Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,91% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,71%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,23% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,55%.

Lánamál ríkisins felldu niður útboð á ríkisbréfum sem fara átti fram föstudaginn 20. júlí. Sú ákvörðun hafði jákvæð áhrif á markaðinn þannig að bæði verðtryggð og óverðtryggð bréf hækkuðu í verði í vikunni. Næsta útboð ríkisbréfa er ekki áætlað fyrr en 22. ágúst.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði í vikunni um 0,51%. Eina félagið sem hækkaði var Hagar, um 0,55%. Mest lækkuðu bréf Regins, um 1,78%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var tæpar 338 milljónir króna. Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir um 135 milljónir króna.

Færeyski bankinn BankNordik hyggst greiða 150 milljónir DKK inn á lán sem bankinn tók í júní 2011. Lánið er 420 milljónir DKK með gjalddaga 2021. Bankinn hefur fengið leyfi hjá danska fjármálaeftirlitinu til að greiða inn á lánið.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að biðlað hafi verið til eiganda bréfanna um endurkaup.  Gangi það eftir mun það hafa lítil áhrif á eiginfjárhlutfall bankans sem var í lok júní 15,6% en gæti farið niður í 14,4%.

BankNordik er skráð í kauphöllina á Íslandi sem og í Kaupmannahöfn og er í OMXI6ISK vísitölunni. Engin viðskipti hafa verið með bréf félagsins síðan 6. júlí hér heima.

Marel og Össur munu bæði birta uppgjör fyrir 2. ársfjórðung þann 25. júlí.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 70,00 0,00% -6,67% -9,09% -6,67% -13,58% -33,96%
HAGA 18,20 0,55% 1,11% -3,70% 7,06% 11,31% 14,11%
ICEAIR 6,70 -0,45% 3,88% 5,68% 32,67% 33,20% 35,08%
MARL 154,50 0,00% 2,66% 1,31% 13,60% 23,11% 20,70%
OSSRu 209,00 -0,95% -0,48% -0,95% 8,29% 12,97% 5,29%
Reginn 8,30 -1,78% 0,00% 0,00% 0,00% 1,22% 1,22%
OMXI6ISK 1052,13 -0,51% 1,00% -1,26% 10,11% 15,66% 7,66%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 23. júlí 2012)



Erlend hlutabréf

Heimsvísitala MSCI hækkaði um 0,49% í vikunni. Bandaríska S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,46%, japanska Nikkei vísitalan lækkaði um 0,62% og þýska DAX vísitalan hækkaði um 1,11%. Samnorræna vísitalan, VINX, átti mjög góða viku og hækkaði um 2,56%.

Farið er að kveða við neikvæðari tón hjá málsmetandi aðilum í umræðu um efnahagsmál á heimsvísu. Ben Bernanke, seðlabankastjóri í Bandaríkjunum, svaraði spurningum þingmanna þar í landi og kom fram í svörum hans að hægar gengi að vinna bug á atvinnuleysi en vænst hefði verið og einnig virtist hann ekki bjartsýnn á að efnahagsvandræði Evrópu yrðu leyst í bráð.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn endurmat fyrri spá sína um hagvöxt á heimsvísu niður á við fyrir þetta ár og það næsta. Fremur var þó vakin athygli á því að sjóðurinn telur áhættu hafa aukist nái forsendur sjóðsins um skynsamleg stefnumörkun bæði í Evrópu og Bandaríkjunum ekki fram að ganga.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1247,82 0,49% 2,13% -2,60% -0,91% 4,12% -8,70%
Þýskaland (DAX) 6630,02 1,11% 4,13% -0,01% 1,33% 10,58% -10,98%
Bretland (FTSE) 5651,77 -0,23% 0,81% -1,89% -3,88% -0,25% -6,35%
Frakkland (CAC) 3193,89 0,41% 1,30% 1,05% -6,22% -0,91% -18,52%
Bandaríkin (Dow Jones) 12943,36 0,42% 1,44% -0,81% 0,90% 4,95% 1,12%
Bandaríkin (Nasdaq) 2965,9 0,58% 1,14% -1,52% 5,07% 12,29% 2,33%
Bandaríkin (S&P 500) 1376,51 0,46% 2,07% -0,31% 3,55% 8,35% 1,31%
Japan (Nikkei) 8669,87 -0,62% -3,30% -10,83% -2,94% 0,63% -16,03%
Samnorræn (VINX) 96,15138 2,56% 5,41% 2,17% 0,93% 8,07% -3,00%
Svíþjóð (OMXS30) 1041,563 1,03% 1,54% 1,79% -1,63% 3,80% -6,02%
Noregur (OBX) 393,19 2,15% 8,37% 1,56% 4,69% 7,51% -2,03%
Finnland (HEX25)  1877,372 -0,80% -1,84% -7,58% -14,73% -5,60% -19,83%
Danmörk (KFX) 473,1877 2,62% 6,61% 2,78% 15,13% 19,92% 6,75%

  (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 23. júlí 2012)

 

Krónan

Áframhald var á sumarstyrkingu krónunnar í vikunni. Gengisvísitalan lækkaði um 2,76% og endaði í 213,98 stigum. Bandaríkjadalur stóð í lok vikunnar í 124,51 krónu og lækkaði gengi hans um 3,24% gagnvart krónunni. Evran lækkaði um 3,04% í vikunni og stóð í 152,24 krónum í lok hennar.

Fjármálaráðuneytið birti ríkisreikning fyrir árið 2011 í vikunni. 89,4 milljarða króna halli var á rekstri ríkissjóðs árið 2011, sem er 43 milljörðum verr en áætlanir gerðu ráð fyrir. Til samanburðar var halli ársins 2010 123,3 milljarðar. Tekjur á síðasta ári voru 1,2% umfram fjárlög en gjöld voru 9,2% umfram fjárlög. Skv. fjármálaráðuneytinu skýrist frávik frá áætlunum að langstærstu leyti af óreglulegum liðum og einskiptis kostnaði.

Mest munar um gjaldfærslur vegna SpKef sparisjóðs upp á 20 milljarða króna. Þá námu niðurfærslur eignarhluta hjá Byggðastofnun um 7 milljörðum króna og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins um 5 milljörðum króna.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 213,98 -2,76% -2,02% -6,39% -2,91% -1,52% -3,68%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 23. júlí 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Sveinn Torfi Pálsson, forstöðumaður eignastýringar.