Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,91% en millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,41%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,04% en millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,33%.

Eftir mikla hækkun það sem af er ári lækkuðu verðtryggð skuldabréf mikið í verði í vikunni. Má einna helst rekja það til þess að Seðlabanki Íslands greip inn í gjaldeyrismarkaðinn og keypti krónur fyrir 12 milljónir evra. Við þessa aðgerð styrktist krónan um 1,20% og svo virðist sem verðbólguvæntingar fjárfesta hafi dvínað vegna þessa a.m.k. um sinn.

Lánamál ríkisins hélt útboð á nýjum óverðtryggðum flokki til tveggja ára, RIKB 14, föstudaginn 9. mars. Tilboð bárust fyrir 5.950 m.kr. að nafnverði en tekin voru tilboð fyrir 5.200 m.kr. að nafnverði á ávöxtunarkröfunni 4,75%.

 

Innlend hlutabréf

Hlutabréf lækkuðu í vikunni, OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 0,78%, Össur lækkaði um 1,52% og Atlantic Petroleum um 6,54%. Icelandair hækkaði um 1,61%.

Heildarvelta vikunnar var um 900 m.kr. og þar af nam velta með bréf Haga rúmlega 500 m.kr.

Hlutabréf hafa almennt hækkað mikið á árinu. Marel hefur hækkað um 14,74% frá áramótum, Icelandair um 12,92% og OMXI6ISK vísitalan um 9,39%.

Gengi Össurar endaði vikuna hér heima í kringum 3% hærra en í kauphöllinni í Kaupmannahöfn. Munurinn á gengi Össurar á mörkuðum Íslands og Danmerkur hefur minnkað síðustu vikur en munurinn fór á tímabili vel yfir 10%.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 70 0,72% -2,11% -7,33% -22,78% -14,20% -46,95%
FO-ATLA 178,5 -6,54% -1,38% 7,85% 31,25% 16,67% -15,60%
HAGA 17,5 0,29% 3,55% 0,00% 0,00% 7,03% 9,72%
ICEAIR 5,68 1,61% 4,60% 9,23% 7,17% 12,92% 26,79%
MARL 144 0,00% 5,11% 14,74% 20,00% 14,74% 14,29%
OSSRu 194 -1,52% 3,74% 1,04% 0,26% 4,86% 1,04%
OMXI6ISK 995,12 -0,78% 4,45% 7,27% 9,03% 9,39% 0,63%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 12. mars 2012)

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf lækkuðu víða í Evrópu í vikunni en hækkuðu í Japan og Bandaríkjunum að Dow Jones vísitölunni undanskilinni.  Heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 0,51%,  Dax í Þýskalandi um 0,59%, Dow Jones um 0,43% og finnska vísitalan HEX25 um 1,44%.  S&P 500 hækkaði hins vegar lítillega eða um 0,09% og Nikkei í Japan um 1,56%.

Grísk stjórnvöld geta nú andað léttar eftir að lánardrottnar samþykktu að skipta út gömlum skuldabréfum fyrir ný og lengri bréf með lægri vöxtum og fella um leið niður skuldir að andvirði tæplega 17 þúsund milljarða króna.  Skuldabreytingin var nauðsynleg og ein af forsendum þess að gríska ríkið fái 130 milljarða evra lán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Jákvæðar fréttir af atvinnumálum í Bandaríkjunum fóru líka vel í fjárfesta þar sem 227.000 ný störf urðu til í síðasta mánuði sem var yfir væntingum markaðarins.  Atvinnuleysi er nú 8,3% í Bandaríkjunum og mældist óbreytt milli mánaða.

Erlend hlutabréf hafa hækkað mikið frá áramótum og má þar nefna að Nikkei í Japan hefur hækkað um 17,44%, Dax í Þýskalandi um 16,65 og KFX í Danmörku um 16,98%.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1291,86 -0,51% 1,75% 10,52% 15,07% 9,24% -1,76%
Þýskaland (DAX) 6880,21 -0,59% 2,52% 18,60% 35,28% 16,65% -1,72%
Bretland (FTSE) 5887,49 -0,40% 0,24% 8,08% 14,36% 5,66% 0,65%
Frakkland (CAC) 3487,48 -0,39% 3,02% 12,47% 21,72% 10,37% -11,55%
Bandaríkin (Dow Jones) 12922,02 -0,43% 0,94% 7,49% 16,82% 5,77% 7,29%
Bandaríkin (Nasdaq) 2988,34 0,41% 2,91% 14,40% 19,77% 14,71% 10,04%
Bandaríkin (S&P 500) 1370,87 0,09% 2,10% 10,87% 17,95% 9,01% 5,11%
Japan (Nikkei) 9929,74 1,56% 10,54% 14,28% 15,87% 17,44% -3,56%
Samnorræn (VINX) 98,56 -1,38% 1,61% 18,15% 25,78% 12,65% -4,96%
Svíþjóð (OMXS30) 1089,80 -1,39% 1,98% 15,36% 25,96% 10,32% -1,43%
Noregur (OBX) 393,63 -0,76% 1,83% 14,54% 20,63% 10,08% -1,25%
Finnland (HEX25) 2221,46 -1,44% 1,15% 18,43% 20,53% 14,39% -13,14%
Danmörk (KFX) 456,16 -0,19% 3,97% 20,78% 35,14% 16,98% -1,50%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 12. mars 2012)

 

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,80% í vikunni og endaði í 227,17 stigum. Krónan styrktist um 0,6% gagnvart evru og um 0,5% gagnvart Bandaríkjadal.

Seðlabanki Íslands seldi gjaldeyri á millibankamarkaði s.l. þriðjudag fyrir 12 milljónir evra í þeim tilgangi að draga úr gengissveiflum. Óvenjumikið útstreymi hefur verið á gjaldeyri að undanförnu og telur Seðlabankinn það vera tímabundið ástand. Inngrip Seðlabankans varð til þess að styrkja krónuna auk þess sem verðbólguálag á skuldabréfamarkaði minnkaði. Veiking krónunnar undanfarna mánuði hefur verið umtalsverð og væntingar um gengisþróun eru nátengdar verðbólguvæntingum.

Auknar tekjur af útflutningi sjávarafurða eru að skila sér í miklum afgangi af vöruskiptum. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru vöruskiptin í febrúar hagstæð um 12,5 milljarða króna. Útflutningur nam 54,1 milljarði og innflutningur 41,6 milljarði.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 229,00 0,94% 3,06% 6,09% 4,72% 5,39% 5,88%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 12. mars 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.