Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,63% en millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,03%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,05% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,29%.

Í síðustu viku var Lánamál ríkisins með ríkisvíxlaútboð. Boðnir voru tveir flokkar, annar með gjalddaga í desember og hinn í mars. Þátttaka var mjög lítil. Aðeins bárust tilboð fyrir 7,7 milljarða að nv. og var tilboðum tekið fyrir um 5 milljarða að nv.

Þann 21. sept. er næsti vaxtaákvörðunardagur SÍ. SÍ hóf vaxtahækkunarferlið í ágúst s.l. og við teljum líklegt að það haldi áfram núna og að vextir hækki um 25 punkta. Það væri í samræmi við skilaboð sem hafa borist frá bankanum. Verðbólgan er enn langt fyrir ofan verðbólgumarkmið SÍ og útlit fyrir að svo verði áfram enn um sinn.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 1,94% í síðustu viku.  Ekkert félag í vísitölunni hækkaði.  Mest lækkuðu bréf BankNordik, um 6,67% í aðeins einum viðskiptum.

Veltan á OMXI6ISK í síðustu viku nam um 351 milljónum króna.  Mest viðskipti voru með bréf í Marel og Icelandair eða ríflega 98% af veltu vikunnar.

Icelandair tilkynnti í vikunni um aukin umsvif á næsta ári, félagið ætlar að auka flug um 13% milli ára.  Verða þetta allt að 400 flug á viku og þegar mest lætur mun félagið flytja 10 þúsund farþega á sólarhring.

Áhersla verður lögð á aukið framboð flugs utan sumartíma.  Fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir um 2 milljónum  farþega en samkvæmt áætlun fyrir 2011 munu farþegar verða 1,8 milljónir.

Ekkert bólar enn á nýrri skráningu í Kauphöll Íslands á þessu ári en gert er ráð fyrir að Hagar verði skráð fyrir áramót.  Þá eru 10 félög búin að leggja fram skráningaráætlanir og þar af 6 opinberlega samkvæmt forstjóra Kauphallarinnar.

Vonandi mun fjárfestingakostum fjölga á næsta ári í Kauphöllinni en í dag eru einungis virk viðskipti með bréf tveggja félaga.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 84,00 -6,67% -19,23% -31,71% -32,80% -40,85% -39,57%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% -3,64% -7,02% -8,62% -10,92%
FO-ATLA 136,00 0,00% -20,93% -30,61% -35,70% -37,47% -15,00%
ICEAIR 5,29 -0,19% 3,73% 11,37% 17,82% 67,94% 51,14%
MARL 117,50 -2,08% -2,08% -2,49% -5,24% 17,50% 23,81%
OSSRu 190,00 -1,81% -4,52% -2,56% -2,56% -6,40% -14,44%
OMXI6ISK 895,03 -1,94% -5,95% -8,02% -9,02% -4,15% -7,65%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 19. september 2011)

 

Erlend hlutabréf

Mjög góður gangur var á erlendum hlutabréfum í síðustu viku eftir erfiðar vikur þar á undan. Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 3,64%, Dax í Þýskalandi um 7,39%, S&P 500 í Bandaríkjunum um 5,35%, Nikkei í Japan um 1,45% og samnorræna vísitalan um 1,17%.

Bandaríski seðlabankinn, Evrópski seðlabankinn, Japansbanki, Englandsbanki, og seðlabankinn í Sviss gripu til sameiginlegra aðgerða til að tryggja evrópskum bönkum aðgengi að Bandaríkjadal á millibankamarkaði. Seðlabankarnir lána evrópsku bönkunum dollara til þriggja mánaða í senn. Þessar aðgerðir höfðu jákvæð áhrif á markaðinn í vikunni.

Miklar sveiflur hafa verið á mörkuðum og verður að öllum líkindum á næstunni, mikil óvissa ríkir með skuldsettar þjóðir. Samkvæmt frétt á Bloomberg telur markaðurinn að 98% líkur séu á greiðslufalli Grikklands en skuldatryggingarálag á Grikkland er komið vel yfir 5.000 punkta ofan á markaðsvexti.

Atvinnuleysi í Bretlandi mældist 7,9% í ágúst. Atvinnulausum fjölgaði um 80 þúsund á einum ársfjórðungi og er það mesta fjölgun á einum fjórðungi síðan í ágúst 2009.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1176,03 3,64% 3,92% -8,16% -8,63% -8,13% 1,72%
Þýskaland (DAX) 5573,51 7,39% -1,46% -24,63% -18,98% -21,90% -13,04%
Bretland (FTSE) 5368,41 2,95% 4,27% -8,03% -8,08% -10,92% -4,58%
Frakkland (CAC) 3031,08 1,90% -2,45% -23,03% -22,76% -22,65% -20,93%
Bandaríkin (Dow Jones) 11509,09 4,70% 6,39% -4,13% -2,95% -0,59% 8,50%
Bandaríkin (Nasdaq) 2622,31 6,25% 11,98% 0,22% -0,81% -1,15% 13,24%
Bandaríkin (S&P 500) 1216,01 5,35% 8,23% -4,36% -4,94% -3,31% 8,03%
Japan (Nikkei) 8668,86 1,45% 1,66% -5,21% -3,72% -13,34% -7,92%
Samnorræn (VINX) 81,99391 1,17% 2,19% -16,51% -21,49% -24,75% -15,76%
Svíþjóð (OMXS30) 927,1495 4,81% 2,88% -16,68% -17,29% -21,88% -16,57%
Noregur (OBX) 340,67 2,78% 3,07% -11,21% -16,38% -16,65% -3,21%
Finnland (OMXH25) 1944,959 3,08% 1,79% -19,26% -24,83% -27,97% -20,18%
Danmörk (OMXC20) 347,5924 0,13% -2,12% -19,29% -26,07% -25,36% -17,28%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 19. september 2011)

 

Krónan

Gengisvísitalan lækkaði um 1,16% og endaði í 215,47 stigum. Af helstu myntum lækkaði sænska krónan um 3,63% og norska krónan um 3,31%. Hins vegar hækkaði japanskt jen mest í verði, um 0,57%. Frá áramótum hefur krónan veikst um 3,24%.

Krónan veiktist töluvert framan af ári en undanfarnar vikur hefur veikingin verið að ganga nokkuð til baka, og líklegt er að árstíðarsveifla í innflæði gjaldeyris vegna ferðamanna sé nú í hámarki. Veikust á árinu var krónan um miðjan júlí, en þá stóð gengisvísitalan í 222,5 stigum.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 215,47 -1,16% -1,63% -2,31% -0,31% 3,57% 4,85%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 19. september 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.