Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,91% en millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 3,20%. Lækkun millilangra verðtryggðra skuldabréfa skýrist af mikilli lækkun HFF 14 en viðskipti með þann flokk eru stopul og miklar verðbreytingar geta verið á milli viðskipta. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,49% en millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,63%.

Lánamál ríkisins aflýstu ríkisbréfaútboði sem vera átti föstudaginn 17. febrúar vegna gjaldeyrisútboðs hjá Seðlabanka Íslands þann 15. febrúar. Í því útboði seldust rúmlega 17 ma.kr. að nafnverði í RIKS 30 í skiptum fyrir evrur.

Hagstofa Íslands birtir næstkomandi föstudag niðurstöður mælingar á vísitölu neysluverðs. Má búast við um 1% hækkun vísitölunnar frá síðasta mánuði, einkum vegna áhrifa af því að útsölur eru að ganga til baka og á sama tíma og eldsneytisverð hefur hækkað umtalsvert.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 1,85% í síðustu viku.  Mest hækkun var hjá Færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum, um rúm 6%.  Aðeins bréf í BankNordik lækkuðu í vikunni, um 8,45%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var um 519 m.kr., mest velta var með bréf Haga, fyrir um 239 m.kr..  Hagar og Icelandair voru með um 78% af veltu liðinnar viku.

Talsvert hefur dregið úr verðmun bréfa Össurar í kauphöllinni í Kaupmannahöfn og á Íslandi en ekki var óalgengt að sjá yfir 10% mun á verði bréfanna.  Í lok síðustu viku var gengið um það bil 6% hærra í kauphöllinni hér heima.

Í vikunni birtir Atlantic Petroleum ársuppgjör.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 65,00 -8,45% -12,16% -15,58% -37,50% -19,75% -47,58%
FO-ATLA 192,00 6,08% 16,72% 20,00% 11,63% 25,49% -14,67%
HAGA 17,25 2,07% 1,47% 0,00% 0,00% 5,50% 8,15%
ICEAIR 5,50 1,29% 9,56% 7,21% 5,77% 9,34% 22,22%
MARL 139,50 1,82% 3,79% 15,13% 12,30% 9,16% 17,60%
OSSRu 190,00 1,60% -1,55% 1,33% -3,06% 2,70% -4,52%
OMXI6ISK 970,39 1,85% 2,14% 7,83% 1,08% 6,68% -0,63%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 20. febrúar 2012)

 

Erlend hlutabréf

Hækkanir voru á öllum helstu hlutabréfavísitölum. Heimsvísitalan (MSCI) hækkaði um 1,45%, DAX í Þýskalandi um 2,32%, Nasdaq í Bandaríkjunum um 1,65% og Nikkei í Japan um 4,88%.

Moody´s lækkaði lánshæfiseinkunn Ítalíu, Möltu, Portúgals, Slóvakíu, Slóveníu og Spánar í upphafi vikunnar m.a vegna skuldakreppunnar í evrulöndunum.  Bretland, Austurríki og Frakkland voru sett á lista með neikvæðar horfur og má því búast við því að lánshæfiseinkunnir þessara ríkja lækki á næstunni. Ástæðan fyrir breyttri lánshæfiseinkunn ríkjanna er óvissan sem  ríkir um horfur á evrusvæðinu og að úrræði vanti fyrir efnahagskerfi ríkjanna til að mæta óvissunni.

Enn er ekki búið að ganga frá 130 milljarða evru neyðarlánveitingu til Grikkja.  Grikkir samþykktu viðamiklar efnahagsaðgerðir en svo kom í ljós að fjármálaráðherrar evrulandanna hefðu slitið fundi þar sem þeir töldu stuðning ekki nægjanlegan á gríska þinginu. Undir lok vikunnar bárust fregnir af því að Japanir og Kínverjar hugleiði nú að leggja Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til fjármagn sem á að ráðstafa til Grikkja.

Áætlun Grikkja gengur í meginatriðum út á fækkun opinberra starfa, endurskoðun á launakostnaði ríkisins, uppstokkun á lífeyrissjóðakerfi landsins og samninga um afskriftir skulda gríska ríkisins.

Í janúar mældist verðbólgan í Bretlandi 3,6% og þarf að fara rúm 2 ár aftur í tímann til að finna sambærilegar verðbólgutölur þar í landi. Á Spáni mælist nú mesta atvinnuleysi innan evrusvæðisins, en það er nú 25%.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1288,05 1,45% 4,24% 11,28% 13,82% 8,92% -5,47%
Þýskaland (DAX) 6848,03 2,32% 7,46% 18,65% 25,58% 16,68% -7,34%
Bretland (FTSE) 5905,07 0,90% 3,63% 10,69% 17,77% 6,53% -2,41%
Frakkland (CAC) 3439,62 1,97% 4,23% 15,51% 14,75% 9,56% -16,72%
Bandaríkin (Dow Jones) 12949,90 1,16% 1,80% 9,78% 19,71% 5,99% 4,51%
Bandaríkin (Nasdaq) 2951,78 1,65% 5,92% 14,74% 26,05% 13,31% 4,16%
Bandaríkin (S&P 500) 1361,23 1,38% 3,49% 11,98% 21,16% 8,24% 1,36%
Japan (Nikkei) 9384,17 4,88% 8,20% 13,26% 8,78% 12,18% -12,52%
Samnorræn (VINX) 99,19 2,80% 7,15% 20,15% 27,55% 14,05% -5,92%
Svíþjóð (OMXS30) 1099,55 3,21% 6,78% 17,23% 25,75% 11,70% -1,24%
Noregur (OBX) 387,57 0,85% 7,04% 11,56% 20,72% 9,31% -2,95%
Finnland (OMXH25) 2255,23 3,51% 6,77% 20,00% 22,47% 17,30% -13,91%
Danmörk (OMXC20) 450,81 3,00% 11,97% 21,43% 30,10% 16,42% -3,51%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 20. febrúar 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,56% í síðustu viku og endaði í 223,22 stigum. Í vikunni lækkaði krónan um 0,98% gagnvart dollara og um 0,19% gagnvart evru. Áframhaldandi lækkun krónunnar má að hluta til skýra með árstíðabundnum þáttum, en gjaldeyrisinnstreymi af ferðamannaiðnaði er minna yfir vetrarmánuðina.

Þann 15. febrúar fóru fram gjaldeyrisútboð hjá Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn bauðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi, svokölluð 50/50 leið, eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfaflokknum RIKS 30 0701. Alls bárust 77 tilboð að fjárhæð 173,6 milljónir evra og var tilboðum að fjárhæð 141,3 milljónir evra tekið. Öll samþykkt tilboð voru tekin á sama verði, 240 kr. fyrir hverja evru.

S.l. föstudag hækkaði matsfyrirtækið Fitch lánshæfiseinkunn Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt. Einkunnin fer úr BB+ í BBB-. Einkunn fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt hækkar úr B í F3 og lánshæfisþak fer úr BB+ í BBB-. Horfur til lengri tíma eru stöðugar.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 223,22 0,56% 1,56% 3,98% 2,05% 2,73% 3,49%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 20. febrúar 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.