Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,56% og millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,29%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 2,07% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,43%.

Styrking krónunnar og lækkun olíuverðs hafði góð áhrif á óverðtryggð skuldabréf. Svo virðist sem dregið hafi úr verðbólguvæntingum fjárfesta og eru þeir farnir að sýna óverðtryggðum skuldabréfum aukinn áhuga.

Fimmtudaginn 3. maí var tilkynnt um útgáfu ríkissjóðs á skuldabréfum að fjárhæð 1 milljarðs bandaríkjadala. Skuldabréfin bera fasta vexti og eru gefin út til 10 ára á ávöxtunarkröfunni 6,0%. Mikill áhugi var á útgáfunni á meðal fjárfesta og nam eftirspurnin um 4 milljörðum bandaríkjadala.

Lánamál ríkisins héldu útboð á RIKB 14 0314 föstudaginn 4. maí. Afar dræm þátttaka var í útboðinu að þessu sinni og öllum tilboðum var hafnað.

Miðvikudaginn 9. maí heldur Seðlabanki Íslands gjaldeyrisútboð þar sem bankinn býðst m.a. til að kaupa evrur gegn greiðslu í RIKS 33 0321.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 0,93% í vikunni.  Mest hækkuðu bréf Marels, um 0,31%.  Mest lækkuðu bréf Össurar, um 2,34%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var 734 milljónir króna.  Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir um 473 milljónir króna.

Icelandair birti gott uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða síðasta föstudag.  Vöxtur tekna var 21% frá sama tímabili í fyrra og fjölgaði farþegum í millilandaflugi um 18%.

Heildarkostnaður félagsins jókst um 21,5% frá 2011, það skýrist af hækkun eldsneytiskostnaðar sem var 33% meiri en frá sama tíma í fyrra og þá hækkaði launakostnaður um 12%.  Aukið framboð jók einnig kostnað félagsins.  Tap fjórðungsins nam 13,2 milljónum USD.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að afkoma fjórðungsins hafi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Vegna jákvæðrar þróunar þá hefur félagið uppfært EBIDA spá sína úr 90-98 milljónum USD í 100-105 milljónir USD fyrir árið 2012.

Færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum birti framleiðslutölur í vikunni.  Félagið framleiddi 71.000 tunnur eða um 2.367 tunnur af olíu að meðaltali á dag í apríl.  Áætlanir félagsins gera ráð fyrir 700-800 þúsund tunnum fyrir árið, eða í kringum 1.900-2.100 tunnur að meðaltali á dag.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 77,00 0,00% -1,28% 8,45% 8,45% -4,94% -39,37%
FO-ATLA 167,50 0,00% -0,30% -6,16% 28,85% 9,48% -17,28%
HAGA 18,60 -1,33% -0,27% 9,41% 0,00% 13,76% 18,61%
ICEAIR 6,24 -1,58% 1,79% 14,50% 15,13% 24,06% 31,37%
MARL 161,00 0,31% 10,27% 15,41% 31,43% 28,29% 26,77%
OSSRu 209,00 -2,34% 2,70% 10,00% 8,29% 12,97% 7,18%
OMXI6ISK 1080,57 -0,93% 4,66% 11,56% 20,02% 18,79% 8,53%

   (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 7. maí 2012)

 

Erlend hlutabréf

Allar erlendar viðmiðunarvísitölur sem við styðjumst við lækkuðu í vikunni fyrir utan þá dönsku sem hækkaði um 2,41%.  Heimsvísitalan MSCI lækkaði um 2,60%, DAX í Þýskalandi um 3,53% og Nikkei í Japan um 1,48%. 

S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 2,44% sem er mesta vikulækkun vísitölunnar á þessu ári.  Ástæðan fyrir lækkununum er meðal annars meira atvinnuleysi í Bandaríkjunum og Evrópu en reiknað var með. 

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mælist nú 8.1% og 115 þúsund ný störf urðu til í apríl á móti 154 þúsund nýjum störfum í mars.  Atvinnuleysi meðal 17 þjóða evrusvæðisins mældist 10,9% í mars og hefur ekki verið hærra síðan í apríl árið 1997 samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni.

Búast má við því að augu fjárfesta komi til með að vera á Francois Hollande nýkjörnum forseta Frakklands í þessari viku.  Meðal fyrstu verkefna hans er að funda með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, vegna efnahagsástandsins á evrusvæðinu. 

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1264,99 -2,60% -1,86% -1,04% 4,98% 6,97% -6,94%
Þýskaland (DAX) 6561,47 -3,53% -4,50% -4,20% 9,14% 9,70% -13,64%
Bretland (FTSE) 5655,06 -2,11% -1,20% -3,99% 2,62% 1,49% -5,38%
Frakkland (CAC) 3161,97 -3,19% -5,81% -8,34% 0,75% -1,04% -22,94%
Bandaríkin (Dow Jones) 13038,27 -1,44% -0,17% 1,24% 8,04% 6,72% 3,16%
Bandaríkin (Nasdaq) 2956,34 -3,68% -4,03% 1,80% 9,69% 13,48% 4,55%
Bandaríkin (S&P 500) 1369,10 -2,44% -2,07% 1,64% 8,56% 8,87% 2,16%
Japan (Nikkei) 9380,25 -1,48% -9,27% 3,25% 5,54% 7,85% -8,85%
Samnorræn (VINX) 93,67 -2,00% -3,85% -4,05% 7,51% 5,60% -12,06%
Svíþjóð (OMXS30) 1031,95 -2,34% -1,82% -5,29% 5,07% 3,00% -12,12%
Noregur (OBX) 381,08 -1,74% -3,42% 0,09% 4,53% 5,23% -5,75%
Finnland (HEX25)  2016,50 -4,81% -6,11% -8,39% -0,50% 2,69% -22,62%
Danmörk (KFX) 465,55 2,41% 0,41% 5,24% 25,67% 16,83% -0,48%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 7. maí 2012)  

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 1,91% í vikunni og endaði í 223,64 stigum. Krónan styrktist um 2,1% gagnvart evru og 1,3% gagnvart bandaríkjadal.

Ríkissjóður Íslands gekk frá samningum s.l. fimmtudag um útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 1 milljarðs bandaríkjadala. Skuldabréfin eru gefin út til 10 ára á ávöxtunarkröfunni 6,0% og bera þau fasta vexti. Eftirspurn eftir útgáfunni nam um 4 milljörðum bandaríkjadala og samanstendur fjárfestahópurinn aðallega af fagfjárfestum frá Bandaríkjunum og Evrópu. Til samanburðar er ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa 5,5% á Ítalíu og 5,8% á Spáni.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 223,64 -1,91% -2,70% 0,71% 4,92% 2,93% 2,31%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 7. maí 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.