Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,16% en millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,2%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,02% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,55%. Óverðtryggðu bréfin halda því áfram að hækka heldur meira en þau verðtryggðu og því trúlegt að fjárfestar séu sáttir við núverandi verðbólguálag.

Í síðustu viku var Lánamál ríkisins með ríkisbréfaútboð og voru boðin bréf í RB13 og RB16. Alls bárust tilboð fyrir um 8,2 milljarða að nv. Tilboðum var tekið fyrir um 4,5 milljarða króna að nv. Þegar niðurstöður útboðs voru kynntar var tilkynnt að næsta útboð sem átti að vera 23. september yrði fellt niður þar sem búið var að ná útgáfumarkmiðum  þriðja ársfjórðungs.

Erlendir aðilar eru stærstu eigendur stuttra ríkisbréfa og eiga tæp 70% af RB12 og RB13. Þessir aðilar kaupa bréfin og eiga fram að gjalddaga þar sem gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að þeir geti losað sig úr krónueignum. Þessi staða tryggir ríkissjóði ódýrt lánsfjármagn og getur því virkað letjandi á ríkið þegar kemur að afnámi gjaldeyrishafta því þá um leið hverfur þessi ódýra fjármögnun.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 1,9% í síðustu viku.  Ekkert félag í vísitölunni hækkaði.  Mest lækkaði Atlantic Petroleum, um 2,5%.

Talsvert minni velta var á OMXI6ISK en undanfarnar vikur eða fyrir rúmar 289 milljónum króna, til að mynda voru aðeins ein viðskipti á föstudag fyrir 600.000,- kr.  Sem fyrr voru mest viðskipti með bréf í Marel og Icelandair sem samtals stóðu fyrir um 86% af veltunni í síðustu viku.

Icelandair birti í liðinni viku flutningatölur fyrir ágúst mánuð og var þetta enn einn metmánuður í fjölda farþega.  Félagið flutti tæplega 250.000 farþega í ágúst og hefur aldrei áður flutt jafnmarga í þeim mánuði.  Aukning milli ára er 18%.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 90,00 0,00% -13,46% -26,83% -32,33% -38,62% -35,71%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% -3,64% -7,02% -8,62% -10,92%
FO-ATLA 136,00 -2,51% -20,93% -30,61% -35,71% -37,47% -12,82%
ICEAIR 5,39 -1,67% 2,12% 13,49% 18,30% 68,25% 51,43%
MARL 120,00 -2,44% -1,23% -1,64% -4,76% 20,00% 27,66%
OSSRu 193,50 -1,02% -0,77% -1,53% 0,78% -4,68% -10,00%
OMXI6ISK 912,69 -1,90% -4,04% -6,85% -7,71% -2,26% -4,76%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 12. september 2011)

 

Erlend hlutabréf

Töluverð lækkun var á erlendum hlutabréfum í síðustu viku.  Heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 3,45%,  DAX í Þýskalandi um 6,29% og S&P 500 í Bandaríkjunum um 1,68%.

Seðlabanki Evrópu ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 1,5% sem kemur ekki á óvart í ljósi skuldavanda margra Evrópuríkja og lækkandi hagvaxtar í heiminum.  Auk þess hefur efnahags- og framfarastofnun OECD hvatt seðlabanka til að hækka ekki stýrivexti.

Hlutbréfaverð lækkaði meðal annars vegna uppsagnar Jurgen Stark úr stjórn Seðlabanka Evrópu.  Uppsögn hans þykir benda til óeiningar innan stjórnarinnar um hvernig skuli takast á við skuldavandann.

Áætlun sem Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lagði fram 8. september til að draga úr atvinnuleysi með 447 milljarða dala innspýtingu dugði ekki til að róa markaði.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1134,68 -3,45% -3,91% -11,94% -13,72% -11,36% -0,38%
Þýskaland (DAX) 5189,93 -6,29% -16,05% -28,78% -27,88% -27,17% -18,98%
Bretland (FTSE) 5214,65 -1,46% -3,31% -10,79% -11,75% -12,81% -6,50%
Frakkland (CAC) 2974,59 -5,52% -11,20% -25,00% -27,36% -24,99% -23,40%
Bandaríkin (Dow Jones) 10992,13 -2,21% -2,46% -8,03% -8,74% -5,06% 5,06%
Bandaríkin (Nasdaq) 2467,99 -0,50% -1,59% -6,65% -9,12% -6,97% 10,06%
Bandaríkin (S&P 500) 1154,23 -1,68% -2,09% -9,19% -11,50% -8,22% 4,03%
Japan (Nikkei) 8737,66 -2,38% -4,78% -10,29% -16,76% -16,55% -7,61%
Samnorræn (VINX) 81,03961 -2,41% -5,68% -19,80% -23,70% -25,92% -16,76%
Svíþjóð (OMXS30) 884,6016 -5,10% -9,18% -20,62% -21,09% -24,74% -18,63%
Noregur (OBX) 331,47 -2,89% -3,35% -15,76% -17,83% -18,67% -4,68%
Finnland (OMXH25) 1886,831 -4,21% -6,66% -23,26% -27,71% -30,22% -22,04%
Danmörk (OMXC20) 347,154 -1,32% -9,77% -23,42% -27,26% -26,56% -19,29%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 12. september 2011)

 

Krónan

Gengisvísitalan lækkaði um 0,32% og endaði í 217,99 stigum.

Hagstofa Íslands birti tölu um vöruskipti við útlönd á fyrri helmingi ársins í vikunni. Útflutningur er talinn hafa vaxið um 8,8% milli ára á föstu verðlagi og innflutningur  um 17,0% á sama tíma. Á útflutningshliðinni var mest aukning í iðnaðarvörum, aðallega ál og kísilál.

Á innflutningshliðinni var mest aukning á hrá- og rekstrarvörum, eldsneyti og flutningatækjum. Aukning á innflutningi fjárfestingavara (án flutningatækja) er óveruleg, en fjárfesting þarf að aukast verulega til að hagvöxtur taki við sér.

Það verður að teljast nokkuð áhyggjuefni að innlend fyrirtæki hafi ekki náð að nýta sér hagstætt raungengi undanfarin ár til að auka útflutning eða til að framleiða vörur innanlands í stað innfluttrar. Vera kann að óvissa um fjárhagsstöðu fyrirtækja, mikil skuldsetning og erfitt aðgengi að lánsfé valdi því að þau eiga erfitt með að ráðast í ný verkefni og þróun nýrra vara.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 217,99 -0,32% -1,06% -1,24% 0,33% 4,78% 6,27%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 12. september 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.