Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,25% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,62%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,6% en millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,07%.

Mikil eftirspurn var eftir löngum verðtryggðum bréfum í vikunni og þar sem framboð er takmarkað þá hækkuðu bréfin vel í verði. Sama var upp á teningnum með millilöng óverðtryggð bréf en gjalddagi RB12 er 24. ágúst n.k. og því má búast við áframhaldandi eftirspurn eftir stuttum og millilöngum óverðtryggðum bréfum.

Á miðvikudaginn birtir SÍ næstu stýrivaxtaákvörðun sína. Greiningar markaðsaðila eru sammála um að ekki sé efni til þess að hækka stýrivexti að þessu sinni þar sem dregið hefur úr verðbólgu og verðbólguhorfur hafa batnað. Til viðbótar hefur ástand efnahagsmála helstu viðskiptalanda Íslands heldur versnað.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði í vikunni um 0,24%.  Mest hækkuðu bréf Icelandair, um 3,24%.  Mesta lækkunin var á verði bréfa Marels, um 1,04%.

Eftir gott uppgjör Icelandair á öðrum ársfjórðungi hefur félagið hækkað töluvert. IFS greining spáir því að félagið gæti hækkað um rúm 10% næstu 6 mánuði miðað við dagslokagengi félagsins í lok síðustu viku. En frá því að félagið kom á markað í lok árs 2010 hefur það hækkað um 180%.

Hagnaður Bank Nordik fyrstu sex mánuði ársins var töluvert minni en á sama tíma í fyrra. Hagnaður bankans nam 10,3 milljónum danskra króna (205 milljónir króna) en á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 29 milljónir danskra króna (577 milljónir króna).

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 68,00 0,00% -2,86% -9,33% 4,62% -16,05% -34,62%
HAGA 18,50 0,54% 1,65% -0,27% 7,25% 13,15% 15,99%
ICEAIR 7,05 3,24% 5,56% 11,43% 27,64% 39,56% 35,00%
MARL 143,00 -1,04% -7,44% -7,74% 2,51% 13,94% 15,79%
OSSRu 200,00 0,99% -2,39% -0,24% 7,37% 10,27% 4,08%
Reginn 8,33 -0,12% 0,60% 0,00% 0,00% 1,59% 1,59%
OMXI6ISK 1015,69 0,24% -3,42% -3,39% 4,67% 11,66% 5,80%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 17. ágúst 2012)

 

Erlend hlutabréf

Nokkur hækkun var á erlendum hlutabréfum í vikunni. S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 0,87%,  DAX í Þýskalandi um 1,39%, Nikkei í Japan um 3,05% og heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 0,97%.

Hækkunina má meðal annars rekja til betri hagtalna í Bandaríkjunum en reiknað var með. Aukin bjartsýni bandarískra neytenda fór vel í fjárfesta auk þess sem smásala jókst milli mánaða. Er þetta sjötta vikan í röð þar sem hlutabréfaverð hækkar í Bandaríkjunum.

Hlutabréf í Evrópu hækkuðu líka almennt í verði vegna væntinga um efnahagsaðgerðir til hjálpar evrunni og þar sem hagvöxtur í Þýskalandi og Frakklandi dróst minna saman milli fjórðunga en spár sögðu til um.  Hagvöxtur í Þýskalandi nam 0,3% á öðrum ársfjórðungi en enginn hagvöxtur mældist í Frakklandi.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1290,23 0,97% 4,78% 9,49% -0,48% 9,10% 14,01%
Þýskaland (DAX) 7040,88 1,39% 6,47% 12,56% 1,59% 19,67% 28,81%
Bretland (FTSE) 5852,42 0,09% 3,52% 11,07% -1,59% 5,00% 16,07%
Frakkland (CAC) 3488,38 1,54% 9,43% 16,19% 0,65% 10,61% 15,84%
Bandaríkin (Dow Jones) 13275,20 0,51% 3,53% 7,32% 2,51% 8,66% 22,72%
Bandaríkin (Nasdaq) 3076,59 1,84% 5,17% 10,72% 4,23% 18,10% 31,37%
Bandaríkin (S&P 500) 1418,16 0,87% 4,07% 9,49% 4,18% 12,77% 26,22%
Japan (Nikkei) 9162,50 3,05% 5,78% 6,50% -3,31% 8,47% 5,18%
Samnorræn (VINX) 102,25 0,48% 6,60% 19,22% 1,82% 17,15% 31,02%
Svíþjóð (OMXS30) 1091,46 1,11% 4,77% 14,15% -1,86% 10,47% 24,37%
Noregur (OBX) 408,39 2,24% 3,69% 13,74% 3,72% 14,01% 25,91%
Finnland (HEX25)  2051,51 0,80% 9,67% 10,45% -10,57% 6,02% 10,68%
Danmörk (KFX) 493,87 0,96% 4,89% 12,69% 8,57% 27,28% 42,24%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 17. ágúst 2012)

 

Krónan

Lát varð á styrkingu krónunnar í vikunni eftir mikla styrkingu undanfarna mánuði, en gengisvísitala krónunnar hækkaði um 0,21% og endaði í 206,84 stigum. Evra styrktist um 0,52% gagnvart krónu en dollari veiktist um 0,23%.

Innstreymi gjaldeyris frá ferðamönnum mun fara minnkandi með haustinu og má vænta að það muni skila sér í gengislækkun krónunnar. Á síðasta ári fór krónan að gefa eftir í nóvember.

Heildarafli íslenskra skipa í júlí jókst um 13,4% á milli ára, metinn á föstu verði. Það sem af er ári hefur afli á föstu verði aukist um 17,9%.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 206,84 0,21% -4,96% -7,69% -7,34% -4,80% -5,56%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 17. ágúst 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.