Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

Innlend skuldabréf

Í vikunni hækkaði verð langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa um 0,46% og verð millilangra verðtryggðra bréfa hækkaði um 0,74%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu hins vegar um 0,24%.

Verðtryggingarálagið heldur því áfram að hækka og er álagið til sex ára um 4,66%.  Það er því ljóst að það er töluvert mikill og vaxandi verðbólguótti hjá fjárfestum.  Gengisþróun krónunnar ræður miklu um breytingu verðlags á Íslandi og því einsýnt að fjárfestar reikna frekar með því að krónan veikist næstu árin en að hún styrkist.

Á föstudaginn var útboð hjá Lánamálum ríkisins.  Boðinn var út einn frekar langur verðtryggður flokkur og einn mjög stuttur óverðtryggður.  Það var frekar lítil eftirspurn eftir óverðtryggðu bréfunum. Seldir voru 2,6 milljarðar að nafnverði á 3,12% kröfu.  Í verðtryggða hlutanum voru seldir 4,6 milljarðar að nafnverði á 2,87% kröfu.

 

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku hækkaði OMXI6ISK vísitalan lítillega.  Mest hækkaði BankNordik, um 2,85%.

Velta með bréf á OMXI6ISK var um 106 milljónir króna.  Sem fyrr voru mest viðskipti með bréf Marels og Icelandair eða um 80% viðskipta.  Mest velta var með bréf Icelandair, fyrir um 44 milljónir króna og hækkaði gengið um 1,03% í síðustu viku.

Sem fyrr eru lítill viðskipti á hlutabréfamarkaði og fjöldi daglegra viðskipta yfirleitt undir 10 færslum.  Markaðurinn kallar eftir fleiri fyrirtækjum og nánari upplýsingum um skráningu nýrra félaga.   Forsvarsmenn Kauphallar hafa í ræðum og riti verið með yfirlýsingar um nýskráningar á árinu en nú þegar árið er nánast hálfnað er fátt sem bendir til þess að þessi markaður sé að taka einhverjum breytingum.

Vikan hefur verið annasöm hjá BankNordik, félagið skilaði 3 mánaða uppgjöri í vikunni.  Þar kom fram að hagnaður tímabilsins var 6,6 millj. DKK sem er veruleg lækkun frá fyrra ári.  Tekjur af grunnstarfsemi bankans dragast saman milli ára, auk þess sem útlán hafa dregist saman og vaxtamunur lækkað.

Rekstur bankans hefur verið þungur  þar sem kostnaður hefur aukist mikið eftir kaupin á tólf bankaútibúum í Danmörku og Grænlandi á síðasta ári.  Efnahagsleg staða bankans er  góð og mjög góð ef miðað er við danska banka.  Efnahagur bankans er traustur.  CAD hlutfall í lok mars var 17,1% en það þarf að lágmarki að vera 8%.

Í vikunni var einnig kynnt að BankNordik hefði  keypt hluta af hinum gjaldþrota banka Amagerbanken.  Þeir taka við öllum viðskiptavinum bankans, bæði einstaklingum og fyrirtækjum og fjölgar viðskiptavinum um 90 þúsund.  Fyrir þetta borgar bankinn 235 milljónir danskra kr. eða um 5 milljarða kr.  Þessi kaup hafa verið samþykkt af danska fjármálaeftirlitinu.

Í lok vikunnar kynnti matsfyrirtækið Moody's  lækkað lánshæfismat fyrir sjö af stærstu bönkum Danmerkur. Lækka einkunnir bankana bæði fyrir langtímaskuldbindingar og fyrir fjárhagslegan styrk.  Einkunn BankNordik lækkar úr Baa1 í Baa2.

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 126,50 2,85%
-0,39% 3,69% -13,95% -10,92% -16,78%
FO-AIR 110 0,00% 0,00% -0,90% -6,78% -5,17% -13,39%
FO-ATLA 198
-2,46% -3,18% -19,18% 4,21% -8,97% 22,60%
ICEAIR 4,90 1,03% 9,62% 6,52% 48,48% 55,56% 58,06%
MARL 128 -0,97% 1,19% 9,40% 31,96% 28,00% 70,67%
OSSRu 196 0,00% 2,89% -3,92% -11,71% -3,45% 11,36%
OMXI6ISK 1004 0,52% 2,16% 0,78% 5,36% 7,57% 14,78%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 23. maí 2011)

 

Erlend hlutabréf

Nokkur lækkun var á helstu hlutabréfavísitölum í síðustu viku.  S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 0,34%, DAX í Þýskalandi um 1,84% og heimshlutabréfavísitalan MSCI lækkaði um 0,49%.

Markaðir í Bandaríkjunum lækkuðu þriðju vikuna í röð og enn á ný var það efnahagsástandið í  Grikklandi sem olli fjárfestum áhyggjum.  Stjórnvöld í Grikklandi hafa ekki staðið við gefin loforð og nú hefur Þróunarsjóður EFTA fryst frekari fjárframlög til landsins.  S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 2,22% það sem af er maí mánuði.

Þá lækkaði Nikkei í Japan um 0,43% í vikunni en 0,90% samdráttur mældist í landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi. Vísitalan hefur lækkað um 2,46% það sem af er mánuðinum.

FTSE hlutabréfavísitalan í Bretlandi hækkaði hinsvegar lítillega í síðustu viku eða um 0,38%.  Smásöluverslun jókst í apríl um 1,1% á milli mánaða og þarf að leita aftur til ársins 2002 til að finna viðlíka hækkun.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1336,65 -0,49% -1,79% 0,51% 10,41% 4,42% 24,50%
Þýskaland (DAX) 7266,82 -1,84% 5,69% -1,02% 6,21% 3,00% 22,17%
Bretland (FTSE) 5948,49 0,38% -3,01% -1,45% 4,59% -1,06% 15,30%
Frakkland (CAC) 3990,85 -0,70% -2,86% -2,65% 4,89% 2,68% 13,87%
Bandaríkin (Dow Jones) 12512,04 -0,66% 0,05% 3,36% 13,37% 8,07% 22,75%
Bandaríkin (Nasdaq) 2803,32 -0,89% -0,60% 2,95% 12,36% 5,67% 25,76%
Bandaríkin (S&P 500) 1333,27 -0,34% -0,31% 1,98% 12,92% 6,01% 22,58%
Japan (Nikkei) 9607,08 -0,43% -2,29% -10,57% -6,47% -7,51% -3,31%
Samnorræn (VINX) 105,71 -0,09% -2,08% 0,28% 8,19% -2,29% 26,12%
Svíþjóð (OMXS30) 1167,07 0,05% 0,05% 3,97% 4,85% -1,20% 19,70%
Noregur (OBX) 399,42 0,27% -3,60% -1,04% 7,62% -1,90% 25,12%
Finnland (OMXH25) 2578,27 -0,37% -3,29% -1,30% 4,06% -3,77% 24,15%
Danmörk (OMXC20) 462,26 -0,27% -2,38% -3,26% 5,13% -0,53% 20,10%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 23. maí 2011)

 

Krónan

Krónan gaf aðeins eftir í vikunni.  Gengisvísitalan hækkaði um 0,31% og endaði í 219,61 stigum. Krónan hefur verið í nær samfelldri veikingarhrinu frá áramótum, þó mest fyrstu tvo mánuðina.

Síðan þá hefur hægt á veikingunni en hún hefur þó verið nokkuð stöðug.  Frá áramótum hefur krónan veikst um tæp 5,3% en þróun á verði einstakra gjaldmiðla er þó mjög misjöfn.  Evra og norðurlandamyntirnar hafa allar hækkað í kringum 7% í verði en dollar og japanskt jen hafa nær ekkert breyst í verði.

Í dag (mánudag) tilkynnti Seðlabanki Íslands að hann byðist til að kaupa krónur fyrir gjaldeyri með uppboðsferli.  Samhliða því munu þeir sem eiga samþykkt tilboð í gjaldeyrisútboðinu kost á því að selja Lánamálum ríkisins stutt krónuskuldabréf ríkissjóðs.  Áhrifin verða þau að greitt verður inn á innlendar skuldir ríkissjóðs af gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Það verður fróðlegt að sjá á hvaða verði fjárfestar eru tilbúnir að selja krónur sínar, en gengi krónunnar á aflandsmarkaði er mun lægra er skráð gengi seðlabankans og líklegast að verðið muni vera einhvers staðar þar á milli.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 219,61 0,31% 1,22% 1,34% 6,34% 5,56% 0,17%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 23. maí 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.