Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,51% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,92%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,29%, og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,79%.

Skuldabréfamarkaðurinn byrjar því árið með töluverðum látum og á svipuðum nótum og árið 2011 endaði. Ástæðan er einfaldlega sú að framboðið er töluvert minna en eftirspurnin og miklar líkur á að svo verði áfram svo lengi sem gjaldeyrishöftin eru við lýði. Gjaldeyrishöftin skapa því óeðlilegt ástand á skuldabréfamarkaðinum sem mun leita jafnvægis þegar höftunum verður aflétt.

Á föstudaginn voru Lánamál ríkisins með útboð í RB22. Alls bárust tilboð fyrir um 6,5 ma.kr. að nafnverði og var tilboðum tekið fyrir 3,9 ma.kr. að nafnverði. Fyrsta útboð ársins gekk því nokkuð vel.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 1,88% í fyrstu viku ársins. Mesta hækkun var hjá Atlantic Petroleum, um 7,52%. Mest lækkuðu bréf Icelandair, um 3,98%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var í kringum 689 m.kr., mest var velta með bréf Marel, fyrir um 242 m.kr..  Flest viðskipti voru með bréf Haga í fyrstu viku félagsins í OMXI6ISK vísitölunni, 39 viðskipti í veltu upp á 190 m.kr.

Atlantic Petroleum birti framleiðslutölur fyrir desember, 85.000 tunnur af olíu voru framleiddar á Chestnut, Ettrick og Blackbird svæðunum.  Meðalframleiðsla var 2.742 tunnur á dag sem er talsvert yfir meðalframleiðslu ársins sem nam 2.020 tunnur.  Félagið hafði sett markmið um að framleiða á bilinu 2.000-2.300 tunnur á árinu.

Icelandair hefur aldrei áður flutt jafnmarga farþega og árið 2011, þegar fjöldi farþega nam 1.744.065.  Þetta er fjölgun upp á 260 þúsund farþega sem samsvarar 18% aukningu á milli ára.  Farþegar í desember voru 100 þúsund og fjölgaði um 10% frá fyrra ári.  Aukning á framboði var 18% á milli ára og sætanýting var 79,3% sem er sú besta í sögu félagsins Áætlun félagsins fyrir árið 2012 hljóðar upp á 2 milljónir farþega.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 81,00 0,00% 0,00% 2,53% -32,50% 0,00% -42,96%
FO-ATLA 164,50 7,52% -0,60% 24,62% -6,27% 7,52% -24,37%
HAGA 16,65 1,83% 0,00% 0,00% 0,00% 1,83% 4,39%
ICEAIR 4,83 -3,98% -6,76% -15,26% -6,76% -3,98% 52,37%
MARL 127,50 1,59% 2,41% 10,87% -1,54% 1,59% 18,06%
OSSRu 193,00 4,32% 4,04% 4,32% -2,03% 4,32% -3,50%
OMXI6ISK 926,78 1,88% 1,35% 5,81% -6,87% 1,88% -2,03%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 9. janúar 2012)


Erlend hlutabréf

Árið 2012 fór ágætlega af stað og hækkaði heimsvísitalan MSCI um 0,8%. Dax í Þýskalandi hækkaði um 2,71%, Dow Jones í Bandaríkjunum hækkaði um 1,25% en Nikkei í Japan lækkaði um 0,77%.

Betri efnahagslegar horfur en áður var talið er ein helsta ástæða hækkana í vikunni. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum var 8,5% í desember og hefur ekki verið lægra í  3 ár sem er merki um þróun í rétta átt. Einnig hafa stórir bandarískir fjárfestar leitað í auknum mæli í hlutabréf þar sem krafan á ríkisskuldabréfum er innan við 1% á 5 ára bréfum, en slík krafa er mjög lág í sögulegu samhengi.

Þrátt fyrir hækkanir veldur skuldaástandið í Evrópu enn ótta. Atvinnuleysi á Spáni hefur aldrei mælst hærra en í desember s.l. þegar það nam rúmum 22%.  Einnig er meiri halli á fjárlögum en gert hafði verið ráð fyrir.  Evrópusambandið hefur sett Grikklandi skilyrði fyrir lánalínu og ef þeir samþykkja ekki skilyrðin gæti Grikkland átt á hættu að verða vísað úr evrusamstarfinu. Með lánunum eiga Grikkir að geta staðið við skuldbindingar sínar en lánadrottnar Grikklands hafa samþykkt að gefa eftir helming af kröfunum.

Ítalska ríkið þarf nú aftur að greiða rúmlega 7% vexti af skuldabréfum en eins og áður hefur komið fram í vikufréttum er talið að ríki þurfi utanaðkomandi aðstoð ef vextir fara yfir 7%.  Atvinnuleysi á Ítalíu en nú 8,6% og hefur ekki verið hærra í tæp tvö ár. Í evrulöndunum mældist atvinnuleysið í lok árs 10,3% sem er það mesta sem mælst hefur á svæðinu.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1191,67 0,80% 0,37% 5,82% -11,28% 0,77% -7,00%
Þýskaland (DAX) 6057,92 2,71% 0,69% 6,21% -18,57% 2,20% -13,24%
Bretland (FTSE) 5649,68 1,39% 1,95% 6,30% -5,90% 1,17% -5,80%
Frakkland (CAC) 3137,36 -0,71% -1,36% 1,09% -20,04% -0,96% -19,05%
Bandaríkin (Dow Jones) 12359,92 1,25% 1,44% 11,32% -2,35% 1,17% 5,87%
Bandaríkin (Nasdaq) 2674,22 2,66% 1,03% 7,86% -6,49% 2,65% -1,07%
Bandaríkin (S&P 500) 1277,81 1,67% 1,80% 10,59% -4,91% 1,61% 0,50%
Japan (Nikkei) 8488,71 -0,77% -1,71% -2,50% -17,24% -0,77% -20,40%
Samnorræn (VINX) 89,92 2,78% 5,41% 12,35% -9,86% 2,49% -16,78%
Svíþjóð (OMXS30) 1002,18 2,52% 1,96% 8,27% -10,92% 0,89% -13,47%
Noregur (OBX) 363,88 1,76% 3,66% 13,54% -5,48% 1,87% -9,07%
Finnland (OMXH25) 1988,87 3,78% -1,42% 4,55% -17,43% 1,88% -25,37%
Danmörk (OMXC20) 398,42 2,17% 5,42% 16,67% -8,48% 2,78% -13,91%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 9. janúar 2012)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 0,20% í síðustu viku og endaði í 217,71 stigum. Nokkuð mikil breyting varð á helstu myntum á móti krónunni. Japanskt jen og breskt pund hækkuðu í verði um rúmt 1,1% og bandaríkjadalur um 0,73%. Hins vegar lækkaði svissneskur franki um 0,55% og evra um 0,39%.

Lítil tíðindi berast af skuldakrísunni í Evrópu sem slær á ótta fjárfesta. Stjórnmálamenn í Evrópu reyna að leita lausna og ljóst er að ríkisútgjöld margra ríkja munu minnka verulega gangi áætlanir eftir. Slíkt mun hafa veruleg áhrif á hagvöxt og auka atvinnuleysi.  Þess utan hafa peningaprentvélar verið ræstar til að tryggja bönkum og ríkjum nægt lausafé á sama tíma og verðbólga er með mesta móti í álfunni.

Ljóst má vera að peningaprentun og niðurskurður í ríkisútgjöldum ásamt sögulega lágu vaxtastigi mun vega þungt í lausn skuldakreppunnar  og munu fjármagnseigendur þurfa að bera stóran hluta tjónsins.

Hærri verðbólga í Evrópu og Bandaríkjunum en áætlað var mun einnig hafa áhrif til aukinnar verðbólgu hér á landi með hækkandi innflutningsverðlagi.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 217,71 0,20% 0,15% 0,80% -1,18% 0,20% 4,43%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 9. janúar 2012)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.