Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 2,74% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,16%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,04% en millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,01%.

Vikan var nokkuð góð á skuldabréfamarkaði og flestir flokkar hækkuðu umtalsvert. Verðtryggð bréf drógu vagninn en löng óverðtryggð bréf tóku vel við sér í lok vikunnar.

Hagstofa Íslands birti nýjar verðbólgutölur miðvikudaginn 28. mars og hafði vísitala neysluverðs hækkað um 1,05% frá fyrra mánuði. Síðastliðna 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4%. Þessi hækkun var í takt við spá greiningaraðila en spár þeirra voru á bilinu 1,0-1,2% hækkun.

Seðlabanki Íslands birti niðurstöður skiptiútboðs miðvikudaginn 28. mars en þar bauðst bankinn m.a. til að kaupa evrur fyrir nýjan verðtryggðan flokk, RIKS 33. Samtals seldi bankinn 417 milljónir króna að nafnverði í RIKS 33 að þessu sinni.

Lánamál ríkisins birtu ársfjórðungsáætlun sína föstudaginn 30. mars. Þar kom fram að boðin verða til sölu ríkisbréf fyrir 5-15 milljarða króna á 2. ársfjórðungi. Áformað er að salan verði í RIKB 14, RIKB 16 og RIKB 22. Að auki var það gefið upp að heildarútgáfa ríkisbréfa í almennum útboðum verði að lágmarki 40 milljarða króna á árinu. Á 1. ársfjórðungi voru gefin út bréf fyrir 13 milljarða króna.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um rúm 2% í vikunni.  Mest hækkuðu bréf Össurar, um 3,82%.  BankNordik var eina félagið sem lækkaði, og nam lækkunin 6,6%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var um  1,2 milljarðar króna.  Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir um 516 milljónir króna og Icelandair fyrir um 448 milljónir króna.

Í tilkynningu frá Icelandair er gert ráð fyrir að velta félagsins á árinu 2012 muni aukast um 10% frá árinu 2011 og nema 105 milljörðum króna.  EBITD félagsins er áætluð 11-12 milljarðar króna.

Á aðalfundi Icealandair var samþykkt að greiða út arð að fjárhæð 800 milljónum króna sem er 20,3% af hagnaði félagsins árið 2011.  Þetta er í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins að greiða út 20-40% af hagnaði hvers árs.

Á aðalfundi færeyska olíuleitarfyrirtækisins Atlantic Petroleum var samþykkt að greiða ekki út arð fyrir árið 2011.  Á aðalfundi BankNordik fyrir helgi var einnig samþykkt að greiða ekki út arð fyrir síðasta ár.

Marel greiddi út arð í mars sem nam um 20% af hagnaði.  Össur greiðir ekki út arð fyrir árið 2011.

Hagar munu birta ársreikning 10. maí 2012 fyrir rekstrarárið 1. mars 2011-29. febrúar 2012.  Það er stefna félagsins að greiða út arð á hverju ári og ef rekstur leyfir mun hann að lágmarki verða 0,45 kr. á hlut.

Það ættu því að vera þrjú af sex félögum í OMXI6ISK sem greiða út arð fyrir árið 2011.

Stoðir hafa falið fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast sölu á 99,94% eignarhlut í Tryggingarmiðstöðinni og er það til sölu í heild eða hluta.  Ekki liggur þó fyrir hvort félagið verður skráð á markað í kjölfar sölunnar.

Hagar er eina félagið sem skráð hefur verið á markað eftir hrun.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 77,5 -6,63% 17,42% -4,32% 7,64% -4,32% -40,38%
FO-ATLA 175 3,55% -3,85% 14,38% 32,58% 14,38% -18,79%
HAGA 18,15 1,40% 3,42% 11,01% 0,00% 11,01% 13,79%
ICEAIR 6,1 3,21% 11,72% 21,27% 7,02% 21,27% 34,96%
MARL 148,5 1,71% 3,85% 18,33% 26,38% 18,33% 15,56%
OSSRu 204 3,82% 4,08% 10,27% 5,15% 10,28% 5,07%
OMXI6ISK 1040,47 2,09% 4,97% 14,38% 16,73% 14,38% 3,96%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 2. apríl 2012)

 

Erlend hlutabréf

Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 0,29% í vikunni.  Dow Jones vísitalan í Bandaríkjunum hækkaði um 1% og Nikkei í Japan um 0,72%.  CAC í Frakklandi lækkaði um 1,51% og KFX í Danmörku um 0,66%.

Portúgalska ríkisstjórnin hefur samþykkt niðurskurð ríkisútgjalda auk skattahækkana til að koma til móts við kröfur Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en Portúgalir eiga von á 78 milljarða evru aðstoð frá þeim.

Í Bandaríkjunum halda atvinnuleysistölur áfram að lækka og í lok mars höfðu ekki færri verið atvinnulausir (tæp 360 þúsund manns) frá því í apríl 2008.  Áætlanir höfðu gert ráð fyrir betri tölum, eða um 350 þúsund.  Þrátt fyrir að áætlanir gengu ekki eftir er þetta merki um batnandi ástand vinnumarkaðarins í Bandaríkjunum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1312,01 0,29% 1,04% 10,62% 18,84% 10,94% -2,19%
Þýskaland (DAX) 6946,83 -0,70% 1,28% 15,38% 27,40% 18,84% -2,37%
Bretland (FTSE) 5768,45 -1,48% -2,14% 3,81% 12,80% 3,81% -3,75%
Frakkland (CAC) 3423,81 -1,51% -1,91% 6,58% 15,17% 8,69% -15,30%
Bandaríkin (Dow Jones) 13212,04 1,00% 1,81% 8,14% 21,06% 8,14% 6,75%
Bandaríkin (Nasdaq) 3091,57 0,77% 3,88% 18,67% 27,99% 18,67% 10,82%
Bandaríkin (S&P 500) 1408,47 0,81% 2,84% 12,00% 24,49% 12,00% 5,71%
Japan (Nikkei) 10083,56 0,72% 3,40% 19,57% 16,20% 19,57% 4,14%
Samnorræn (VINX) 97,76 0,33% -1,94% 10,38% 24,21% 12,01% -7,87%
Svíþjóð (OMXS30) 1074,48 -0,90% -3,11% 7,14% 17,64% 8,39% -6,53%
Noregur (OBX) 394,39 -0,46% -0,48% 9,10% 22,24% 10,39% -4,77%
Finnland (HEX25) 2209,10 0,35% -2,83% 9,99% 18,19% 12,78% -17,63%
Danmörk (KFX) 444,71 -0,66% -1,51% 13,08% 28,49% 15,44% -4,05%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 2. apríl 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 0,98% í vikunni og endaði í 230,44 stigum. Krónan veiktist um 1,0% gagnvart evru og 0,3% gagnvart Bandaríkjadal.

Útboð Seðlabanka Íslands um kaup á evrum og íslenskum krónum fóru fram 28. mars s.l. Alls keypti Seðlabankinn 22,5 milljónir evra á genginu 239 kr. fyrir hverja evru. Alls bárust 79 tilboð með heildarupphæð 92,9 milljónir evra. Meginpartur viðskiptanna, eða 20,7 milljónir evra fór fram með fjárfestingarleiðinni, en einungis voru samþykkt tilboð að fjárhæð 1,8 milljónir evra í verðtryggð ríkisverðbréf.

Í útboði um kaup á krónum fyrir evrur tók Seðlabankinn  tilboðum fyrir 4,9 milljarða króna, en alls bárust tilboð að fjárhæð 26,3 milljarða króna. Lágmarksverð samþykktra tilboða var 235 kr. fyrir evru.

Hagstofa Íslands birti tölur um vöruskipti við útlönd í febrúar. Vörur voru fluttar út fyrir 54,2 milljarða króna og inn fyrir 41,6 milljarða króna og voru vöruskiptin því hagstæð um 12,6 milljarða króna. Í febrúar 2011 voru vöruskiptin hagstæð um 8,8 milljarða króna á sama gengi.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 230,44 0,98% 0,59% 6,06% 7,38% 6,06% 6,56%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 2. apríl 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Sveinn Torfi Pálsson, forstöðumaður eignastýringar.