Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,63% en millilöng verðtryggð skuldabréf  lækkuðu um 0,88%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,48% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,06%.

Verðbólguálagið hefur haldið áfram að lækka og er nú farið að nálgast 4% markið. Líklegt verður að teljast að þessi þróun haldi eitthvað áfram enda hefur verðbólguþrýstingur farið minnkandi. Krónan hefur styrkst töluvert og olíuverð farið lækkandi og má því búast við að næstu tvær verðbólgumælingar sýni litlar verðlagshækkanir.

Í síðustu viku var útboð í RB14 og RB16. Tilboðum var tekið fyrir 1.350 m.kr. að nafnvirði í RB14 og 6.000 m.kr. að nafnvirði í RB16. Í kjölfar útboðsins lækkaði krafa þessara flokka á markaði.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði í síðustu viku um 1,63%.  Ekkert félag í vísitölunni hækkaði í en mest lækkuðu bréf í Marel eða um 2,9%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var ríflega 1.106 milljónir króna.  Mest voru viðskipti með bréf Haga fyrir um 582 milljónir króna.

Í síðustu viku fór fram útboð á hlutafé í fasteignarfélaginu Regin hf.  Til sölu voru allt að 975 milljónir hluta sem nemur 75% hlutafé félagsins.  Heildareftirspurn nam 10,3 milljörðum króna.  Heildarsöluverðmæti útboðsins nam 7.895 milljónum króna.  Tekið var tilboðum í 963 milljónir hluta en Eignarhaldsfélag Landsbankans, sem átti félagið, ákvað að halda eftir rúmlega 12 milljónum hluta til að selja til viðskiptavaka.

Útboðsgengi var ákveðið 8,2 krónur á hlut en verðbil útboðsins var 8,1-11,9 krónur á hlut.  Við skráningu á markað mun Eignarhaldsfélag Landsbankans eiga 25% hlut í Regin og mun ekki selja þann hlut frá sér fyrstu 10 mánuðina eftir skráningu Regins á markað.

Eftir útboðið er Eignarhaldsfélag Landsbankans með stærstan hlut í Regin en þar á eftir koma Lífeyrissjóður Verslunarmanna með 8,26% hlut og Gildi Lífeyrissjóður með 4,08% hlut.

Útboðið kemur á eftir vel heppnuðu útboði Haga í desember síðastliðnum, en útboð Haga var það fyrsta sem fram fór eftir hrun.  Athyglisvert verður að fylgjast með viðskiptum með bréf Regins þegar félagið verður tekið til viðskipta þann 2.júlí næstkomandi.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni kemur fram að við hálfs árs endurskoðun OMXI6 vísitölunnar mun Regin koma inn fyrir olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum.  Vísitölunni er ætlað að vera samsett af þeim sex félögum sem hafa mestan seljanleika í Kauphöllinni þegar búið er að taka tillit til flotleiðrétts markaðsvirði félaganna.

Íslandsbanki ákvað að selja 10,29% af útgefnu hlutfé í Icelandair í síðustu viku og var það gert með lokuðu útboði.  Eftir útboðið er eignarhlutur Íslandsbanka í Icelandair 9,7%.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 75,00 0,00% 0,00% -9,64% -7,41% -7,41% -39,02%
FO-ATLA 165,50 0,00% 8,17% -2,07% 8,17% 8,17% -15,56%
HAGA 18,00 -0,55% -4,51% 0,56% 10,09% 10,09% 12,85%
ICEAIR 6,45 -2,12% -0,46% 9,14% 27,72% 28,23% 29,52%
MARL 150,50 -2,90% -4,14% 3,08% 19,92% 19,92% 22,86%
OSSRu 210,00 0,00% 0,96% 6,87% 12,90% 13,51% 7,97%
OMXI6ISK 1041,69 -1,63% -2,40% 2,21% 13,88% 14,51% 8,59%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 25. júní 2012) 

 

Erlend hlutabréf

Heimsvísitalan MSCI lækkaði um 0,24% í vikunni. DAX í Þýskalandi hækkaði um 0,54% og CAC í Frakklandi hækkaði um 0,11%. Dow Jones vísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 0,99% en Nikkei í Japan hækkaði um 2,67%.

Svartsýni þýskra stjórnenda hefur ekki verið meira í tvö ár. Ástæðan er skuldavandi Evrópu og ótti um að stjórnmálamenn á evrusvæðinu komist ekki að samkomulagi ef vandamál svæðisins aukast en frekar.

Hrávöruverð hefur verið að lækka töluvert undanfarið. Frá áramótum hefur olían lækkað um 13,60%, ál hefur lækkað um 7,80%, silfur um 3,30% en gull hefur hækkað um 0,60% (verðbreytingar í bandaríkjadollar).

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1205,67 -0,24% 1,44% -7,84% 1,98% 1,95% -5,47%
Þýskaland (DAX) 6263,25 0,54% -2,80% -11,91% 4,83% 4,48% -13,46%
Bretland (FTSE) 5513,69 0,64% 2,35% -6,45% -0,64% -1,70% -3,87%
Frakkland (CAC) 3090,9 0,11% -0,29% -12,57% -2,03% -3,82% -19,70%
Bandaríkin (Dow Jones) 12640,8 -0,99% 1,49% -3,36% 2,82% 3,46% 5,92%
Bandaríkin (Nasdaq) 2892,42 0,68% 1,93% -5,72% 10,46% 11,03% 9,03%
Bandaríkin (S&P 500) 1335,02 -0,58% 1,31% -4,44% 5,51% 6,16% 5,25%
Japan (Nikkei) 8798,35 2,67% 1,80% -12,75% 4,04% 3,30% -9,75%
Samnorræn (VINX) 89,7 2,27% -0,48% -9,58% 2,25% 0,70% -5,84%
Svíþjóð (OMXS30) 977,53 0,00% -0,80% -7,87% 2,23% 0,48% -7,51%
Noregur (OBX) 354,77 -1,71% -2,33% -10,83% -0,72% -1,21% -3,88%
Finnland (HEX25)  1868,93 2,25% -6,25% -16,95% -4,37% -6,36% -21,18%
Danmörk (KFX) 431,19 0,00% -2,57% -3,38% 13,05% 10,92% 3,99%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 25. júní 2012) 

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,85% í vikunni og endaði í 218,67 stigum. Krónan styrktist um 0,49% gagnvart bandaríkjadal og 1,02% gagnvart evru.

Í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands sem fóru fram 20. júní síðastliðinn tók bankinn tilboðum að fjárhæð 23,7 milljónir evra og var útboðsverð samþykktra tilboða 245 kr. fyrir hverja evru. Í útboði um kaup á krónum fyrir evrur var tilboðum tekið fyrir 7,5 ma.kr. á verðinu 246 kr. fyrir hverja evru. Þáttaka í útboðunum var minni en í undanförnum útboðum.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 218,67 -0,85% -2,10% -4,07% -0,01% 0,64% -0,45%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 25. júní 2012) 

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.