Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.  Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Í vikunni lækkaði verð ríkisskuldabréfa. Löng verðtryggð skuldabréf lækkuðu um 1,8% og millilöng verðtryggð bréf lækkuðu um 1,09%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu svo um 0,51%.

Verðtryggingarálagið lækkaði því töluvert í vikunni enda var það orðið ansi hátt. Hugsanlega hefur farsæl lausn kjarasamninga og lækkun á eldsneytisverði haft neikvæð áhrif á verðtryggð bréf. Annað sem kom í ljós í síðustu viku og gæti haft áhrif á verð skuldabréfa var að einn nefndarmanna í peningastefnunefndinni vildi hækka vexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi á meðan að aðrir vildu hafa þá óbreytta.

Á föstudaginn voru Lánamál ríkisins með útboð og voru tveir flokkar í boði, RB12 og RB16. Er skemmst frá því að segja að mjög lítil þátttaka var í útboðinu. Heildareftirspurnin í báða flokkana var 4,4 milljarðar og tilboðum var einungis tekið fyrir um 1,5 milljarð. Fjárfestar virðast því í augnablikinu hafa lítinn áhuga á stuttum óverðtryggðum bréfum.

 

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði OMXI6ISK vísitalan um 0,26%.  Mest hækkuðu bréf Icelandair, um 5,09% en félagið birti uppgjör fyrir 1.ársfjórðung í lok síðustu viku.

Velta með bréf á OMXI6ISK var í kringum 428 milljónir króna.  Mest velta var með bréf Icelandair, fyrir um rúmar 215 milljónir króna.

Heildarvelta Icelandair Group á fyrsta fjórðungi ársins var 16 milljarðar króna og minnkaði um 2% á milli ára.  EBITDA var neikvæð um 200 milljónir króna en jákvæð um 200 milljónir árið á undan.  Tap eftir skatta var 1,1 milljarður króna en tap fyrir sama fjórðung 2010 nam 1,9 milljarði króna.

Í tilkynningu frá forstjóra félagsins kemur fram að tap félagsins lækki á milli ára þrátt fyrir miklar hækkanir á eldsneyti en olíuverð var að meðaltali 42% hærra í ár en á sama tíma í fyrra.  Kostnaðarhækkun samstæðunar vegna þessa nemur 800 milljónum.  Í ljósi ytri aðstæðna sé þetta ásættanleg niðurstaða.

Þá kemur fram að sætanýting Icelandair hefur aldrei mælst betri á þessu tímabili, var 71%. Bókunarstaða félagsins er góð og stefnir í metfjölgun ferðamanna til landsins á árinu.  Félagið stendur við fyrri EBITDA spá fyrir árið í heild, 9,5 milljarða króna.

Össur kynnti uppgjör í vikunni fyrir fyrsta ársfjórðung.  Segja má að þetta sé gott uppgjör, söluvöxtur 11% og hagnaður um 8 m. USD.  Afkoma eftir skatta var mun betri en reiknað hafði verið með sökum hagstæðari fjármagnsliða.  EBITDA-hagnaður nam 18,3 m.USD og EBITDA-hlutfall af tekjum var 18,8% en markmið félagsins er að hlutfallið verði  20-21% fyrir árið.

Í tilkynningu frá forstjóra félagsins kom fram ánægja með uppgjörið og að árangur fyrsta ársfjórðungs sé góð byrjun fyrir árið.  Þar kemur fram að mikill söluvöxtur var í spelkum og stuðningsvörum, einkum í Bandaríkjunum og eru það mjög ánægjulegar fréttir.

Á kynningarfundi félagsins var einnig fjallað um endurfjármögnun félagsins en í mars mánuði skrifaði félagið undir fjármögnunarsamning við þrjá alþjóðlega banka, ING Bank, Nordea og SEB um langtíma fjármögnun að fjárhæð 231 milljón USD.  Fram kom að þessi samningur markar mikilvæg tímamót í fjárhagslegum stöðuleika félagsins.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 127,00 0,40% 0,40% -8,30% -16,90% -10,56% -20,63%
FO-AIR 110,00 0,00% -3,51% -1,79% -6,78% -5,17% -13,39%
FO-ATLA 202,50 -2,17% -0,98% -4,48% 6,58% -6,90% 25,39%
ICEAIR 4,75 5,09% 9,45% 8,94% 35,71% 50,79% 53,23%
MARL 127,00 -1,55% 0,79% 7,63% 33,68% 27,00% 46,99%
OSSRu 194,00 0,52% -1,52% -7,14% -8,02% -3,94% 5,41%
OMXI6ISK 995,62 -0,26% 0,33% -1,08% 5,92% 6,63% 5,55%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 9. maí 2011)

 

Erlend hlutabréf

Nokkur lækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku.  S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 1,72%, DAX í Þýskalandi um 0,30%, FTSE í Bretlandi um 1,53% og heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 2,11%.

Ástæðan fyrir lækkununum var meðal annars lakari hagtölur í Bandaríkjunum en reiknað var með en hagvöxtur mældist aðeins 1,8% á fyrsta ársfjórðungi.  Hagkerfið óx um 3,1% fjórðunginn þar á undan og er því um töluverðan viðsnúning að ræða.

Seðlabanki Evrópu ákvað í síðustu viku að halda vöxtum óbreyttum á evrusvæðinu eða í 1,25%.  Vextir voru síðast hækkaðir 7. apríl og má búast við að vextir verði hækkaðir enn frekar á næstunni ef verðbólga heldur áfram að aukast.  Verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu er að hún sé undir eða nálægt 2% en í dag mælist 12 mánaða verðbólga 2,7% á svæðinu.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1359,27 -2,11% 0,58% 1,26% 7,98% 6,19% 23,62%
Þýskaland (DAX) 7492,25 -0,30% 5,69% 1,66% 9,65% 7,64% 30,23%
Bretland (FTSE) 5976,77 -1,53% -1,48% -1,42% 1,55% 1,12% 16,46%
Frakkland (CAC) 4058,01 -1,19% -0,88% -1,58% 2,04% 5,82% 18,67%
Bandaríkin (Dow Jones) 12638,74 -1,34% 2,09% 3,26% 11,39% 9,17% 21,76%
Bandaríkin (Nasdaq) 2827,56 -1,60% 1,70% 1,38% 10,32% 6,58% 24,80%
Bandaríkin (S&P 500) 1340,20 -1,72% 0,91% 1,46% 10,45% 6,56% 20,64%
Japan (Nikkei) 9859,20 0,10% 0,27% -7,76% 1,03% -4,25% -5,50%
Samnorræn (VINX) 105,06 -1,98% -1,54% -1,72% 5,96% -1,12% 27,47%
Svíþjóð (OMXS30) 1157,83 -0,43% 0,23% 1,69% 3,64% -0,14% 22,17%
Noregur (OBX) 399,27 -3,42% -4,43% -0,22% 4,94% -0,25% 25,67%
Finnland (OMXH25) 2577,13 -2,29% -3,10% -4,75% 1,79% -1,95% 28,79%
Danmörk (OMXC20) 459,05 -0,81% -2,97% -2,44% 5,45% -0,13% 23,14%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 9. maí 2011)

 

Krónan

Krónan styrktist aðeins í vikunni. Gengisvísitalan lækkaði um 0,09% og endaði í 217,99 stigum. Frá áramótum hefur krónan veikst um 4,79%.

Á föstudaginn kom frétt frá SÍ um að ríkissjóður hafi greitt upp skuldabréf fyrir 57 milljarða króna. Þetta voru skuldabréf með gjalddaga 2011 og 2012 og var því um uppkaup á eftirmarkaði að ræða. Þessi uppkaup ættu að styrkja stöðu íslenska ríkisins á erlendum skuldabréfamarkaði og auka líkur á að hægt verði að framlengja það sem eftir stendur af þessum flokkum (um 73 milljarðar) ef þurfa þykir.

Þessi uppkaup ættu ennfremur að hafa jákvæð áhrif á matsfyrirtækin þegar þau taka lánshæfismat íslenska ríkisins næst til endurskoðunar.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 217,999 -0,09% 0,95% 1,28% 5,40% 4,79% -1,84%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 9. maí 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson,  forstöðumaður eignastýringar.