Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Í vikunni hækkaði verð verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,71% og millilöng verðtryggð bréf hækkuðu um 0,74%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu hins vegar um 0,27%.

Á fimmtudag var vísitala neysluverðs birt og reyndist verðlag hafa hækkað um 0,78% frá síðustu mælingu. Í kjölfarið lækkuðu óverðtryggðu bréfin aðeins og þau verðtryggðu hækkuðu. Verðlag hefur því hækkað um 2,35% innan ársins, þ.e. frá 1. janúar til loka maí.

Þetta er mun meiri hækkun en reiknað var með og er aðalskýringin hækkun bensínverðs og veiking krónunnar. Auk þess hefur fasteignaverð hækkað meira en reiknað var með. Framhaldið ræðst að mestu af áðurnefndum þáttum og til viðbótar koma svo áhrif kjarasamninga.

Þessi aukna verðbólga er aðalástæða þess að verðtryggðu bréfin hafa hækkað vel frá áramótum á sama tíma og óverðtryggðu bréfin hafa átt erfitt uppdráttar. Verðbólguálagið er orðið mjög hátt og ljóst að fjárfestar virðast vera svartsýnir um að markmið SÍ um 2,5% verðbólgu náist næstu árin.

Innlend hlutabréf

Í vikunni hækkaði OMXI6ISK vísitalan um 1,53%.  Mest hækkuðu bréf í Marel, um 1,98%.  BankNordik lækkaði eitt félaga í vísitölunni, um 0,39%.

Velta með bréf á OMXI6ISK var í kringum 424 milljónir króna.  Mest velta var með bréf Marels, fyrir um rúmar 160 milljónir króna.

Marel skilaði í vikunni uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung 2011.  Uppgjörið var gott og er félagið greinilega áfram á góðri leið.  Fram kemur að tekjur þessa tímabils námu 153,5 milljónum evra, sem er 19,1% aukning samanborið við tekjur af kjarnastarfsemi á fyrsta ársfjórðungi 2010.

EBITDA var 23,3 milljónir evra, sem er 15,2% af tekjum og hagnaður nam 8,8 milljónum evra.  Athyglisvert er að EBITDA hlutfallið er nú búið að vera stöðugt 5 ársfjórðunga í röð eða nokkuð nálægt 15%.

Ljóst er að Marel er farið að njóða góðs af lægri fjármagnskostnaði vegna endurfjármögnunar lána félagsins á síðustu misserum.  Efnahagsreikningurinn er sterkur og eru nettó skuldir félagsins nú 247,6 milljónir evra samanborið við 286,3 milljónir í lok fyrsta ársfjórðungs 2010.  Handbært fé frá rekstri er áfram traust og nemur 14,1 milljón evra á fyrsta ársfjórðungi, fyrir fjármagnsliði og skatta.

Í kynningu forstjóra kom fram að pantanastaðan er  góð og virði fyrirliggjandi pantana aldrei verið hærra. Einnig kom fram að félagið nýtur góðs af því að hafa á undanförnum tveimur árum fjárfest af sama krafti og áður í nýsköpun og vöruþróun.

Á föstudaginn voru markaðir í Bretlandi lokaðir vegna brúðkaups Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton sem fram fór í Westminster Abbey í London.  En einungis ein viðskipti voru á hlutabréfamarkaði hér heima fram yfir athöfn sem lauk í kringum hádegi.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 126,50 -0,39% -2,69% -7,66% -17,32% -10,92% -23,33%
FO-AIR 110,00 0,00% -3,51% -1,79% -1,79% -5,17% -13,39%
FO-ATLA 207,00 1,22% -3,94% -3,27% 16,29% -4,83% 28,17%
ICEAIR 4,52 1,12% 12,44% 29,14% 29,14% 43,49% 45,81%
MARL 129,00 1,98% 0,39% 7,50% 33,26% 29,00% 37,82%
OSSRu 194,00 1,84% 0,52% -7,62% -9,13% -4,43% -1,02%
OMXI6ISK 998,23 1,53% -0,26% -1,13% 5,65% 6,91% -0,57%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 2. maí 2011)

 

Erlend hlutabréf

Nokkur hækkun var á helstu hlutabréfamörkuðum í vikunni.  Heimsvísitala MSCI hækkaði um 2,03%, DAX í Þýskalandi um 3,00% og Nikkei í Japan um 1,84%.

Matsfyrirtækið Standard & Poor’s breytti lánshæfismati Japans úr stöðugum í neikvæðar horfur. Ástæðan fyrir þeim breytingum eru náttúruhamfarirnar sem urðu í mars en talið er að japanska ríkið þurfi að leggja 600 milljarða dala í uppbyggingu sem eykur fjárlagahalla ríkissjóð mikið.  Einkunn Japans er AA- fyrir langtímaskuldbindingar.

Minni hagvöxtur mældist í Bretlandi en spár gerðu ráð fyrir.  Hagvöxtur í Bretlandi mældist á fyrsta ársfjórðungi 0,5%, en á síðasta árfjórðungi 2010 dróst hagkerfið saman um 0,5% þannig að enginn hagvöxtur hefur mælst í Bretlandi frá því í september 2010.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1388,62 2,03% 3,52% 4,19% 12,53% 8,48% 15,86%
Þýskaland (DAX) 7514,46 3,00% 5,69% 5,40% 13,78% 9,50% 23,40%
Bretland (FTSE) 6068,16 0,96% 2,32% 3,21% 6,96% 2,88% 8,05%
Frakkland (CAC) 4106,92 2,11% 1,68% 1,39% 6,65% 8,36% 8,02%
Bandaríkin (Dow Jones) 12810,54 2,43% 3,51% 6,38% 14,50% 10,65% 16,37%
Bandaríkin (Nasdaq) 2873,54 1,89% 3,01% 4,51% 13,42% 8,32% 16,75%
Bandaríkin (S&P 500) 1363,61 1,96% 2,34% 4,57% 14,25% 8,43% 14,91%
Japan (Nikkei) 9849,74 1,84% 5,76% -3,44% 8,71% -2,20% -8,43%
Samnorræn (VINX) 107,18 1,09% 1,00% 1,56% 10,65% 1,13% 16,23%
Svíþjóð (OMXS30) 1162,84 1,90% 1,44% 2,80% 5,97% 0,56% 10,27%
Noregur (OBX) 413,39 1,45% -0,13% 1,66% 9,33% 3,39% 18,91%
Finnland (OMXH25) 2637,40 0,84% -0,34% -0,76% 7,42% 0,83% 17,86%
Danmörk (OMXC20) 462,81 -0,74% -0,78% 0,69% 8,87% 1,73% 13,12%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 2. maí 2011)

 

Krónan

Krónan veiktist aðeins í vikunni. Gengisvísitalan hækkaði um 0,11% og endaði í 218,19 stigum. Frá áramótum hefur krónan veikst um 4,65%. Þróun helstu gjaldmiðla er mjög misjöfn og hefur krónan veikst um 6,68% gagnvart evru, 3,35% gagnvart sterlingspundi en styrkst um 3,78% á móti bandaríkjadal. Mest er veikingin gagnvart sænsku krónunni 7,07% og 6,94% gagnvart þeirri norsku.

Erfitt er að sjá annað fyrir sér en að krónan haldist áfram veik og gefi frekar eftir næstu misseri, þrátt fyrir góðan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum. Þar má nefna nokkur atriði, svo sem mikinn þáttatekjuhalla og þungar afborganir ýmissa aðila af erlendum lánum.

Einnig skipta gjaldeyrishöftin máli, en þau draga úr vilja aðila til að flytja fjármuni til landsins og breyta í krónur og ekki síst telja margir að fyrirsjáanlegt afnám haftanna muni fremur hafa áhrif til veikingar krónunnar en hitt.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 218,19 0,11% 0,44% 1,32% 5,13% 4,88% -4,87%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 2. maí 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Ottó Biering Ottósson, sviðsstjóri á eignastýringarsviði.