Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,53% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,53%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,07%, og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,43%. Það er því ennþá mikil eftirspurn eftir ríkistryggðum og þá sérstaklega verðtryggðum bréfum.

Það liggur  fyrir að framboð verðtryggðra bréfa með ábyrgð ríkissjóðs verður lítið næstu misserin. Íbúðalánasjóður gefur töluvert minna út en sem nemur afborgunum af útistandandi bréfum og ríkið fjármagnar sig nánast eingöngu með óverðtryggðum bréfum. Reykjavíkurborg og Lánasjóður sveitarfélaga seldu verðtryggð bréf í síðustu viku en magnið var mjög lítið eða innan við milljarð.

Á stjórnarheimilinu hafa komið upp hugmyndir um að Íbúðalánasjóður fari að veita óverðtryggð lán. Líkurnar á því að það verði að veruleika í náinni framtíð eru hins vegar litlar þar sem Íbúðalánasjóður getur ekki keppt við bankana í útlánsvöxtum. Bankarnir eru með fullt fangið af ódýru fé vegna gjaldeyrishaftanna og geta því boðið ódýr útlánakjör en Íbúðalánasjóður yrði að sækja sér fé á markaðinn og það er mun dýrara.

 

Innlend hlutabréf

Talsvert mikil hækkun var á OMXI6ISK vísitölunni í vikunni, 6,86%.  Mest hækkaði Atlantic Petroleum, um 9,95%.  Mest lækkaði Bank Nordik, um 1,33%.

Velta á OMXI6ISK tók nokkurn kipp í kjölfar birtingar uppgjörs Marels síðastliðin miðvikudag.  Heildarveltan nam 563 milljónum króna og mest var velta með bréf Marels fyrir um 372 milljónir.

Þriðja ársfjórðungs uppgjör Marels var gott og var þetta metfjórðungur í sölu hjá félaginu.  Markaðurinn tók vel í uppgjörið og hækkuðu bréf félagsins um 9,5% í vikunni.  Tekjur voru 169,1 milljón evra á þriðja ársfjórðungi sem er 13,1% aukning frá sama tímabili í fyrra.  Aukning tekna á milli fjórðunga var 4% sem er vel gert þar sem inn í fjórðungnum eru sumarleyfismánuðir og því er hann yfirleitt sá lakasti.

Pantanabók Marels stendur í 204 milljónum evra og hefur aldrei staðið betur.  Nýjar pantanir námu 197 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi á móti 165,4 milljónum evra á sama fjórðungi 2010. Hagnaður félagsins á þriðja fjórðungi nam 10,5 milljónum evra á móti 2,4 milljón evra á sama tíma í fyrra.  Fyrstu níu mánuði ársins hefur félagið hagnast um 19,4 milljónir evra.

Össur birti einnig þriðja ársfjórðungs uppgjör í síðustu viku.  Hagnaður félagsins var 10,6 milljónir USD og jókst um 165% frá þriðja ársfjórðungi 2010. og Fyrir fyrstu 9 mánuði ársins var hagnaður í kringum 29 milljónir USD.

Góður söluvöxtur var í ársfjórðungnum eða sem nemur 12%, mælt í staðbundinni mynt.  17% vöxtur var í sölu á spelkum og 7% í stuðningsvörum.  Áætlun stjórnenda fyrir árið 2011 gerir ráð fyrir 4-6% innri söluvexti, mælt í staðbundinni mynt.

EBITDA nam 21 milljón USD eða 21% af sölu og áætlun ársins gerir ráð fyrir að EBITDA verði 20-21% af veltu þegar leiðrétt hefur verið fyrir einskiptistekjum og einskiptiskostnaði.

Bréf Össurar hækkuðu um 5,4% í kauphöllinni hér heima og um 6,9% í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Icelandair mun birta uppgjör á þriðjudag og Atlantic Petroleum á miðvikudag.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 74,00 -1,33% 2,78% -30,19% -41,50% -47,89% -51,63%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% 0,00% -3,64% -8,62% -7,02%
FO-ATLA 121,50 9,95% -7,95% -29,36% -41,30% -44,14% -31,74%
ICEAIR 5,71 -0,17% 4,58% 15,35% 26,33% 81,27% 63,14%
MARL 126,50 9,52% 7,20% -0,78% -1,94% 26,50% 29,61%
OSSRu 196,00 5,38% 0,51% -2,97% 1,03% -3,45% -8,84%
OMXI6ISK 924,08 6,86% 3,54% -6,33% -7,43% -1,04% -2,62%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 31. október 2011)

 

Erlend hlutabréf

Mikil hækkun var á erlendum hlutabréfum í vikunni.  Heimshlutabréfavísitalan MSCI hækkaði um 5,01%,  DAX í Þýskalandi um 6,28% og S&P 500 í Bandaríkjunum um 3,78%.

Hlutabréfaverð hækkaði vegna samkomulags leiðtoga Evrópusambandsins um aðgerðir vegna skuldakreppunnar.  Þær aðgerðir fela meðal annars í sér stækkun á björgunarsjóði sambandsins og að skuldir Grikkja verði afskrifaðar að hluta.

Jákvæðar fréttir frá Bandaríkunum höfðu einnig áhrif svo sem aukinn hagvöxtur milli mánaða, aukin bjartsýni neytenda í október og færri nýskráningar á atvinnuleysisskrá.

Hlutabréfaverð hækkaði einnig mikið á Norðurlöndunum og hækkaði til að mynda OMXH25 hlutabréfavísitala Finnlands um 8,25%.  Frá áramótun hefur vísitalan hins vegar lækkað  um 19,14%.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1254,20 5,01% 13,60% -3,97% -9,68% -2,02% 2,62%
Þýskaland (DAX) 6346,19 6,28% 14,05% -12,35% -16,50% -9,25% -4,95%
Bretland (FTSE) 5702,24 3,90% 10,01% -2,98% -7,05% -4,37% -0,58%
Frakkland (CAC) 3348,63 5,59% 10,65% -10,13% -19,66% -13,28% -13,93%
Bandaríkin (Dow Jones) 12231,11 3,58% 12,07% 0,72% -4,52% 5,65% 10,01%
Bandaríkin (Nasdaq) 2737,15 3,79% 13,32% -0,70% -4,75% 3,18% 9,16%
Bandaríkin (S&P 500) 1285,09 3,78% 13,58% -0,56% -5,76% 2,18% 8,61%
Japan (Nikkei) 9050,47 4,28% 3,31% -8,59% -8,74% -12,13% -2,33%
Samnorræn (VINX) 90,10 6,99% 12,98% -5,99% -16,83% -16,10% -7,49%
Svíþjóð (OMXS30) 1025,72 6,27% 11,82% -4,53% -12,48% -11,93% -6,57%
Noregur (OBX) 363,07 3,08% 11,46% -6,17% -12,93% -10,11% -3,04%
Finnland (OMXH25) 2125,39 8,25% 13,52% -3,72% -20,23% -19,14% -14,13%
Danmörk (OMXC20) 374,75 7,23% 5,00% -12,52% -20,51% -19,60% -13,28%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 31. október 2011)

 

Krónan

Gengisvísitala krónunnar lækkaði um 0,13% í vikunni og endaði í 214,13 stigum. Af helstu myntum þá lækkaði Bandaríkjadalur um 2,52% í verði gagnvart krónu og japanskt jen um 1,47%. Sænsk króna hækkaði mest, um 1,18% og svissneskur franki um 0,55%.

Evran hefur verið að styrkjast eftir að samkomulag um björgunaraðgerðir í Evrópu voru kynntar.  Hins vegar er breyting evru á móti krónu undanfarnar vikur nær engin, en ástæða þess er sú að viðskipti á innlendum millibankamarkaði með krónu er einungis í evrum. Viðskipti eru einnig strjál, markaðurinn grunnur og höft til staðar. Aðgerðir Seðlabanka Íslands geta því haft mikið að segja. Í raun má segja að aðstæður á gjaldeyrismarkaðinum séu þannig að gengi krónunnar er fest við gengi evru, þó með óákveðnum vikmörkum.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 214,13 -0,13% -0,65% -3,53% -1,79% 2,93% 3,71%

(Gengisvísitala krónunnar, Seðlabankinn, 31. október 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.