Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,64% og millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,39%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,20% en millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,10%.

Föstudaginn 3. febrúar fór fram útboð á RB 16. Tilboð bárust fyrir 3.450 m.kr. að nafnverði en tilboðum fyrir 1.800 m.kr. var tekið á ávöxtunarkröfunni 4,96%. Þetta verður að teljast fremur dræm þátttaka og sýnir að áhugi fjárfesta á óverðtryggðum bréfum er takmarkaður þessa dagana. 

Miðvikudaginn 8. febrúar mun Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kynna vaxtaákvörðun sína. Ljóst er að líkur á vaxtahækkun hafa aukist töluvert og eru flestir greiningaraðilar á því að vextir verði hækkaðir um 0,25 prósentustig. Á fundi nefndarinnar má reikna með að tónninn verði gefinn fyrir enn frekari vaxtahækkanir.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um rúmt 1% í síðustu viku.  Mest hækkun var hjá Færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum, um rúm 10% í viðskiptum fyrir um 1,1 m.kr. en félagið birti í vikunni framleiðslutölur sem voru nokkuð góðar.  Mest lækkuðu bréf BankNordik, um 6,58%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var í kringum 1 ma. kr., mest velta var með bréf Marel, fyrir um 850 m.kr.  Veltan í janúar með bréf á OMXI6ISK nam um 2,8 mö. kr.
Marel skilaði góðri afkomu fyrir árið 2011.  Hagnaður nam 34,5 milljónum evra sem er um 153% hækkun á milli ára.  Hagnaður á síðasta fjórðungi ársins var í kringum 15 milljónir evra sem er um 173% hækkun frá sama fjórðungi 2010.  Tekjur af kjarnastarfsemi námu 668 milljónum evra sem er 15% aukning á milli ára. 

Pantanabók félagsins er sterk og stendur í rúmum 196 milljónum evra í lok árs 2011, nýjar pantanir voru þó örlítið lægri fyrir 4. fjórðung 2011 en 4. fjórðung 2010.  Stjórn Marel mun leggja til að hluthafar fái greiddan arð upp á 0,95 evrur sem jafngildir um 20% af hagnaði ársins.

Icelandair tilkynnti að stjórn félagsins hefði ákveðið að skoða mögulega viðbótarskráningu í kauphöllina í Osló.  Einnig tilkynnti stjórnin að frá og með 1.ársfjórðungi 2012 mun félagið breyta uppgjörsmynt í USD en meirihluti kostnaðar og efnahagsreiknings félagsins er í Bandaríkjadollar.

Í vikunni munu Icelandair og Össur birtar ársuppgjör.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 71,00 -6,58% -12,35% 0,00% -34,26% -12,35% -47,41%
FO-ATLA 178,50 10,19% 7,85% 37,31% 3,78% 16,67% -16,59%
HAGA 16,75 -0,59% 0,30% 0,00% 0,00% 2,45% 5,02%
ICEAIR 5,30 3,92% 6,64% -2,21% 4,74% 5,37% 26,49%
MARL 140,50 0,72% 10,20% 14,69% 15,64% 11,95% 19,57%
OSSRu 193,00 1,58% 0,00% 0,00% -3,50% 4,32% -3,50%
OMXI6ISK 971,55 1,01% 4,15% 7,91% 1,17% 6,80% -1,51%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 06. febrúar 2012)

 

Erlend hlutabréf

Almennt var mikil hækkun á erlendum hlutabréfum í vikunni. Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 2,22% og hefur nú hækkað um 7,71% frá áramótum.  DAX í Þýskalandi hækkaði um 3,91% og Nasdaq í Bandaríkjunum um 3,16%.  Nikkei í Japan lækkaði um 0,11%.

Í Bandaríkjunum ríkir mikil bjartsýni eftir að atvinnuleysi reyndist minna en spár höfðu gert ráð fyrir.  Í janúar fjölgaði störfum þar um 243 þúsund og hefur ekki fjölgað svo mikið í einum mánuði frá því í apríl s.l. og er atvinnuleysi nú 8,3% sem er það lægsta síðan í febrúar 2009.

Á leiðtogafundi ESB komust leiðtogar ríkjanna að samkomulagi sem felur í sér hert eftirlit með fjárlögum aðildarríkja sambandsins. Tékkar og Bretar eru þó ekki aðilar að samkomulaginu, en það á að hindra óeðlilega mikla skuldsetningu einstakra ríkja. 

Mikil áhersla verður einnig lögð á að leysa skuldavandræði Grikklands á fundi leiðtoganna.  Þann 20. mars n.k. er gríska ríkið með 14,5ma. evra lán á gjalddaga og þurfa grísk stjórnvöld að grípa til viðamikilla niðurskurðaraðgerða auk þess að auka skatttekjur ætli þau að fá aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hinum evruríkjunum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1273,74 2,22% 6,89% 5,87% 6,67% 7,71% -4,35%
Þýskaland (DAX) 6766,67 3,91% 11,15% 12,86% 7,97% 14,16% -6,69%
Bretland (FTSE) 5901,07 2,92% 4,06% 6,36% 12,04% 5,50% -1,98%
Frakkland (CAC) 3427,92 3,29% 8,23% 8,71% 3,57% 7,46% -16,10%
Bandaríkin (Dow Jones) 12862,23 1,59% 4,06% 7,34% 12,39% 5,28% 6,37%
Bandaríkin (Nasdaq) 2905,66 3,16% 8,65% 8,17% 14,74% 11,54% 4,92%
Bandaríkin (S&P 500) 1344,90 2,17% 5,25% 7,31% 12,13% 6,94% 2,60%
Japan (Nikkei) 8831,93 -0,11% 6,42% 1,45% -3,99% 5,60% -15,31%
Samnorræn (VINX) 96,73 4,48% 6,98% 11,53% 16,52% 9,95% -9,80%
Svíþjóð (OMXS30) 1078,66 3,58% 6,70% 8,32% 12,82% 8,24% -6,15%
Noregur (OBX) 377,58 2,59% 2,98% 5,40% 11,58% 4,79% -7,09%
Finnland (OMXH25) 2193,02 3,58% 9,61% 9,23% 16,63% 12,25% -18,29%
Danmörk (OMXC20) 432,89 6,90% 7,93% 18,61% 14,67% 10,27% -6,61%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 06. febrúar 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 0,14% í vikunni og endaði í 222,07 stigum. Krónan var nánast óbreytt gagnvart evru í vikunni, styrktist um 0,26% gagnvart Bandaríkjadal en veiktist um 0,55% gagnvart sterlingspundi og 0,62% gagnvart sænskri krónu. Frá áramótum hefur gengisvísitala krónunnar hækkað um 2,20%.

Gengisþróun er óhjákvæmilega samofin verðbólguvæntingum og má telja að veiking krónunnar undanfarið eigi sinn þátt í að verðbólga hafi verið umfram væntingar. Á móti kemur að mikill afgangur er af vöruskiptum og gæti það unnið með krónunni. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru vöruskiptin í janúar hagstæð um 12 ma. kr. sem er 49% aukning frá fyrra ári. Stefnir í miklar tekjur á þessu ári bæði af útflutningi sjávarafurða og af ferðamannaiðnaði.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 222,07 0,14% 2,12% 4,16% 0,33% 2,20% 3,93%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 06. febrúar 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.