Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

 

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,89% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,58%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 2,26% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,99%.

Svo virðist sem fjárfestar telji að sá óróleiki sem skekur markaði muni leiða til minni verðbólgu hér á landi en ella hefði orðið. Verð á hrávörum s.s. olíu og sykri hefur lækkað verulega, sem ætti að hafa áhrif til lækkunar á innfluttum vörum.

Hins vegar er spurning hvernig vestræn ríki leysa úr þeirri skuldakreppu sem upp er komin, en ekki er ólíklegt að leið peningaprentunar og þar með aukinnar verðbólgu verði fyrir valinu.  Slíkt myndi einnig leiða til hærra verðlags hér á landi.

Því er alls óvíst hvort fjárfestar á innlendum skuldabréfamarkaði séu á réttri leið með að lækka verðbólguálag á ríkistryggðum bréfum.

 

Innlend hlutabréf

Vegna frídags verslunarmanna þann 1.ágúst voru aðeins 4 viðskiptadagar í vikunni. OMXI6ISK vísitalan lækkaði um 2,66% sem er mesta vikulækkun vísitölunnar í töluvert langan tíma, en markaðir um allan heim lækkuðu mikið í vikunni.

Marel lækkaði mest í vikunni, um 4,71%.  Mest hækkaði Icelandair eða um 2,22%, félagið áætlar að birta uppgjör fyrir 2. ársfjórðung í þessari viku.

Heildarvelta á OMXI6ISK var um 630 m.kr., mest með bréf Marels fyrir 548 milljónir.  Marel og Icelandair voru með 98% af veltu vikunnar.

Atlantic Petroleum birti framleiðslutölur fyrir júlí mánuð í vikunni.  Félagið framleiddi 59 þúsund tunnur af olíu í mánuðinum eða um 1.903 tunnur að meðaltali á dag.  Ennþá er Chestnut svæðið ekki að skila fullri afkastagetu en gert er ráð fyrir að það lagist í ágúst.

Félagið tilkynnti einnig að líklega yrði hafin framleiðsla á Blackbird svæðinu á síðasta fjórðung þessa árs en ekki í byrjun næsta árs eins og áður var talið.  Leyfi hefur fengist frá stjórnvöldum fyrir framleiðslu á svæðinu.  Þetta verður því  þriðja virka framleiðslusvæði félagsins.

Gengi bréfa félagsins hefur sveiflast talsvert síðastliðna 12 mánuði.  Hefur það lækkað um 22% frá áramótum og spila þar inn í erfiðleikar við að dæla upp olíu ásamt sveiflum í verði og skjálfta á alþjóðlegum mörkuðum upp á síðkastið.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 108,00 1,89% -10,00% -14,96% -21,74% -23,94% -25,00%
FO-AIR 106,00 0,00% 0,00% -3,64% -5,36% -8,62% -9,40%
FO-ATLA 172,00 0,00% -3,10% -15,06% -19,63% -20,92% 21,13%
ICEAIR 5,06 2,22% -0,78% 6,53% 19,06% 60,63% 48,82%
MARL 121,50 -4,71% -2,80% -4,33% 3,40% 21,50% 33,96%
OSSRu 200,00 -0,99% 2,56% 2,56% -0,99% -1,48% 1,78%
OMXI6ISK 960,29 -2,66% -1,71% -3,55% -2,57% 2,84% 2,68%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 8. ágúst 2011)

 

Erlend hlutabréf

Mikið verðfall varð á erlendum hlutabréfum í liðinni viku.  S&P 500 vísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 7,19%, Dax í Þýskalandi um 12,89% og heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 8,58%.

S&P 500 vísitalan hefur ekki lækkað jafn mikið á einni viku síðan í nóvember árið 2008 og nemur nú lækkun vísitölunnar 4,63% frá áramótum.

Þrátt fyrir að repúblikanar og demókratar hafi náð samkomulagi um hækkun skuldaþaks bandaríska ríkisins í vikunni þá reyndust áhyggjur fjárfesta þess efnis að alþjóðleg matsfyrirtæki myndu lækka lánshæfiseinkunn landsins  á rökum reistar.

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s lækkaði lánshæfismat Bandaríkjanna eftir lokun markaða á föstudag í AA+ með neikvæðum horfum.  Fyrirtækið taldi niðurskurð ríkissjóðs ekki vera nægilegan og einnig þótti þeim stjórnmálamönnum ganga erfiðlega að semja um skuldaþakið.

Önnur stór matsfyrirtæki eins og Fitch og Moody´s höfðu áður ákveðið að lækka ekki hæstu einkunn Bandaríkjanna.

Ástandið í Evrópu er síst betra og óttast fjárfestar skuldavanda Spánar og Ítalíu.  Evrópski seðlabankinn boðaði hins vegar í gær inngrip á skuldabréfamarkað í von um að róa markaði.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1194,05 -8,58% -11,10% -12,16% -11,38% -6,72% 3,63%
Þýskaland (DAX) 6236,16 -12,89% 5,69% -18,63% -16,75% -11,82% -2,60%
Bretland (FTSE) 5246,99 -9,77% -13,73% -13,53% -15,16% -12,41% -3,09%
Frakkland (CAC) 3278,56 -10,73% -17,70% -20,63% -21,60% -15,35% -13,33%
Bandaríkin (Dow Jones) 11444,61 -5,75% -9,58% -9,45% -6,45% -1,15% 7,43%
Bandaríkin (Nasdaq) 2532,41 -8,13% -11,45% -10,44% -9,46% -4,54% 10,66%
Bandaríkin (S&P 500) 1199,38 -7,19% -10,75% -10,51% -9,45% -4,63% 6,93%
Japan (Nikkei) 9299,88 -5,42% -10,26% -7,73% -14,46% -11,06% -5,65%
Samnorræn (VINX) 82,56 -12,90% -19,41% -23,69% -25,05% -24,54% -13,35%
Svíþjóð (OMXS30) 947,78 -11,09% -17,35% -20,01% -18,25% -19,86% -13,06%
Noregur (OBX) 335,83 -12,45% -15,45% -18,38% -19,17% -18,61% -5,02%
Finnland (OMXH25) 1869,22 -14,46% -22,89% -28,86% -31,99% -30,25% -20,13%
Danmörk (OMXC20) 375,00 -10,83% -16,26% -20,11% -20,61% -19,85% -12,57%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 8. ágúst 2011)

 

Krónan

Krónan styrktist í vikunni, gengisvísitalan lækkaði um 0,43% og endaði í 220,83 stigum. Svissneskur franki hækkaði mikið í verði, um 5,88% en fjárfestar líta á hann sem örugga höfn í þeim ólgusjó sem nú er á alþjóðlegum mörkuðum. Aðrar helstu myntir breyttust minna. Frá áramótum hefur krónan veikst um 5,79%.

Miklar skuldir vestrænna ríkja gætu haft nokkur áhrif á íslenskt hagkerfi. Líklegt er að þrýstingur komi á verð okkar helstu útflutningsvara, en verulegur hluti sjávarafurða og ferðaþjónustu okkar telst til munaðarvara. Með slíkar vörur hefur minnkun á eftirspurn allajafna mikil áhrif til verðlækkunar.

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd virðist vera að minnka hratt og mun verðlækkun útflutningsvara ekki bæta úr skák. Því er líklegra en ella að krónan þurfi að gefa meira eftir en orðið er frá áramótum til að auka á áður nefndan afgang til að hægt sé að standa undir erlendum skuldum hagkerfisins. Óvissa með endurfjármögnun erlendra skulda hefur aukist undanfarið og vextir hafa farið hækkandi.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 220,83 -0,43% 0,22% 1,21% 3,28% 6,15% 4,70%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 8. ágúst 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.