Vikulegar markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa

Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku.


Vikulega birta Íslensk verðbréf samantekt um þróun helstu eignaflokka undanfarna viku. Smelltu hér ef þú vilt skrá þig á listann.

 

Innlend skuldabréf

Í vikunni lækkaði verð langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa um 1,65% og verð millilangra verðtryggðra bréfa hækkaði um 0,7%. Millilöng óverðtryggð skuldabréf lækkuðu hins vegar mjög mikið eða um 2,71%.

Það sem hafði áhrif á skuldabréfamarkaðinn voru verðbólgutölur en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,94% en flestir markaðsaðilar spáðu um  0,7% hækkun.  Það er því ljóst að verðbólgan er á töluvert miklu skriði og er hækkun verðlags um 3,31% á fyrri helming ársins og líklegt að verðbólga ársins verði 4,5-5% sem er vel yfir markmiði SÍ.

Í kjölfarið á tilkynningunni lækkuðu óverðtryggð bréf snögglega í verði.  Verðtryggð bréf lækkuðu líka þar sem fjárfestar telja að þetta auki líkur á að SÍ hugi að stýrivaxtahækkunum.  Ástæðan er m.a. að 12 mánaða verðbólgan er komin vel upp fyrir markmið SÍ.

Ennfremur eru horfur fyrir árið frekar slæmar, krónan hefur veikst, launahækkanir vegna nýgerðra kjarasamninga eru í hærra lagi og svo virðist sem fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér. Allt eru þetta þættir sem öllu jöfnu hafa áhrif til hækkunar á verðbólgu.

 

Innlend hlutabréf

Í síðustu viku lækkaði  OMXI6ISK vísitalan um 1,25%.  Mest lækkaði gengi Icelandair eða um 2.65% sem rekja má til óvissu sem skapaðist við eldgosið í Grímsvötnum.

Velta með bréf á OMXI6ISK var um 10,4 milljarðar.  Þar af voru ein viðskipti með bréf í Össur fyrir 8,9 milljarða.  Fyrir utan þessi einstöku viðskipti voru mest viðskipti með bréf í Marel að fjárhæð 1,1 milljarður.  Í vikunni voru að meðaltali 25,4 viðskipti á dag.

Upphaf vikunnar einkenndist af óvissu vegna eldgossins í Grímsvötnum sem hófst um síðustu helgi og það hafði töluverð áhrif á gengi hlutabréfa í Icelandair sem lækkaði um  7% á mánudeginum.  Síðar í vikunni rættist úr og varð röskun óveruleg og gaf Icelandair út þá yfirlýsingu að tjón félagsins væri óverulegt og að afkomuspá ársins héldist óbreytt.

Uppgjör fyrstu þriggja mánaða ársins hjá Atlantic Petroleum sýna tekjur upp á 122 millj. DKK og hagnað upp á 15 millj. DKK.  Eru það mun lægri tölur en á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Tekjurnar eru 17% lægri og hagnaður 59% lægri.  Samkvæmt afkomuspá er gert ráð fyrir að EBIT verði á bilinu 90-150 millj. DKK.  Atlantic Petrolium á nú eignahlut í 30 olíuleitar leyfum og er eignarhlutinn mismunandi, allt frá 0,03% og upp í 40%.

Framleiðsla félagsins árið 2010 nam alls 960 þúsund tunnum.  Framleiðslan fyrstu þrjá mánuði ársins voru 205.000 tunnur sem er minnkun um 25% frá síðasta fjórðungi.  Ástæður þessa eru framleiðsluerfiðleikar á tveimur helstu svæðum félagsins (Ettrick og Chestnut).

 

Félög/vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
BNORDIK 124,00
-1,98% -1,98% -0,80% -15,65% -12,68% -18,42%
FO-AIR 110,00 0,00% 0,00% 0,92% -5,17% -5,17% -13,39%
FO-ATLA 196,00 -1,01% -5,31% -15,88% 3,16% -9,89% 21,36%
ICEAIR 4,77 -2,65% 5,53% 6,95% 25,53% 51,43% 53,87%
MARL 125,50 -1,95% -2,71% 7,26% 25,50% 25,50% 66,67%
OSSRu 197,00 0,51% 1,55% 0,00% -5,74% -2,96% 8,24%
OMXI6ISK 992,00 -1,25% -0,64% 1,54% 6,27% 6,22% 11,91%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Nasdaq OMX Nordic, 30. maí 2011)

 

Erlend hlutabréf

Hlutabréf héldu áfram að lækka í vikunni, S&P 500 í Bandaríkjunum lækkaði um 0,16%, DAX í Þýskalandi um 1,42%, FTSE í Bretlandi um 0,16% og Nikkei í Japan um 0,89%.  Rekja má lækkanir að einhverjum leyti til þess að fjárfestar hafa miklar áhyggjur af skuldugustu ríkjum Evrópu.

Standard & Poor’s lækkaði lánshæfi Ítalíu, ástæða lækkunarinnar  er slök hagvaxtarspá og efasemdir um að ríkið ráði við skuldir sínar.  Lækkunin  hafði neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaði og óttast fjárfestar að Ítalía verði næsta ríki Evrópu til að lenda í sams konar skuldavanda og Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland.

Gosið í Grímsvötnum hafði mikil áhrif á evrópsk flugfélög í upphafi vikunnar.  Verð hlutabréfa féll mikið en þegar leið á vikuna kom verðið aftur til baka þegar fréttir bárust af því að gosið væri í rénum og útlit fyrir að flugumferð myndi raskast lítið.

 

Vísitölur Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
Heimsvísitala (MSCI) 1338,47 0,14% -3,61% -0,98% 12,14% 4,56% 23,90%
Þýskaland (DAX) 7163,47 -1,42% 5,69% -1,14% 7,49% 3,98% 20,91%
Bretland (FTSE) 5938,87 -0,16% -2,16% -0,92% 7,43% 0,66% 14,46%
Frakkland (CAC) 3950,98 -1,00% -3,70% -3,78% 9,55% 3,95% 12,52%
Bandaríkin (Dow Jones) 12441,58 -0,56% -2,88% 1,76% 13,04% 7,46% 22,74%
Bandaríkin (Nasdaq) 2796,86 -0,23% -2,67% 0,52% 11,95% 5,43% 23,92%
Bandaríkin (S&P 500) 1331,10 -0,16% -2,38% 0,29% 12,75% 5,84% 22,19%
Japan (Nikkei) 9521,94 -0,89% -3,50% -10,53% -4,35% -7,08% -2,64%
Samnorræn (VINX) 104,74 -0,92% -1,90% -1,30% 7,76% -1,03% 23,31%
Svíþjóð (OMXS30) 1149,12 -1,54% -0,75% 2,25% 4,25% -0,13% 17,87%
Noregur (OBX) 399,82 0,10% -3,03% -1,82% 10,96% 0,11% 25,78%
Finnland (OMXH25) 2537,45 -1,58% -3,25% -1,90% 4,99% -2,93% 21,36%
Danmörk (OMXC20) 453,27 -1,94% -1,54% -3,79% 7,28% -0,41% 17,75%

(Verðbreyting í viðkomandi mynt, Bloomberg, 30. maí 2011)

 

Krónan

Krónan hélt áfram að gefa eftir í síðustu viku.  Gengisvísitalan hækkaði um 0,53% og endaði í 220,78 stigum og hefur vísitalan hækkað um 1,19% í maí.

Krónan hefur veikst frá áramótum þrátt fyrir ströng gjaldeyrishöft og því ljóst að það er söluþrýstingur á krónunni.  Það er líklegt að fjárfestar og útflytjendur óttist að krónan gefi eftir þegar höftin verða afnumin og breyti gjaldeyri því ekki í krónur umfram það sem nauðsynlegt er.

SÍ er að stíga fyrsta skrefið í afnámi hafta með gjaldeyrisuppboðinu sem verður 7. júní n.k.  Útboðið er í tveimur skrefum og ætti niðurstaða þeirra að gefa vísbendingu um tvennt.  Annars vegar hversu óþolinmótt fjármagnið er sem er fast í krónunni og hins vegar hversu viljugir fjárfestar, sem eiga gjaldeyri, eru að bæta við krónueign sína.

 

Vísitala Lokagildi Vika 1 mán 3 mán 6 mán Frá áram. 12 mán
GVT ISK 220,78 0,53% 1,56% 1,68% 5,65% 6,12% 2,08%

(Gengisvísitala krónunnar, Bloomberg, 30. maí 2011)

 

Fyrirvari

Markaðsfréttir Íslenskra verðbréfa eru unnar af starfsmönnum Íslenskra verðbréfa hf. Þær eru stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í þeim sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru.

Við vinnslu fréttanna er stuðst við innlendar og erlendar upplýsinga- og fréttaveitur sem taldar eru áreiðanlegar, en einnig við opinberar upplýsingar, eigin úrvinnslu og mat starfsmanna á hverjum tíma. Íslensk verðbréf hf. ábyrgjast þó ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra.

Markaðsfréttirnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum.

Ábyrgðarmaður Vikulegra markaðsfrétta Íslenskra verðbréfa er Björn Snær Guðbrandsson, forstöðumaður eignastýringar.