Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,18% og millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,14%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,64% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,43%.

Þrátt fyrir hækkun stýrivaxta í vikunni hækkuðu óverðtryggð bréf í verði sem sýnir að verðbólguvæntingar fjárfesta hafa dvínað enda hefur olíuverð farið lækkandi og krónan styrkst að undanförnu.

Miðvikudaginn 16. maí hækkaði peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands stýrivexti um 0,5 prósentur vegna verri verðbólguhorfa. Fimmtudaginn 24. maí birtir Hagstofan nýjar verðbólgutölur. Spár greiningaraðila liggja á bilinu 0,2-0,4% hækkun á milli mánaða. 

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði talsvert í vikunni eða um 3,66%.  Ekkert félag í vísitölunni hækkaði.  Mest lækkaði Atlantic Petroleum, um 8,1%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var 902 milljónir króna í síðustu viku en einungis voru fjórir viðskiptadagar vegna uppstigningardags.  Mest voru viðskipti með bréf Marels fyrir um 427 milljónir króna.

BankNordik skilaði uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung 2012 í síðustu viku.  Tekjur af starfsemi numu 223 milljónum DKK og voru ríflega 16% meiri en á síðasta fjórðungi 2011.  Þá lækkaði kostnaður bankans aðeins á milli fjórðunga.

Hagnaður fyrir skatta nam 11 milljónum DKK en var 10 milljónir DKK á sama tímabili 2011.  Spár bankans um hagnað fyrir óreglulega liði og skatta hljóðar upp á 150-200 milljónir DKK fyrir árið í heild, var 149 milljónir DKK 2011.

Síðustu 12 mánuði hefur gengi bankans lækkað um 39% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn og tæp 41% í kauphöllinni á Íslandi.

Í vikunni var Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar með erindi í fundarröð Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs Íslands um mikilvægi virks verðbréfamarkaðar.  Hann var nokkuð bjartsýnn á skráningar á markað á næstu 2-3 árum. 

Samkvæmt honum gætu eftirtalin félög verið skráð á hlutabréfamarkað fyrir árslok 2013; Reginn, Reitir, Vodafone, Landsbankinn, Advania, N1, Eimskip og Sjóvá.  Að hans mati þarf talsvert fleiri félög á markað og lagði hann áherslu á sjávarútvegsfyrirtæki í því sambandi og taldi að minnsta kosti 10 fyrirtæki í þeim geira ættu erindi á markað.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 77,00 -2,60% -2,60% 17,19% -2,60% -7,41% -40,71%
FO-ATLA 154,00 -8,06% -8,33% -21,03% -3,75% 0,65% -22,22%
HAGA 18,55 -0,80% -1,85% 7,85% 0,00% 13,46% 16,30%
ICEAIR 6,30 -2,78% -0,63% 14,55% 22,81% 25,25% 28,57%
MARL 155,00 -3,73% 1,64% 11,91% 28,10% 23,51% 21,09%
OSSRu 204,50 -3,99% -3,08% 8,20% 9,07% 10,54% 4,34%
OMXI6ISK 1051,31 -3,66% -1,33% 8,81% 16,83% 15,58% 4,67%

  (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 21. maí 2012)

 

Erlend hlutabréf

Miklar lækkanir voru á erlendum hlutabréfum í vikunni og lækkuðu allar erlendar viðmiðunarvísitölur sem við styðjumst við.  Finnska vísitalan HEX25 lækkaði mest eða um 8,68% og minnst lækkaði danska vísitalan KFX um 2,90%. 

Danska vísitalan er einmitt sú vísitala sem hefur hækkað hvað mest frá áramótum eða um 12,95%.  Til samanburðar hefur breska vísitalan FTSE lækkað um 5,47% á sama tíma.  En Englandsbanki lækkaði í vikunni hagvaxtarspá sína og spáir nú tæplega 1% hagvexti í ár og 2% árið 2013. 

Þá er rætt um að Bretland komi til með að missa AAA lánshæfiseinkunn sína á næsta ári vegna mikils viðskiptahalla við útlönd og skuldavanda evruríkja.

Bandaríska vísitalan S&P 500 lækkaði þriðju vikuna í röð og hefur nú lækkað um 7,71% á þeim tíma.  Mikil eftirvænting var í vikunni vegna skráningar Facebook á hlutabréfamarkað.  Óhætt er þó að segja að fyrirtækið hafi ollið vonbrigðum þar sem hækkun fyrsta daginn var einungis 0,61% sem var langt undir væntingum.  

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1178,43 -5,15% -8,06% -8,97% 4,20% -0,35% -11,84%
Þýskaland (DAX) 6271,22 -4,69% -6,48% -8,62% 12,60% 6,32% -13,13%
Bretland (FTSE) 5267,62 -5,52% -8,17% -10,59% 1,49% -5,47% -10,90%
Frakkland (CAC) 3008,00 -3,89% -4,72% -12,32% 4,95% -4,80% -23,87%
Bandaríkin (Dow Jones) 12369,38 -3,52% -5,06% -4,60% 7,12% 1,24% -1,14%
Bandaríkin (Nasdaq) 2778,79 -5,28% -7,39% -5,76% 10,13% 6,67% -0,88%
Bandaríkin (S&P 500) 1295,22 -4,30% -6,04% -4,92% 8,57% 2,99% -2,85%
Japan (Nikkei) 8611,31 -3,82% -9,70% -8,76% 3,42% 1,84% -10,13%
Samnorræn (VINX) 85,98 -7,33% -9,25% -12,90% 8,79% -1,73% -17,56%
Svíþjóð (OMXS30) 955,98 -7,40% -8,14% -12,35% 6,88% -3,23% -16,90%
Noregur (OBX) 358,45 -5,02% -6,66% -7,22% 7,24% 0,24% -8,91%
Finnland (HEX25)  1864,06 -8,68% -6,99% -16,79% 4,34% -4,02% -26,27%
Danmörk (KFX) 440,45 -2,90% -4,61% -2,45% 16,94% 12,95% -4,52%

 (Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 21. maí 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 0,1% í vikunni og endaði í 224,02 stigum. Krónan styrktist um 0,1% gagnvart evru en veiktist um 1,9% gagnvart bandaríkjadal.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði vexti bankans um 0,5 prósentur 16. maí. Vaxtahækkunin var studd með tilvísun í batnandi efnahagslíf – aukna innlenda eftirspurn og batamerki á vinnu- og fasteignamarkaði. Jafnframt hefur verðbólga verið meiri en Seðlabankinn spáði í febrúar og því ástæða talin til að minnka slaka peningastefnunnar. Batni verðbólguhorfur ekki mun nefndin, að óbreyttu, hækka vexti enn frekar.

Vextir Seðlabankans gegn veði til sjö daga, svokallaðir stýrivextir bankans, eru nú 5,5%. Markaðsaðilar höfðu ýmist spáð 25 eða 50 punkta vaxtahækkun og var hækkunin því við efri mörk væntinga.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 224,02 0,07% -2,12% 0,36% 4,33% 3,10% 2,40%

 (Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 21. maí 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.