Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,20% en millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,07%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,66% en millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,08%.

Föstudaginn 7. september fór fram, hjá Lánamálum ríkisins, útboð á RIKB 14 0314 og RIKB 22 1026. Í RIKB 14 0314 var einu tilboði tekið fyrir 4.000 m.kr. að nafnverði á 3,97% ávöxtunarkröfu. Í RIKB 22 1026 var 22 tilboðum tekið fyrir 4.370 m.kr. að nafnverði á 7,03% ávöxtunarkröfu. 

Að loknu þessu útboði hafa Lánamál ríkisins selt á árinu í markflokkum ríkisbréfa fyrir um 44 milljarða króna og í RIKS 30 og RIKS 33 fyrir um 23 milljarða króna í tengslum við gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands. Útgáfuáætlun ársins hljóðaði upp á 75 milljarða króna og að lágmarki 40 milljarða króna í markflokkum. Það sem eftir lifir árs verður því að hámarki gefin út ríkisbréf í markflokkum fyrir um 8 milljarða króna.   

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 0,25% í vikunni.  Bréf Regins hækkuðu mest, um 5,65% og Össurar um 0,50%.  Mest lækkuðu bréf BankNordik, um 5,15%.

Eftir rólega byrjun í kjölfar útboðs hefur gengi hlutabréfa Regins hækkað töluvert síðustu vikurnar og nemur hún um 7,5% frá útboðsgengi. Fasteignasafn félagsins eru um 30 eignir og þær stærstu eru Egilshöll og Smáralindin. Hagar og Reykjavíkurborg eru stærstu einstöku leigutakar félagsins og er um 94% leigjanlegra fermetra félagsins í útleigu. Félagið keypti nú nýlega fasteignir KEA hótels við Hafnastræti á Akureyri af eignarhaldsfélaginu Krypton með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Icelandair hefur vegnað vel á árinu. Félagið hefur flutt 1,4 milljón farþega það sem af er ári, en það er 14% fleiri farþegar en á sama tímabili í fyrra. Mesta fjölgun farþega er á N-Atlantshafsmarkaðinum eða um 19% og voru þeir um helmingur farþega félagsins. Frá áramótum hefur gengi hlutabréfa félagsins hækkað um 40,56%.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 64,50 -5,15% -5,15% -14,00% -7,86% -20,37% -28,33%
HAGA 18,00 0,00% -1,91% -2,44% 2,86% 10,09% 12,85%
ICEAIR 7,07 -0,84% 4,12% 6,16% 24,47% 40,56% 33,40%
MARL 138,50 -0,36% -3,33% -11,25% -4,17% 9,96% 15,00%
OSSRu 200,00 0,50% -0,99% -6,54% 3,09% 8,11% 3,36%
Reginn 9,00 5,65% 6,90% 0,00% 0,00% 9,51% 9,51%
OMXI6ISK 994,37 0,25% -1,13% -7,33% 0,17% 9,58% 9,22%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 7. september 2012)

 

Erlend hlutabréf

Í vikunni voru talsverðar hækkanir á erlendum hlutabréfum. Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 2,64%, DAX í Þýskalandi um 3,5%, S&P 500 í Bandaríkjunum um 2,28% og Nikkei í Japan um 0,36%.

Framleiðsla í Kína er nú í 9 mánaða lágmarki.  Minnkandi útflutningur er enn áhyggjuefni, en í Kína er annað stærsta hagkerfi heimsins. Bloomberg fréttaveitan hefur eftir forseta landsins, Hu Jintao, að minnkandi útflutningur skapi neikvæða pressu á hagkerfið og hann gefur fyrirheit um aukningu í innlendri eftirspurn til að tryggja stöðugri vöxt hagkerfisins. Skuldakreppan í Evrópu og lítill vöxtur í Bandaríkjunum koma í veg fyrir að útflutningurinn rétti almennilega úr kútnum á næstunni.

Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu,  kynnti nýja áætlun bankans í vikunni.  Hyggst hann kaupa ótakmarkað  magn ríkisskuldabréfa, með allt að þriggja ára líftíma á eftirmarkaði.  Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa Spánar og Ítalíu hefur hækkað töluvert undanfarna mánuði og gert ríkjunum erfiðara fyrir með að fjármagna sig. Eftir kynninguna fóru vextir á spænskum ríkisskuldabréfum undir 6%, í fyrsta skiptið síðan í maí.

Áætlun Evrópska seðlabankans auk yfirlýsingar Ben S. Bernanke, bankastjóra Bandaríska seðlabankans um að bankinn muni áfram styðja við bandaríska hagkerfið, hafði jákvæð áhrif á S&P 500 vísitöluna.  Hækkun vikunnar var 2,28% sem er sú mesta í 3 mánuði.  Vísitalan hefur hækkað um rúm 14% á árinu og er um 8 prósentum frá hæsta gildi sínu 1.565,15 sem var í september 2007.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1312,08 2,64% 2,64% 10,36% 1,57% 10,95% 15,63%
Þýskaland (DAX) 7214,50 3,50% 3,77% 17,54% 4,74% 22,18% 38,85%
Bretland (FTSE) 5794,80 1,59% -1,04% 6,46% -1,72% 3,84% 10,96%
Frakkland (CAC) 3519,05 3,28% 2,10% 14,94% 0,58% 11,01% 17,92%
Bandaríkin (Dow Jones) 13306,64 1,68% 0,75% 5,99% 2,98% 8,91% 21,06%
Bandaríkin (Nasdaq) 3136,42 2,29% 3,83% 9,73% 4,96% 20,39% 27,08%
Bandaríkin (S&P 500) 1436,42 2,28% 2,28% 8,47% 4,89% 14,34% 24,58%
Japan (Nikkei) 8871,65 0,36% -0,25% 4,85% -10,68% 4,90% 1,51%
Samnorræn (VINX) 100,22 1,62% -1,73% 14,68% 1,46% 14,29% 23,39%
Svíþjóð (OMXS30) 1070,87 2,58% -1,04% 9,48% -1,98% 8,14% 20,76%
Noregur (OBX) 413,57 2,28% 3,55% 16,04% 5,09% 15,68% 24,80%
Finnland (HEX25)  2050,98 2,81% 0,96% 10,72% -7,51% 5,80% 8,90%
Danmörk (KFX) 496,63 1,32% 1,33% 16,19% 8,66% 27,11% 42,77%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 7. september 2012)

 

Krónan

Krónan hélt áfram að veikjast í vikunni. Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 1,4% og endaði í 216,58 stigum. Það sem af er ári hefur gengi krónunnar fylgt innflutningstekjum og hefur styrking yfir sumarmánuðina og veiking í kjölfarið því verið fyrirséð. Krónan byrjaði reyndar að veikjast fyrr í ár en á síðasta ári en það stafar líklega af viðbrögðum markaðsaðila við mikilli styrkingu hennar framan af sumri. Markaðurinn á jú að eyða út árstíðabundnum sveiflum.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands nam útflutningur í ágúst 51,6 milljörðum króna og innflutningur 39,0 milljörðum króna. Vöruskiptin í ágúst voru því hagstæð um 12,6 milljarða króna. 

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 216,58 1,40% 4,73% -2,88% -4,35% -0,32% -1,09%

  (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 7. september 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.