Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,27% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,15%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,53%, og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,93%.

Í vikunni kom ársáætlun frá Lánamálum ríkissjóðs fyrir árið 2012. Þar kom fram að áætluð útgáfa ríkisbréfa árinu yrðu um 75 ma.kr. Ætlunin er hins vegar að lækka stöðu ríkisvíxla um 14 ma.kr. Enn fremur kemur fram að hrein útgáfa innlendra ríkisbréfa og ríkisvíxla nemi 8 ma.kr. Það er því ljóst að framboð skuldabréfa útgefnum af íslenska ríkinu mun duga skammt til að mæta viðvarandi fjárfestingaþörf lífeyrissjóðakerfisins.

Íbúðalánasjóður sendi einnig frá sér áætlun fyrir árið 2012. Þar kemur fram að áætluð útgáfa íbúðabréfa verði á bilinu 36-44 ma.kr. að markaðsvirði. Á sama tíma reikna þeir með að greiða 71-79 ma.kr. til lánadrottna. Fjárfestar fá því um 35 ma.kr. frá Íbúðalánasjóði umfram það sem þeir hafa möguleika á að endurfjárfesta í íbúðabréfum.

 

Innlend hlutabréf

Hlutabréf lækkuðu í vikunni, OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 0,54%, Icelandair lækkaði um 0,40% og Össur um 0,54%. Heildarvelta vikunnar nam rúmum 240 m.kr. og þar af nam  velta með bréf Icelandair rúmlega 100 m.kr.

Árið 2011 lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 2,58%, BankNordik lækkaði mest eða 42,96%, Össur á Íslandi lækkaði um 8,87% en Össur í Danmörku lækkaði um 12,77%. Aðeins tvö félög í úrvalsvísitölunni hækkuðu á árinu, hlutabréf Icelandair hækkaði mest eða um 59,68% og Marel um 25,50%.

Hagar komu á markað 16. desember og er það fyrsta félagið sem er skráð á aðallista Nasdaq OMX Iceland síðan haustið 2008.  Í árslok voru bréf Haga búin að hækka um 21,11%.

Breyting verður á úrvalsvísitölunni í upphafi ársins, en úrvalsvísitalan er endurskoðuð tvisvar á ári. Við opnun markaðar 2. janúar mun Hagar koma inn í vísitöluna og færeyska flugfélagið  Atlantic Airways mun fara úr vísitölunni. Þannig að vísitalan í upphafi árs mun samanstanda af  Marel, Össur, Icelandair Group BankNordik og Atlantic Petroleum.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 81,00 0,00% 8,00% 12,50% -34,15% -42,96% -42,96%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% 0,00% -0,93% -8,62% -8,62%
FO-ATLA 153,00 0,00% -5,56% 15,91% -15,00% -29,66% -29,66%
ICEAIR 5,03 -0,40% 4,57% -11,75% 0,80% 59,68% 59,68%
MARL 125,50 0,00% 6,36% 6,81% 2,45% 25,50% 25,50%
OSSRu 185,00 -0,54% -0,80% -4,64% 2,45% -8,87% -8,87%
OMXI6ISK 909,66 -0,54% 2,91% 2,05% -4,86% -2,58% -2,58%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 2. janúar 2012)

 

Erlend hlutabréf

Erlend hlutabréf hækkuðu almennt í Evrópu og Asíu í liðinni viku en lækkuðu í Bandaríkjunum.  Hlutabréfavísitalan Dax í Þýskalandi hækkaði um 0,33%, FTSE í Bretlandi um 1,08% og Nikkei í Japan um 0,72%.  S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði hins vegar um 0,61%.

Nú er erfiðu ári á hlutabréfamarkaði lokið þar sem nær allir markaðir lækkuðu þvert á spár helstu greiningaraðila.  Ársins verður minnst fyrir skuldakreppu í Evrópu og minnkandi hagvaxtar um nær allan heim.

Á árinu lækkaði heimsvísitala MSCI um 7,37%,  Dax í Þýskalandi um 14,69% og OMXH25 í Finnlandi um 26,11%.  Dow Jones í Bandaríkjunum var ein af fáum hlutabréfavísitölum sem hækkaði á árinu eða um 5,55%.  Bandarísku vísitölurnar Dow Jones og S&P 500 voru meðal 10 vísitalna (af 91 vísitölu sem Bloomberg mælir) sem stóðu sig best á árinu.

Þrátt fyrir óvænta lækkun á lánshæfismati Bandaríkjanna hækkuðu 10 ára bandarísk ríkisskuldabréf um tæplega 17% á árinu eða töluvert meira en bæði gull og olía sem hækkuðu um 10,2% og 8,2% samkvæmt Reuter‘s fréttaveitunni.

Reikna má með að árið 2012 verði krefjandi á erlendum hlutabréfamörkuðum og enn á eftir að leysa úr erfiðum efnahagsmálum á evrusvæðinu.

Starfsmenn JP Morgan eru þó bjartsýnir hvað varðar hlutabréf í Bandaríkjunum og nýmarkaðsríkjum.  Þeir spá tæplega 20% hækkun á bandarískum hlutabréfum og 30% hækkun í nýmarkaðsríkjum.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1182,59 0,03% -0,43% 7,11% -12,00% -7,37% -7,37%
Þýskaland (DAX) 5898,35 0,33% -1,91% 8,40% -19,61% -14,69% -14,69%
Bretland (FTSE) 5566,77 1,08% 0,36% 8,65% -6,97% -5,55% -5,55%
Frakkland (CAC) 3159,81 1,86% 0,37% 6,52% -20,73% -16,95% -16,95%
Bandaríkin (Dow Jones) 12217,56 -0,62% 1,65% 11,95% -2,90% 5,50% 5,50%
Bandaríkin (Nasdaq) 2605,15 -0,52% -0,83% 7,86% -7,49% -1,80% -1,80%
Bandaríkin (S&P 500) 1257,60 -0,61% 1,07% 11,15% -6,13% 0,00% 0,00%
Japan (Nikkei) 8398,89 0,72% -2,18% -2,82% -14,32% -17,34% -17,34%
Samnorræn (VINX) 87,49 1,53% 1,76% 11,04% -12,14% -17,65% -17,65%
Svíþjóð (OMXS30) 987,85 0,59% 1,36% 8,53% -11,65% -14,51% -14,51%
Noregur (OBX) 357,60 0,49% 1,41% 10,56% -8,74% -10,69% -10,69%
Finnland (OMXH25) 1942,07 1,14% -0,55% 5,95% -18,52% -26,11% -26,11%
Danmörk (OMXC20) 389,95 1,92% 2,70% 12,23% -9,86% -14,78% -14,78%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 2. janúar 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,66% í síðustu viku og endaði í 217,28 stigum. Á árinu 2011 hækkaði gengisvísitala krónunnar um 4,44%. Breyting gagnvart helstu myntum var mjög mismunandi. Mest lækkaði krónan gagnvart japönsku jeni, 10,79% og 6,24% á móti bandaríkjadal. Aftur á móti styrktist krónan ekki á móti neinum af helstu gjaldmiðlunum. Minnst var þó veikingin á móti evru, 3,17% og danskri krónu 3,43%.

Erfitt er að spá fyrir um þróun krónunnar á árinu 2012 en líklegast er að hún verði á svipuðum slóðum og hún er nú og ekki ósennilegt að hún veikist aðeins. Það sem vegur þar þungt eru þeir fjármunir sem eru fastir hér innanlands sem og óvissa um árangur af afnámi gjaldeyrishaftanna. Einnig er óvissa enn mikil hvað varðarfjárfrekar framkvæmdir hér innanlands en verulegt innflæði vegna þeirra skiptir miklu máli samhliða afnámi haftanna.

Því má velta fyrir sér hversu raunhæft er að afnema höftin miðað við núverandi aðstæður í hagkerfinu, miklar eignir erlendra aðila og uppsafnaða fjárfestingarþörf innlendra aðila  erlendis. Sífellt fleiri telja að afnámið sé óraunhæft á meðan krónan er okkar gjaldmiðill og án breytinga á því verða nokkuð ströng gjaldeyrishöft hér á landi í lengri tíma en áður hefur verið talið.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 217,28 -0,66% 0,53% 1,25% -1,27% 4,44% 4,45%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 2. janúar 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.