Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,89% en millilöng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,37% eftir töluverða hækkun í síðustu viku.  Millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,96% eftir mikla lækkun í síðustu viku.

Verðbreytingar skuldabréfa í vikunni vógu að nokkru leyti upp þær verðbreytingar sem urðu vikuna á undan.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans verður tilkynnt 20. apríl.  Nokkuð skiptar skoðanir eru um  hvort bankinn haldi vöxtum óbreyttum eða lækki þá lítillega.

 

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 1,27%.  Mest hækkuðu bréf Icelandair group, um 3,46%.  Mesta lækkun var á bréfum Össurar, um 4,55% í 8 viðskiptum og var veltan rúmar 8 milljónir króna.

Velta með bréf í OMXI6ISK vísitölunni var 533 milljónir króna.  95% veltunnar var með bréf Icelandair og Marels.  Velta með bréf Icelandair var ríflega 349 milljónir í síðustu viku.

Icelandair group áætlar að nýtt met verði sett í fjölgun ferðamann til landsins í ár.  Gert er ráð fyrir 15-20% fjölgun ferðamanna í sumar samkvæmt bókunum hjá  félaginu.  Reikna má með að þetta séu um 75-100 þúsund fleiri ferðamenn í ár en í fyrra og því komi í heildina til landsins allt að  600 þúsund ferðamenn.

Samkvæmt framkvæmdastjóra félagsins er þessi fjölgun fyrst og fremst að þakka auknu flugframboði og öflugu markaðsstarfi félagsins í vetur.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 122,00 -3,56% -2,40% -12,23% -22,78% -14,08% -23,75%
FO-AIR 110,00 -3,51% -3,51% -5,17% -3,51% -5,17% -14,73%
FO-ATLA 204,50 0,00% 3,02% -3,99% 27,81% -5,98% 23,94%
ICEAIR 4,49 3,46% 1,58% 8,98% 28,29% 42,54% 32,06%
MARL 129,00 2,38% 6,61% 13,16% 30,96% 29,00% 53,94%
OSSRu 189,00 -4,55% -3,08% -5,97% -12,09% -6,90% -0,53%
OMXI6ISK 979,71 -1,27% 0,79% 0,41% 1,49% 4,92% 1,82%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 18. apríl 2011)

 

Erlend hlutabréf

Nokkur lækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  Heimsvísitala MSCI lækkaði um 0,99%, DAX í Þýskalandi um 0,54% og Nikkei í Japan um 1,81%.

Þá lækkaði S&P 500 um 0,64% en í vikunni voru birt nokkur uppgjör sem stóðust ekki væntingar.  Má þar nefna uppgjör Alcoa Inc. fyrir fyrsta ársfjórðung sem var birt í upphafi vikunnar.

Þrátt fyrir gott uppgjör stóðust tekjutölur ekki væntingar en samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni voru tekjur Alcoa 5,96 milljarðar usd í stað spá upp á 6,06 milljarða dollara.  Verð á hlutabréfum félagsins lækkuðu í kjölfarið um tæp 8% í vikunni.

Töluverð lækkun var líka í Evrópu og þá ekki síst á Norðurlöndunum.  Norska hlutabréfavísitalan OBX lækkaði til að mynda um 3,55% í vikunni.

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody‘s lækkaði einnig lánshæfiseinkunn Írlands í liðinni viku í Baa3 en sú ákvörðun kom ekki á óvart og hafði lítil áhrif á hlutabréfamarkað.  Hlutabréfavísitala Íra, Irish Overall Index, lækkaði um 0,50% í liðinni viku.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1338,04 -0,99% 3,96% 1,66% 8,97% 4,53% 9,47%
Þýskaland (DAX) 7178,29 -0,54% 5,69% -0,45% 9,12% 2,85% 15,05%
Bretland (FTSE) 5996,01 -0,99% 4,10% -1,72% 3,66% 0,89% 3,63%
Frakkland (CAC) 3974,48 -2,15% 3,05% -2,15% 2,40% 3,19% -1,51%
Bandaríkin (Dow Jones) 12341,83 -0,31% 4,08% 4,26% 10,75% 6,60% 12,01%
Bandaríkin (Nasdaq) 2764,65 -0,57% 4,58% -0,04% 11,45% 4,21% 11,42%
Bandaríkin (S&P 500) 1319,68 -0,64% 3,16% 1,90% 11,39% 4,93% 10,70%
Japan (Nikkei) 9591,52 -1,88% 3,80% -9,15% 0,61% -6,57% -13,92%
Samnorræn (VINX) 104,169 -2,04% 1,92% -4,62% 7,59% -2,32% 11,99%
Svíþjóð (OMXS30) 1123,813 -2,39% 2,50% -5,14% 1,94% -3,20% 6,51%
Noregur (OBX) 403,08 -3,55% -0,32% -1,82% 9,31% -0,63% 13,17%
Finnland (OMXH25) 2594,148 -2,46% 2,21% -4,53% 5,44% -2,05% 14,70%
Danmörk (OMXC20) 462,1003 -1,88% 0,37% -2,39% 12,06% 1,33% 15,14%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 18. apríl 2011)

 

Krónan

Krónan veiktist nokkuð í vikunni.  Gengisvísitalan hækkaði um 0,64% og endaði í 217,21 stigum.  Frá áramótum hefur krónan gefið eftir um 4,22%.

Breyting á gengi krónunnar var innan eðlilegra marka en vikan litaðist af umræðum um hugsanleg áhrif synjunar á Icesave samkomulaginu og virðist sem neikvæð áhrif ætli að verða hófleg eða jafnvel hverfandi, en tíminn verður að leiða það í ljós.

Í vikulok kom fram tilboð frá Seðlabanka Íslands til eigenda skuldabréfa ríkissjóðs Íslands í evrum sem eru á gjalddaga 2011 og 2012.  Áður hafði Seðlabankinn keypt hluta þessara bréfa á markaði, en útistandandi eru um 800 milljónir evra (130 milljarða króna) sem bankinn hefur í hyggju að kaupa.

Um mjög jákvæðar fréttir er að ræða og mun Seðlabankinn fá verulegar fjárhæðir með betri ávöxtun á gjaldeyrisforðann verði uppkaupin að veruleika.  Hins vegar má velta því fyrir sér af hverju þetta var ekki gert fyrr og þá aðilum boðið að skila inn tilboðum, en í stað þess býðst bankinn til að kaupa bréfin á nafnvirði.

Ávöxtunarkrafan hefur verið mun hærri en vextir bréfanna, sem kemur fram í lægra verði.  Velta má fyrir sér hvort þessi aðgerð tengist höfnun Icesave samkomulagsins. Í fljótu bragði virðist leiðin skynsamleg óháð niðurstöðu Icesave kosninganna.

Koma verður í ljós hvort ríkissjóður reyni að sækja sér aukið fé á næstunni með útboði á erlendum mörkuðum, en margir telja að hann geti rutt brautina fyrir aðra innlenda aðila.

Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum er verulegur og samkvæmt bráðabirgða tölum hagstofunnar var hann um 164 milljarðar króna á árinu 2010.  Halli á þáttatekjum mælist hinsvegar mun hærri en hann er í raun og spilar þar inní vaxtagjöld innlendra fyrirtækja sem eru í slita- og gjaldþrotameðferð sem aldrei verða greidd.

Því er ljóst að hagkerfið í heild á að geta greitt niður erlendar skuldir nokkuð hratt á næstu árum og þannig bætt erlenda stöðu og þáttatekjuhallann enn frekar.  Sjá má þessa leitni nú þegar hjá ýmsum aðilum og má þar nefna Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, sjávarútvegsfyrirtækin og nú síðast ríkissjóð.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 217,2144 0,64% 0,25% 0,93% 4,25% 4,41% -5,27%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 18. apríl 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.