Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Skuldabréf

Í þessari stuttu viku stóðu löng verðtryggð skuldabréf nánast í stað, en lækkunin var 0,01% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,2%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu um 0,34%.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans var á miðvikudaginn og eru vextirnir óbreyttir, 4,25%. Verðbólga hefur farið hækkandi og á Seðlabankinn von á því að svo verði áfram. Óvissa er um hvert vextir bankans stefna, en bankinn hefur bent á að skammtíma raunstýrivextir hafi farið lækkandi.

Það verður að teljast sérstak að bankinn telji að jafnvel sé þörf á auknu aðhaldi á næstunni þegar litið er til þess að verðbólgan er að miklu leyti innflutt, en ekki drifin áfram af eftirspurn. Leiða má að því líkum að hækkandi stýrivextir komi hart niður á einkaneyslu og fjárfestingu atvinnulífsins og hafi þar með mjög slæm áhrif á þann litla hagvöxt sem virðist vera að myndast.

Líklegra er að kröftugur hagvöxtur og eðlilegt viðskiptaumhverfi hér á landi hafi meiri áhrif á fjárfesta og gjaldeyrismarkaðinn fremur en hvort vextir séu lítið eitt hærri eða lægri.

 

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku hækkaði OMXI6ISK vísitalan lítillega.  Aðeins voru þrír viðskiptadagar vegna páskahátíðar.  Mest hækkaði BankNordik þessa þrjá daga, um 4,1%.

Velta með bréf á OMXI6ISK var í kringum 323 milljónir króna.  Mest velta var með bréf Marels, fyrir um 180 milljónir króna og lækkaði gengi bréfa félagsins í síðustu viku.

Marel tilkynnti um greiðslu upp á 10 milljónir evra vegna uppgjörs á lífeyrissjóðsskuldbindingum Stork samsteypunnar í Hollandi.  Marel á aðkomu að samningnum í gegnum Stork Food Systems.  Samningurinn mun eyða áhættu félagsins af ótilgreindum lífeyrisskuldbindingum til framtíðar.

Þessi áætlaði kostnaður upp á 10 milljónir evra verður bókfærður sem einskiptiskostnaður á öðrum ársfjórðungi 2011 en mun greiðast á fjórum árum.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 122,00 2,83% 2,42% -9,29% -16,45% -10,56% -20,63%
FO-AIR 110,00 0,00% -3,51% -1,79% 0,00% -5,17% -14,06%
FO-ATLA 204,50 0,00% -4,66% -4,44% 27,81% -5,98% 23,94%
ICEAIR 4,47 0,00% 1,13% 11,19% 27,71% 41,90% 44,19%
MARL 126,50 -1,94% 0,80% 10,96% 30,41% 26,50% 51,86%
OSSRu 190,50 2,97% 2,81% -2,81% -13,41% -6,16% -0,78%
OMXI6ISK 983,23 0,92% -0,56% 0,14% 3,47% 5,30% 1,92%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 26. apríl 2011)

 

Erlend hlutabréf

Hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í síðustu viku.  Heimsvísitalan MSCI hækkaði um 1,72%, S&P 500 í Bandaríkjunum hækkaði um 1,34%, DAX í Þýskalandi hækkaði um 1,63% og Nikkei í Japan um 0,84%.

Vikan byrjaði þó ekki vel þar sem alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor breytti langtímaeinkunn bandaríska ríkisins úr stöðugum í neikvæðar horfur.  Ástæðurnar fyrir breytingunni eru miklar opinberar skuldir og aukinn fjárlagahalli. Ríkið er þó ennþá með einkunnina AAA.

Þetta hafði mikil áhrif á hlutabréfamarkað um heim allan sem lækkaði í kjölfarið.  Markaðir hækkuðu þó á ný þegar leið á vikuna meðal annars vegna jákvæðra frétta af húsnæðismarkaðinum í Bandaríkjunum og vegna betri uppgjöra en reiknað var með frá fyrirtækjum eins og Apple og Morgan Stanley.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1361,03 1,72% 2,39% 2,97% 10,92% 6,05% 10,49%
Þýskaland (DAX) 7295,49 1,63% 5,69% 3,82% 10,99% 6,04% 18,86%
Bretland (FTSE) 6018,30 0,37% 4,79% 2,42% 5,18% 2,35% 6,59%
Frakkland (CAC) 4021,88 1,19% 3,66% 0,44% 4,31% 6,05% 2,82%
Bandaríkin (Dow Jones) 12505,99 1,33% 2,12% 4,13% 11,73% 7,79% 11,38%
Bandaríkin (Nasdaq) 2820,16 2,01% 3,02% 3,15% 13,16% 6,52% 12,01%
Bandaríkin (S&P 500) 1337,38 1,34% 1,63% 2,98% 12,62% 6,17% 10,16%
Japan (Nikkei) 9671,96 0,84% 0,24% -8,11% 1,93% -6,55% -14,39%
Samnorræn (VINX) 106,02 1,78% 3,45% 0,52% 8,16% -0,14% 15,61%
Svíþjóð (OMXS30) 1141,13 1,54% 3,61% -0,43% 3,24% -0,84% 10,36%
Noregur (OBX) 407,49 1,09% 0,76% 3,57% 11,14% 1,70% 15,25%
Finnland (OMXH25) 2615,46 0,82% 1,77% -1,41% 4,31% -0,65% 17,34%
Danmörk (OMXC20) 466,27 0,90% 1,40% 1,55% 9,36% 2,05% 14,49%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 26. apríl 2011)

 

Krónan

Krónan veiktist aðeins í vikunni. Gengisvísitalan hækkaði um 0,33% og endaði í 217,94 stigum.

Matsfyrirtækið Moody‘s hefur staðfest óbreytta lánshæfiseinkunn Íslands í Baa3 fyrir innlendar og erlenda langtímaskuldbindingar. Er um jákvæð tíðindi að ræða og eykur þetta líkur þess að endurreisnarferlið muni ekki tefjast líkt og margir óttuðust. Þess ber þó að geta að Standard & Poors‘s ákvað fyrir skömmu að lækka ekki matið, en málið er í skoðun hjá matsfyrritækinu.

Í framhaldinu af umræðum um stýrivexti hér að framan þá verður ekki séð að vextir Seðlabankans hafi veruleg áhrif á gengi krónunnar meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði og fjárfestar vilja losa sínar stöður í krónum. Lítið eitt hærri óverðtryggðir vextir draga ekki úr áhuga þeirra á að flytja sína fjármuni.

Því er það umhugsunarefni hvað seðlabankinn er og hefur verið tregur til að lækka vexti  miðað við aðstæður.

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 217,94 0,33% 0,41% 1,24% 4,37% 4,76% -5,34%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 26. apríl 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Ottó Biering Ottósson, sviðsstjóri á eignastýringarsviði.