Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,44% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,45%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,51% og millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,44%.

Vísitala neysluverðs fyrir maí hækkaði umfram væntingar markaðsaðila sem leiddi til þess að óverðtryggð bréf voru seld en verðtryggð bréf keypt. Við teljum að nú fari að draga úr verðlagshækkunum. Helstu rökin eru þau að krónan er aðeins farin að styrkjast aftur og vísbendingar eru um að olían sé farin að lækka, allavega tímabundið. Aðrir liðir s.s. húsnæðisliðurinn og flugfargjöld munu samt eflaust halda áfram að hækka.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 2,36% í vikunni og nálgast nú 1.100 stig.  Mest hækkuðu bréf Marels, um 5,25%.  Mest lækkaði Atlantic Petroleum, um 0,3%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var 1.255 milljónir króna.  Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir um 751 milljón króna.

Össur birti fyrsta ársfjórðungsuppgjör í síðustu viku. Uppgjörið var nokkuð í takt við væntingar.   Heildarsala nam 100 milljónum USD en var 97 milljónir USD á sama tíma 2011.  Öll landsvæði og vörumarkaðir sýndu vöxt.  Sala á spelkum og stuðningsvörum var hæg með 2% söluvöxt, mælt í staðbundinni mynt.  Söluvöxtur í stoðtækjum var betri eða 7%.

Hagnaður var 10 milljónir USD sem er 22% aukning samanborið við fyrsta ársfjórðung 2011.  EBITDA var 18% af sölu. 

Fyrri áætlun stjórnar fyrir árið 2012 stendur, en gert er ráð fyrir innri söluvexti á bilinu 4-6% og að EBITDA verði á bilinu 20-21% af veltu.

Marel birti mjög gott uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í lok síðustu viku og hækkuðu bréf félagsins um rúm 5% í vikunni en bréfin höfðu hækkað svipað í vikunni áður.

Tekjur voru 184,9 milljónir evra, sem er ríflega 20% aukning samanborið við sama tímabil 2011.  EBITDA var 14,8% af tekjum.  Rekstrarhagnaður (EBIT) var 11,4% af tekjum, en markmið fyrirtækisins er 10-12% EBIT.

Hagnaður eftir skatta nam 13,1 milljón evra en var 8,8 milljónir evra á sama tíma 2011.  Pantanabókin er sterk í lok ársfjórðungsins og nemur 201 milljón evra en var 169 milljónir evra á sama tíma í fyrra.  Góður vöxtur var á mörkuðum í Asíu og Suður Ameríku sem vó á móti hægari vexti í USA.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 77,00 0,00% -3,75% 1,32% 4,05% -4,94% -39,13%
FO-ATLA 167,50 -0,30% -2,05% 3,40% 37,86% 9,48% -19,08%
HAGA 18,85 -0,26% 4,43% 11,87% 0,00% 15,29% 18,18%
ICEAIR 6,34 0,00% 5,14% 24,31% 11,03% 26,04% 40,27%
MARL 160,50 5,25% 9,18% 15,05% 26,88% 27,89% 24,42%
OSSRu 214,00 1,42% 5,42% 12,63% 9,18% 15,68% 10,31%
OMXI6ISK 1090,71 2,36% 5,47% 13,04% 18,03% 19,09% 9,26%

  (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 30. apríl 2012)

 

Erlend hlutabréf

Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 1,33% í vikunni.  Í Bandaríkjunum hækkaði S&P500 vísitalan um 1,80% og FTSE í Bretlandi hækkaði um 0,09%.  Nikkei í Japan lækkaði um 0,42% og KFX í Danmörku um 1,81%.

Í upphafi vikunnar  hafði pólitíkin í Evrópu neikvæð áhrif á verð hlutabréfa í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu þar sem fyrri umferð forsetakosninga fór fram í Frakklandi og hollenska ríkisstjórnin sagði af sér vegna ósættis um niðurskurðaráætlun hollenska ríkisins og Evrópusambandsins.  Holland hefur verið með lánshæfiseinkunnina AAA en nú hafa líkur á því að einkunnin lækki aukist.

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s lækkaði lánshæfiseinkunn Spánar í annað skiptið á árinu. Fór langtímaeinkunn í  BBB+ úr A með neikvæðum horfum.  Skammtímaeinkunn Spánar lækkaði  úr A-1 í A-2.  Samkvæmt fréttaveitu Bloomberg er ástæða lækkunarinnar sú að spænska ríkið geti ekki stutt bankakerfi landsins í þeim erfiðleikum sem nú standa yfir í landinu.

Samdráttur var í breska hagkerfinu annan ársfjórðunginn í röð. Samdrátturinn nam 0,2% á fyrsta ársfjórðungi.  Byggingaframkvæmdir drógust saman um 3% og iðnaðarframleiðsla dróst saman um 0,4%.   Byggingaframkvæmdum hefur ekki fækkað svo mikið í Bretlandi frá ásbyrjun 2009.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1298,71 1,33% -1,01% 4,66% 6,69% 9,82% -6,47%
Þýskaland (DAX) 6801,32 0,76% -1,79% 5,62% 11,09% 15,66% -9,21%
Bretland (FTSE) 5777,11 0,09% 0,01% 1,54% 4,05% 3,53% -4,96%
Frakkland (CAC) 3266,27 2,44% -4,97% -1,36% 0,33% 2,97% -20,78%
Bandaríkin (Dow Jones) 13228,31 1,53% 0,12% 4,71% 10,65% 8,27% 3,26%
Bandaríkin (Nasdaq) 3069,20 2,29% -0,72% 9,08% 14,33% 17,81% 6,81%
Bandaríkin (S&P 500) 1403,36 1,80% -0,36% 6,93% 11,97% 11,59% 2,92%
Japan (Nikkei) 9520,89 -0,42% -5,58% 8,16% 5,92% 12,60% -3,34%
Samnorræn (VINX) 95,58 -0,47% -2,01% 3,95% 9,94% 9,50% -10,62%
Svíþjóð (OMXS30) 1056,67 0,09% -1,75% 1,87% 6,59% 6,87% -9,21%
Noregur (OBX) 387,83 -0,51% -1,07% 6,62% 9,32% 9,11% -5,61%
Finnland (HEX25)  2118,30 3,64% -4,45% 0,83% 4,13% 8,69% -19,97%
Danmörk (KFX) 454,59 -1,81% 3,07% 12,20% 26,35% 17,55% -0,96%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 30. apríl 2012) 

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,25% í vikunni og endaði í 228,00 stigum. Krónan styrktist um 0,2% gagnvart evru og 0,5% gagnvart bandaríkjadal.

Vísitala neysluverðs í apríl hækkaði um 0,8% frá fyrri mánuði, sem er heldur meiri hækkun er markaðsaðilar áttu von á. Tólf mánaða verðbólga er 6,4% og er óbreytt frá fyrri mánuði.

Vísitala byggingarkostnaðar í apríl hækkaði um 1,4% á milli mánaða og hefur vísitalan hækkað um 7,8% á síðustu tólf mánuðum. Launavísitala í mars hækkaði um 1,1% frá fyrri mánuði og hefur vísitalan hækkað um 12,1% síðastliðna tólf mánuði.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 228,00 -0,25% -1,09% 2,82% 6,74% 4,93% 4,30%

  (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 30. apríl 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.