Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,83% en millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,24%. Löng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,44% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,38%.

Í síðustu viku voru Lánamál ríkisins með útboð í tveimur flokkum. Annars vegar stuttum ríkisbréfum og hins vegar í millilöngum bréfum. Það var mjög lítil eftirspurn eftir stuttu bréfunum en þónokkur eftirspurn eftir lengri bréfunum. Alls voru bréf seld fyrir tæpa 8 milljarða að nafnvirði.

Næsta krónuútboð SÍ verður núna í vikunni. Tilboðum skal skilað fyrir 12. júlí n.k.  Útboðsfjárhæðin er 15 milljarðar króna en SÍ áskilur sér þó rétt til að hækka eða lækka fjárhæðina. Í síðasta útboði keypti SÍ krónur fyrir um 13 milljarða og var megnið í formi lauss fjár sem bendir til þess að óþolinmóðustu krónurnar eru inni á bankareikningum en ekki í ríkisskuldabréfum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að svo verði aftur nú.

 

Innlend hlutabréf

OMXI6ISK vísitalan hækkaði talsvert í vikunni eða um 4,1% sem er að mestu vegna mikilla hækkana á bréfum Marels, um 5,71% og Icelandair, um 3,81%.  BankNordik lækkaði mest í vikunni, um 2,44%.

Heildarvelta á OMXI6ISK var um 323 miljónir króna, mest voru viðskipti með bréf í Marel fyrir um 171 milljón króna.  Einhver velta var með bréf allra sex félaganna sem mynda OMXI6ISK, minnst þó með bréf færeysku félaganna.

Hjá Icelandair fjölgaði farþegum um 21% í júní sambanborið við sama mánuð í fyrra. Sætanýting var þó óbreytt á milli ára, eða í kringum 81%.

Atlantic Petroleum tilkynnti að 71 þúsund tunnum af olíu hefði verið dælt upp í júní sem er þónokkur samdráttur á milli ára.  Það eru ennþá vandræði á Chestnut svæðinu sem veldur minni framleiðslu.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 120,00 -2,44% -2,44% -5,14% -14,29% -15,49% -16,67%
FO-AIR 106,00 -0,93% -3,64% -7,02% -8,62% -8,62% -9,40%
FO-ATLA 175,50 -2,50% -10,46% -14,18% -19,31% -19,31% 30,00%
ICEAIR 5,18 3,81% 10,92% 19,35% 67,64% 64,44% 48,00%
MARL 129,50 5,71% 6,15% 2,78% 21,03% 29,50% 43,41%
OSSRu 197,00 1,03% 0,25% -0,51% -1,50% -2,96% 6,20%
OMXI6ISK 995,20 4,08% 1,57% 0,29% 5,69% 6,58% 9,79%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 11. júlí 2011)

 

Erlend hlutabréf

Verð hlutabréfa sveiflaðist töluvert í vikunni eftir miklar hækkanir i vikunnni á undan. Heimsvísitalan MSCI lækkaði um 0,05%, DAX í Þýskalandi lækkaði um 0,23%, S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 0,31% og Nikkei í Japan hækkaði um 2,73%.

Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti á evrusvæðinu úr 1,25% í 1,50% en bankinn hefur hækkað vexti tvisvar frá því í apríl eftir að hafa haldið vöxtum óbreyttum frá júlí 2008.  Rekja má hækkun á stýrivöxtum til þess að verðbólga á evrusvæðinu hefur farið hækkandi. Markmið seðlabankans er að halda verðbólgu undir 2% en 12 mánaða verðbólga mælist nú um 2,7%.

Verðbólga í OECD er einnig að aukast og mældist hún 3,2% í maí og er það mesta verðbólga frá því í október 2008.

Vandamál Grikklands ætla engan endi að taka.  Landið hefur fengið gríðarlega háar fjárhæðir að láni og sér ekki fyrir endann af því. Talið er að Grikkland vanti 115 milljarða evra (19 þúsund milljarða króna) til þess að greiða skuldir næstu 3 árin.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1343,13 -0,05% 4,24% -0,41% 4,75% 4,93% 23,05%
Þýskaland (DAX) 7402,73 -0,23% 5,69% 1,81% 5,67% 6,09% 20,94%
Bretland (FTSE) 5990,58 0,01% 3,56% -1,36% -0,71% 1,21% 16,33%
Frakkland (CAC) 3913,55 -2,34% 1,68% -4,20% 0,18% 1,69% 8,85%
Bandaríkin (Dow Jones) 12657,20 0,59% 5,90% 2,23% 8,44% 9,33% 24,11%
Bandaríkin (Nasdaq) 2859,81 1,55% 8,17% 3,19% 5,26% 7,80% 30,20%
Bandaríkin (S&P 500) 1343,80 0,31% 5,73% 1,46% 5,44% 6,85% 24,66%
Japan (Nikkei) 10137,73 2,73% 5,83% 3,60% -4,20% -1,56% 5,05%
Samnorræn (VINX) 99,48 -0,24% 0,82% -6,83% -9,32% -6,87% 12,49%
Svíþjóð (OMXS30) 1120,59 0,23% 1,73% -2,96% -5,09% -3,54% 8,41%
Noregur (OBX) 385,40 -1,49% -0,86% -8,16% -5,26% -4,28% 20,15%
Finnland (OMXH25) 2377,65 -1,34% -1,61% -11,71% -11,70% -10,53% 9,06%
Danmörk (OMXC20) 437,94 0,41% -0,71% -7,31% -7,82% -4,79% 7,16%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 11. júlí 2011)

 

Krónan

Krónan veiktist í vikunni, en gengisvísitalan hækkaði um 0,64% og endaði í 221,38. Kanadadalur hækkaði mest í verði, um 2,19% og bandaríkjadalur um 1,85%. Hins vegar var minnsta hækkunin á evru 0,03% og danskri krónu 0,04%.

Vextir voru hækkaðir í Evrópu um 0,25 prósentustig og standa í 1,5%.  Danski seðlabankinn fylgdi í kjölfarið eins og við var búist.  Hækkandi vextir í Evrópu virðast ekki duga til þess að fjárfestar haldi í evruna, en hvert ríki Evrópusambandsins af öðru virðist rata í öngstræti.

Viðskipti á innlendum millibankamarkaði með krónur fara fram í evrum. Viðskiptin eru oft á tímum strjál sökum gjaldeyrishafta og því fylgir krónan evrunni nokkuð vel, eins og raunin var í vikunni. Líkast til mun þetta samband veikjast samfara verulega auknu frelsi í viðskiptum með krónuna, þegar og ef slíkt verður.

Minnkandi vaxtamunur við útlönd og ekki síst Evrópu setur aukinn þrýsting á krónuna og dregur úr hvata fyrir útflutningsaðila að kaupa krónur fyrir gjaldeyri. Ágætis vextir bjóðast í nokkrum myntum t.d. norskum og sænskum krónum, ástalíudal og evru.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 221,38 0,64% 0,33% 2,57% 6,19% 6,41% 4,03%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 11. júlí 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.