6ISK 1009,22 0,62% 3,15% 1,24% -6,18% 10,94% 8,79%

  (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 10. des. 2012)

 

Erlend hlutabréf

Flestar hlutabréfavísitölur hækkuðu í síðustu viku. Heimsvísitala MSCI hækkaði um 0,4%, bandaríska S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,13% og samnorræna VINX vísitalan hækkaði um 1,62%. Bandaríska Nasdaq vísitalan lækkaði aftur á móti um 1,07% og vó mikil lækkun tæknirisans Apple Inc. þar þungt. 

Misvísandi hagtölur komu frá Bandaríkjunum á föstudaginn. Í fyrstu tók markaðurinn vel við fréttum um fjölda nýrra starfa, sem voru 146 þúsund, samanborið við væntingar um 85 þúsund ný störf. Jafnframt lækkaði atvinnuleysi úr 7,9% í 7,7%. Þegar betur var að gáð voru tölurnar ekki jafngóðar þar sem að miklu leyti er um tímabundin störf í smásölu að ræða og lækkun á atvinnuleysi skýrist helst af mikilli og viðvarandi fækkun fólks á vinnumarkaði. Einnig bárust niðurstöður úr könnun um viðhorf neytenda sem var langt undir væntingum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1320,74 0,40% 3,50% 1,10% 11,09% 11,68% 11,24%
Þýskaland (DAX) 7517,80 1,52% 4,65% 3,92% 22,27% 27,09% 25,22%
Bretland (FTSE) 5914,40 0,81% 2,43% 2,02% 8,74% 6,06% 6,89%
Frakkland (CAC) 3605,61 1,36% 4,93% 2,46% 17,71% 13,68% 13,23%
Bandaríkin (Dow Jones) 13155,13 0,99% 2,65% -0,75% 4,79% 7,67% 7,97%
Bandaríkin (Nasdaq) 2978,04 -1,07% 2,52% -4,06% 4,18% 14,31% 12,51%
Bandaríkin (S&P 500) 1418,07 0,13% 2,77% -0,77% 6,97% 12,76% 12,98%
Japan (Nikkei) 9527,39 0,86% 8,86% 7,49% 12,70% 12,75% 11,68%
Samnorræn (VINX) 102,27 1,62% 3,28% 1,96% 16,87% 16,48% 19,79%
Svíþjóð (OMXS30) 1098,62 1,18% 4,20% 2,69% 12,36% 10,98% 13,82%
Noregur (OBX) 410,24 -0,21% 1,14% -1,23% 14,90% 14,54% 16,56%
Finnland (OMXH25)  2222,56 3,59% 7,76% 7,60% 19,02% 13,72% 15,06%
Danmörk (OMXC20) 498,57 1,56% 1,61% 0,58% 16,65% 27,62% 30,89%

  (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 10. des 2012)

 

Krónan

Lítilsháttar veiking varð á krónunni í síðustu viku. Gengisvísitalan hækkaði um 0,26% og endaði í 225,21 stigi. Dollari styrktist um 0,57% gagnvart krónu en evra var svo til óbreytt. 

Landsframleiðsla á 3. ársfjórðungi 2012 jókst um 2,1% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Á fyrstu níu mánuðum ársins jókst landsframleiðsla um 2% að raungildi milli ára. 

Seðlabanki Íslands hefur birt  bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2012 og um stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins. Þar kemur m.a. fram að viðskiptajöfnuður hafi mælst hagstæður um 29,4 ma.kr. á ársfjórðungnum, viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð hafi verið hagstæður um 49,6 ma.kr. en jöfnuður þáttatekna hafi verið neikvæður um 26,6 ma.kr. 

Einnig kemur fram að erlendar eignir þjóðarbúsins hafi numið 4.399 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.274 ma.kr. og var hrein staða við útlönd því neikvæð um 8.874 ma.kr. Innlánsstofnanir í slitameðferð vega þungt í þessum eignum og skuldum.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 225,21 0,26% -0,27% 3,98% 0,99% 3,65% 4,38%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 10. des 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.