Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,7% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,12%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,93% en millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,23%.

Sú ákvörðun peningastefnunefndar SÍ að halda stýrivöxtum óbreyttum hafði jákvæð áhrif á markaðinn og hækkaði verð skuldabréfa verulega í kjölfarið. Viðbrögðin voru mjög ýkt og ljóst að markaðurinn er mjög kvikur þessa dagana.

Miðvikudaginn 15. febrúar verður SÍ með gjaldeyrisútboð. Í útboðinu er eigendum erlendra eigna boðið að selja evrur gegn greiðslu í RIKS30, sem er verðtryggður skuldabréfaflokkur með um 14 ára líftíma. Hámarksverð á evru í útboðinu er 240 kr. pr. evru, sem er nálægt aflandsgenginu. Áætluð útboðsfjárhæð er EUR 100.000.000. Viðskiptamannahópur þessa útboðs verða lífeyrissjóðir landsins en það eru ekki margir aðrir sem eiga erlenda gjaldmiðla sem ekki er skilaskylda á. Samhliða útboðinu efnir SÍ til annars útboðs til kaupa á erlendum gjaldeyri og er það samkvæmt fjárfestingarleið.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi útboð ganga og hvaða áhrif þau munu hafa á skuldabréfamarkaðinn.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um rúm 1,94% í vikunni.  Mesta lækkun var hjá Össuri, um 3,11% og Marel um 2,49%.  Mest hækkuðu bréf Icelandair, um 2,45%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var rúmar 900 milljónir króna, mest var veltan með bréf Icelandair, fyrir um 340 m.kr.

Félögin í OMXI6ISK vísitölunni hafa verið að skila inn uppgjörum fyrir fjórða ársfjórðung.

Icelandair skilaði 4,5 milljarða hagnaði á síðasta ári og var það í samræmi við væntingar félagsins. Forsvarsmenn Icelandair eru nokkuð bjartsýnir fyrir árið 2012 og ætla sér að að bjóða upp á umsvifamestu flugáætlun frá upphafi og bókanir fyrir fyrstu mánuði ársins lofa góðu.

Össur skilaði 4,5 milljarða hagnaði á síðasta ári sem er  36,63 milljónir dala. Uppgjörið fyrir fjórða ársfjórðung var undir væntingum markaðarins, þrátt fyrir söluvöxt á flestum mörkuðum. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins á fjórða ársfjórðungi var 16,4 milljónir dala sem er 16,7% af tekjum og er lægsta framlegðarhlutfall ársins og töluvert undir markmiðum fyrirtækisins.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 71,00 0,00% -10,13% -4,05% -31,73% -12,35% -49,29%
FO-ATLA 178,50 1,40% 10,03% 39,23% 5,23% 18,30% -17,73%
HAGA 16,90 0,90% -0,29% 0,00% 0,00% 3,36% 5,96%
ICEAIR 5,43 2,45% 6,89% 6,26% 5,03% 7,95% 18,04%
MARL 137,00 -2,49% 3,79% 15,13% 12,30% 9,16% 17,60%
OSSRu 187,00 -3,11% -5,56% -4,58% -4,35% 1,08% -5,56%
OMXI6ISK 952,74 -1,94% -0,22% 7,46% 0,00% 4,74% -3,19%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 13. febrúar 2012)

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu víða í Evrópu og Bandaríkjunum í vikunni en hækkuðu í Japan.

Heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 0,32%, Dax í Þýskalandi um 1,09% og S&P 500 í Bandaríkjunum um 0,17%.

S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 6,76% frá áramótum og er þetta fyrsta vikan á þessu ári sem endar með lækkun.  Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni þarf að leita aftur til ársins 1991 til að finna jafn góða byrjun.

Ástæðan fyrir lækkununum var meðal annars áhyggjur fjárfesta að fyrirhugaðar aðgerðir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að bjarga Grikklandi væru í uppnámi.  Kom það til vegna orða fjármálaráðherra evruríkja að 130 milljarða evru björgunarpakki yrði ekki greiddur fyrr en Grikkir samþykktu mikinn niðurskurð í ríkisútgjöldum. Grísk stjórnvöld samþykktu síðan niðurskurðartillögurnar.

Væntingavísitala neytenda í Bandaríkjunum lækkaði einnig meira en spár sögðu til um úr 75 stigum í 72,5 stig.  Búist var við því að vísitalan mældist 74,8 stig.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1269,66 -0,32% 5,71% 5,33% 7,52% 7,36% -5,32%
Þýskaland (DAX) 6692,96 -1,09% 9,75% 11,31% 12,41% 14,31% -8,53%
Bretland (FTSE) 5852,39 -0,82% 4,69% 6,41% 10,92% 5,90% -2,67%
Frakkland (CAC) 3373,14 -1,60% 6,41% 8,00% 5,83% 7,64% -17,07%
Bandaríkin (Dow Jones) 12801,23 -0,47% 3,05% 5,33% 13,60% 4,78% 4,30%
Bandaríkin (Nasdaq) 2903,88 -0,06% 7,13% 8,40% 15,79% 11,47% 3,36%
Bandaríkin (S&P 500) 1342,64 -0,17% 4,15% 6,23% 13,90% 6,76% 1,01%
Japan (Nikkei) 8947,17 1,30% 5,87% 5,69% 0,40% 6,43% -15,15%
Samnorræn (VINX) 96,49 -0,25% 7,85% 12,61% 16,66% 11,26% -8,65%
Svíþjóð (OMXS30) 1065,37 -1,23% 6,86% 10,42% 12,60% 9,15% -5,41%
Noregur (OBX) 384,30 1,78% 5,75% 6,79% 14,58% 7,95% -4,46%
Finnland (OMXH25) 2178,76 -0,65% 9,95% 9,51% 12,31% 13,63% -17,25%
Danmörk (OMXC20) 437,68 1,11% 9,75% 18,02% 18,23% 12,92% -5,36%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 13. febrúar 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,05% í vikunni og endaði í 221,97 stigum. Frá áramótum hefur gengisvísitala krónunnar hækkað um 2,16%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gaf út yfirlýsingu 8. febrúar s.l. þar sem fram kom að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum um sinn. Samhliða vaxtaákvörðun voru Peningamál Seðlabankans gefin út. Ekki voru miklar breytingar gerðar frá nóvember spá Seðlabankans hvað efnahagshorfur varðar, en nú er gert ráð fyrir hægari hjöðnun verðbólgu en áður.

Aðhaldssemi peningastefnunnar ræðst bæði af vaxtastigi og verðbólgu og auknar verðbólguvæntingar verða til þess að auka slaka í peningastefnu að öðru óbreyttu. Þessi þróun ber því með sér auknar líkur á vaxtahækkunum á næstunni.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 221,97 -0,05% 1,82% 3,61% 0,84% 2,16% 3,63%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 13. febrúar 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.